10.02.1971
Neðri deild: 45. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1766 í B-deild Alþingistíðinda. (1872)

128. mál, eyðing refa og minka

Frsm. meiri hl. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Á þskj. 319 er nál. frá meiri hl. landbn. um frv. til breyt. á l. um eyðingu refa og minka. Meiri hl. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt, en minni hl. hefur nokkrar breytingar fram að bera við frv. og hefur skilað sérstöku áliti.

Þau lög, sem í gildi eru um eyðingu refa og minka, eru frá árinu 1957, nr. 52, 5. júní það ár. Uppistaða þeirra er sú, að sveitarstjórnir eiga að ráða veiðimenn til að vinna að eyðingu beggja þessara meindýra, vargdýra, undir yfirstjórn sýslumanns á hverjum stað og veiðistjóra, sem er einn af starfsmönnum Búnaðarfélags Íslands. Nokkuð er það á valdi sveitarstjórna, með hvaða kjörum þessir menn eru ráðnir. Þó tiltaka lögin, að veita skuli verðlaun fyrir að vinna minka og einnig fyrir að vinna hlauparefi. Einnig er heimilt að semja um verðlaun fyrir grendýr og yrðlinga og þá um leið að öðru leyti fyrir að vinna refagreni. Þegar lögin voru sett 1957, þótti við hæfi, að borgaðar væru fyrir að vinna mink 200 kr. og fyrir að vinna hlauparef 350 kr. Árið 1964 flutti ég brtt. við þessi lög, sem samþykktar voru. Aðalbreytingin var sú, að bannað skyldi að eitra fyrir refi, en eftir lögunum frá 1957 var það skylt. Flestir eða allir munu nú vera sammála um það, að landhreinsun var að því, að þetta var fellt úr gildi að nota strykníneitur við eyðingu refa. Eitrunin var búin að valda miklu tjóni á fuglalífi í landinu og var auk þess að mörgu leyti hættuleg bæði mönnum og skepnum fyrir utan það, að aðferðin er ekki aðgengileg.

Önnur breyting var sú, að verðlaun fyrir vinnslu minka hækkuðu úr 200 kr. í 350 kr. og einnig voru hækkuð verðlaun fyrir að vinna hlauparefi úr 350 kr. upp í 700 kr. Síðan þetta var eru liðin 6 ár, og í þessu frv. er lagt til, að nú verði greiddar 700 kr. fyrir mink og 1100 kr. fyrir hlauparef. Einnig er hlutfallsleg hækkun á verðlaunum fyrir að vinna grendýr og yrðlinga. Mín skoðun er sú og á nokkuð miklum kunnugleika byggð, að 700 kr. séu nú nokkuð við hæfi fyrir að veiða mink. Er það líka í samræmi við álit veiðistjóra í bréfi, sem hann hefur skrifað landbn. um þetta efni. Svipaðar tölur hafa sveitarstjórnarmenn nefnt við mig einnig, sem óskað hafa eftir því, að lögum um þetta efni verði breytt. Hins vegar telur veiðistjóri, að 1100 kr. sé helzt til of lítið fyrir að vinna hlauparefi, ef vinnsla refa á vetrum eigi að haldast í sæmilegu horfi. Ég tel nauðsynlegt, að þessar breytingar, sem fyrir liggja og meiri hl. landbn. hefur mælt með, nái nú fram að ganga á þessu þingi, og bendi á, að það getur stefnt þessu frv. í nokkra tvísýnu að koma með miklar brtt. við það. Annað frv. var flutt hér í vetur um þetta sama efni — raunar mjög samhljóða þessu með þeirri breytingu þó, að þar er gengið nokkru lengra, að því er snertir hækkun á tölum til verðlauna fyrir að vinna minka og refi.

Engum mun blandast hugur um það, að vel verður að vinna að þessum málum, ef halda á minknum í skefjum, svo að hann flæði ekki meira yfir landið en orðið er. Samkv. lögum hvílir ábyrgðin á sveitarstjórnum í því að annast framkvæmd þessara mála, og hefur sú skipan gefizt það vel, að ég álít, að vanda þurfi vel til, ef breytingar á að gera á þeirri skipan. Hér liggur fyrir á öðru þskj. tillaga þess efnis, að kostnaður af minkadrápi verði allur lagður á ríkissjóð hér eftir. Þetta er að sjálfsögðu vel umræðuverð tillaga, en verði sú skipan upp tekin, hlyti af því að leiða, að breyta yrði stjórn minkaveiðanna og aðskilja þær frá refaveiðunum. Ég efast um, að það sé heppilegt. A.m.k. þarf þá að athuga ýmislegt fleira í því sambandi. Fjárhagslegt atriði tel ég þetta ekki neitt að ráði. Aðalatriðið er, að sem beztur árangur náist. Á síðasta ári munu hafa unnizt um 3000 minkar. Setjum svo, að fyrir hvern hefðu verið greidd 700 kr. verðlaun. Þá gerir það um 2.Í millj. kr. alls. Sé reiknað með, að verðlaun séu greidd fyrir 3 þús. minka, þá er það svo lítill hluti, sem kemur í hlut sveitarsjóðanna, að það er varla undan því kvartandi, að mér finnst. Það eru ekki nema um 300 þús. kr., sem kæmu í hlut sveitarfélaganna, en þau greiða samkv. lögum 1/6 af kostnaðinum. Aftur á móti greiðir sýslusjóður annan 1/6, svo að alls gæti þetta þá orðið eitthvað í kringum 0.5 millj. kr., sem spöruðust fyrir sýslusjóðina og sveitarfélögin í því að flytja verðlaunin öll yfir á ríkissjóð. Eins og ég sagði, tel ég þetta ekki neitt aðalatriði. Aðalatriðið er, að vel sé unnið að þessum málum og sem allra skipulegast.

Veiðistjóri hefur hallazt að því í áliti sínu til landbn., að rétt væri að taka upp þá breytingu að færa allan kostnað af minkaveiðunum yfir á ríkissjóð og hugsar sér þá, að sýslunefnd á hverjum stað hefði yfirstjórn þessara mála í byggðarlögunum. Ég held, að það væri ekki ráðlegt að breyta þessu og taka þetta úr höndum sveitarstjórnanna og leggja það í hendur sýslumanna eða sýslumannaembættanna, sem öll hafa meira en nóg fyrir á sinni könnu og mundu naumast ná út yfir það að sinna þessum málum nógu vel eða hafa nægilegan kunnugleika og þekkingu til þess. Hins vegar tel ég, að endurskoðun á lögum um eyðingu refa og minka gæti vel komið til greina, en þar sem þetta frv. lýtur aðeins að því að hækka verðlaun þau, sem verið hafa fyrir að stunda þennan veiðiskap, en ekki því að breyta skipulagi á þessum málum, þá hef ég ekki sannfærzt um, að það væri skynsamlegt að taka upp breytta skipan á því eins og þá, sem hér er lögð til í brtt. á öðru þskj. Annars geri ég ráð fyrir, að það verði skýrt hér á eftir, og út af fyrir sig tel ég það mjög umræðuvert, að vel geti komið til mála að flytja þungann af því að reyna að eyða þessum vargi úr landinu meira en enn hefur verið gert yfir á ríkisvaldið, en þá þarf að vanda vel til þeirrar skipunar, sem upp yrði tekin á þessum málum, sem yrði þá allt önnur en nú er, þar sem sveitarfélögin annast framkvæmd þeirra að öllu leyti