10.02.1971
Neðri deild: 45. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1770 í B-deild Alþingistíðinda. (1874)

128. mál, eyðing refa og minka

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil láta í ljós ánægju með það, að till. þær, sem fram koma á þskj. 137 um breyt. á l. um eyðingu refa og minka, hafa fengið jákvæðar undirtektir og að allir, sem um málið hala fjallað, virðast hafa á það fallizt, að greiðslur fyrir að vinna refi og minka, eins og þær eru nú, séu orðnar algerlega úreltar og í engu samræmi við verðlagsbreytingar, sem orðið hafa. Þetta kemur fram í fyrsta lagi í frv. á þskj. 150, sem flutt er af fjórum hv. þm., enda þótt ég telji, að þeir í till. sínum gangi of skammt, og það kemur mjög greinilega fram hjá þeim embættismanni, sem um þessi mál fjallar; sem er veiðistjórinn, sem í raun og veru mælir með frv. á þskj. 137 að öðru leyti en því, að hann vill ekki hækka verðlaunin fyrir minka meira en upp í 700 kr. Mig minnir, að við legðum til, að þau yrðu 800 kr., sem er hlutfallslega jafnmikil hækkun frá því, sem var í lögum 1957, og sú hækkun, sem lagt er til, að verði á verðlaunum fyrir refi.

Nú segja hv. þm., sem flytja frv. á þskj. 150, að sú hækkun, sem þeir þar leggja til, svari hvergi nærri til þeirrar verðlagsbreytingar, sem orðið hefur síðan 1957, og því sé sýnt, að hér sé mjög hóflega í sakirnar farið. Þannig orða þeir þetta í grg. sinni, og ég tek undir þetta. Ég tel, að þeir hafi farið of hóflega í sakirnar. Þeir hefðu átt að fallast á þær upphæðir, sem við höfum lagt til, að greiddar verði. Þar sem ekki er um stórar upphæðir að ræða af hálfu ríkissjóðs við framkvæmd 11–12 milljarða fjárlaga, þá held ég, að við hefðum átt að sameinast um það að hækka þessar fjárhæðir alveg hlutfallslega eins og annað hefur hækkað í landinu og sérstaklega kaupgjald, en aðalkostnaðarliðurinn við þessa útrýmingu er einmitt kaupgjaldið.

Um þetta skal ég ekki hafa fleiri orð, en ég vil aðeins víkja að hinu sérstaka ákvæði, sem er í frv. okkar á þskj. 137 og minni hl. n. hefur tekið upp í sínar till., en það er um það, að eftir gildistöku hinna nýja laga endurgreiði ríkissjóður að fullu kostnað við eyðingu minka samkv. lögum. Hv. frsm. minni hl., hv. 5. þm. Norðurl. e., las upp úr bréfi frá veiðistjóra rökin fyrir þessu, sem við leggjum til, að ríkissjóður greiði kostnaðinn að fullu við eyðingu minkanna, og það er ekki ástæða til þess, að ég sé að endurtaka þau rök, sem þegar hafa verið lesin. En niðurstaða veiðistjóra er þessi orðrétt: „Ef litið er á þessi mál“ — þ.e. eyðingu minka — „með skilningi og sanngirni, þá hlýtur það að vera réttlætiskrafa, að kostnaður við eyðingu villiminka komi þó jafnt niður á alla landsmenn. Það er sannfæring mín,“ segir hann, „að taki ríkissjóður á sig allar greiðslur vegna eyðingar villiminka, muni það gjörbreyta henni til hins betra og útiloka ýmsa erfiðleika, sem nú er við að etja.“

Nú hljóðar ákvæðið í till. okkar um þetta atriði þannig, að ríkissjóður endurgreiði að fullu kostnað við eyðingu minka, en veiðistjóri segir í umsögn sinni eða bréfi, að hann telji eðlilegt, að sýsluskrifstofur annist þá allar greiðslur vegna eyðingarinnar fyrir hönd ríkissjóðs. Þó að þetta fyrirkomulag yrði tekið upp, sem veiðistjóri leggur til, að upp verði tekið um greiðslurnar, þessar ríkisgreiðslur, þ.e. að öll verðlauni fari í gegnum sýsluskrifstofuna, þá breytir það ekki öðrum ákvæðum laganna um framkvæmd þessarar útrýmingar. Þetta lýtur aðeins að fyrirkomulagi greiðslunnar. En ég tek undir það, sem hv. 5. þm. Norðurl. e. sagði áðan, að ég hygg, að sums staðar, kannske allvíða, sé eyðing minka skipulagslítil og allt of lítil áherzla lögð á það að eyða þessum vargi — því miður, sem víða í landinu fer hraðfjölgandi og er sannarlegur vágestur, eins og glöggt dæmi er um í sambandi við innflutta minkinn, sem slapp úr búri nýlega hér í nágrenni Reykjavíkur og eyðilagði hænsnabú hér í grenndinni. En auk þess tjóns, sem einstaklingar geta orðið fyrir af völdum þessa vargs bæði í sambandi við hænsnabú, í sambandi við æðarvarp og í sambandi við veiði og fleira, þá veldur minkurinn ákaflega miklum spjöllum í hinni villtu náttúru landsins sérstaklega á fuglalífi, og á þeim náttúruverndartímum, sem við lifum á nú, þá sýnist einsætt, að við gefum því máli gaum og reynum það, sem unnt er, til þess að útrýma þessum vargi, sem er aðfluttur hér á landi.