22.03.1971
Efri deild: 71. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1775 í B-deild Alþingistíðinda. (1887)

128. mál, eyðing refa og minka

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Háttv. 2. þm. Austf., Kristján Ingólfsson, flytur hér ásamt mér brtt. á þskj. 544. Brtt. þessar eru til samræmis við það, sem veiðistjóri, Sveinn Einarsson, leggur til í því áliti, sem birt er á þskj. 330, og fram kemur frá landbn. Nd. Ég geri ráð fyrir, að háttv. þm. hafi kynnt sér álit veiðistjóra, en hann segir, að á undanförnum árum hafi áhugi manna minnkað fyrir dýraveiðum sökum þess, hve verðlaun fyrir unnin dýr eru nú lág samanborið við verðlag og kaupgjald, eins og það nú er. En það, sem við leggjum til í okkar brtt., er það, að verðlaun fyrir að vinna refi hækki um helming frá því, sem nú gildir, eins og lagt er til í frv., að því er varðar minka. Upphæðir þær, sem hafa verið borgaðar á hvert unnið dýr, voru ekki háar í fyrstu, og auk þess hefur verðgildi peninga minnkað ört hin síðari ár. Þess vegna tel ég, að það sé ekki freklega af stað farið að tvöfalda verðlaunin frá því, sem verið hefur, þar sem kaup hefur meira en tvöfaldazt frá 1964. En það er staðreynd, að af því, að hætt var að eitra fyrir refi, þá er meiri nauðsyn að borga mönnum vel fyrir grenjavinnslu og einnig fyrir að vinna hlaupadýr og minka. Þá leggjum við til, að eftirleiðis borgi ríkið eitt alla minkavinnslu, þar sem þessar greiðslur koma mjög misjafnlega niður á einstök sveitarfélög og fámennu hrepparnir verða oft að borga mun meira en þeir fjölmennari — sem dæmi um þetta má nefna Ögurhrepp, Skógarstrandarhrepp og Þingvallasveit. Í þessum sveitum hafa útgjöld verið mjög mikil við minkavinnslu og því eðlilegt, að þeim sé jafnað niður á stærri heildir, þar sem þeir, er búa við þessa vágesti, verða auk þessa oftast fyrir miklum skaða. Þá vil ég á það minna, að minkarækt er hafin hér á landi að nýju, og þrátt fyrir gefin fyrirheit um það að búa svo vel um, að engin dýr sleppi úr girðingum eða búrum, þá hefur það brugðizt, og því er óeðlilegt að láta þau sveitarfélög, sem hafa villiminkinn, kosta vinnslu hans, þar sem minkaræktin er yfirleitt ekki tilkomin fyrir óskir þeirra bænda og þeirra sveitarstjórna, sem þarna eiga hlut að máli. Mér finnst, að þetta vandamál standi þjóðarheildinni nær að taka á sínar hendur en fámennum sveitarfélögum, sem jafnan verða fyrir miklum skaða, eins og ég minntist á áðan. Ég vænti þess, að háttv. þm. taki brtt. okkar til greina, sem eru á þskj. 544, og samþykki þær, því að þær eru til samræmis við það verðlag, sem nú gildir í landinu, og í öðru lagi, að ríkið taki á sig þá áhættu, sem fylgir minkaræktinni, sem nú er hafin að nýju í landinu.