26.11.1970
Efri deild: 22. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1783 í B-deild Alþingistíðinda. (1895)

69. mál, aðstoð Íslands við þróunarlöndin

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Allshn. hefur haft þetta mál til meðferðar, og eins og nál. á þskj. 181 ber með sér, leggur n. til, að frv. verði samþ., en einn nm., hv. 11. þm. Reykv., skrifaði þó undir nál. með fyrirvara, og annar nm., hv. 7. landsk. þm., hafði fjarvistarleyfi sökum veikinda þann dag, sem n. afgreiddi frv., en við hinir höfum lagt til, að það yrði samþ. óbreytt. Það er ekki ástæða til þess, að ég fylgi þessu frv. úr hlaði með mörgum orðum, þar sem ég taldi mig hafa gert ýtarlega grein fyrir frv., þegar ég flutti framsöguræðu mína við 1. umr. málsins fyrir hönd okkar flm. fimm. Þetta mál hefur þó nokkuð verið rætt, síðan 1. umr. fór fram, og með tilliti til þess, sem í þeim umr. hefur komið fram, þá vildi ég þó bæta fáeinum orðum við það, sem ég sagði hér við 1. umr. málsins. Þá vildi ég fyrst geta þess, að um fyrstu helgina í þessum mánuði var haldin ráðstefna á vegum Félags Sameinuðu þjóðanna og herferðar gegn hungri, en sú ráðstefna fjallaði einmitt um aðstoð Íslands við þróunarlöndin. Á þeirri ráðstefnu voru saman komnir, að því er ég bezt veit, allir forystumenn þeirra félagasamtaka, sem látið hafa þessi mál til sín taka, og enn fremur nokkrir embættismenn, sem telja má sérfróða um þessi málefni. Ráðstefnan gerði ályktun um málið á þann veg, að hún teldi sig í meginatriðum samþykka því frv., sem lagt hefði verið fram um málið á Alþ., og skoraði á Alþ. að samþykkja frv. Þetta tel ég nú raunar það merkasta, sem fram hefur komið í þessu máli, síðan það seinast var til meðferðar hér í hv. d.

En ég vildi minnast á það að gefnu tilefni, vegna þess að það sjónarmið hefur komið fram einnig í umr. um þetta mál á opinberum vettvangi, að vegna þess að Íslendingar skulda talsvert erlendis, þá sé ekki rétt, að þeir gerist fjármagnsútflytjendur á þann hátt að veita aðstoð til þróunarlandanna. Nú er það út af fyrir sig rétt, sem okkur öllum er kunnugt, að Ísland skuldar töluvert í langtímalánum á erlendum lánamarkaði. Fyrir tveimur árum síðan, þegar erfið efnahagskreppa gekk yfir landið, þá voru þau mál töluvert til umr. hér á hv. Alþ. og talað var um, að greiðslubyrði okkar vegna skulda erlendis væri orðin ískyggilega há. Mig minnir, að hún næmi þá eitthvað um 15–16% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar, sem greiða þurfti í vexti og afborganir af erlendum lánum. Nú hafa útflutningstekjurnar aukizt verulega, þannig að þó að ég hafi ekki handbærar neinar tölur í þessu efni, þá má þó telja víst, að greiðslubyrðin hafi lækkað mjög verulega frá því, sem þá var — jafnvel um allt að helmingi. Ég hef ekki nákvæma tölu um það, enda er það kannske ekki aðalatriði í þessu sambandi, heldur hitt, sem ég vildi benda á, að án þess að ég sé kunnugur persónulegum fjárhagsástæðum einstakra þm. hér í þessari hv. d. og hafi síður en svo löngun til þess að hnýsast í það, þá býst ég við, að það eigi við um okkur öll, að við skuldum eitthvað, veðlán í húsum og veðlán í íbúðarhúsum okkar og sjálfsagt margir eitthvað meira. En þætti okkur það ekki dálítið vafasamur boðskapur, ef sagt yrði við okkur, að svo lengi sem við ekki gætum greitt upp öll okkar lán í lánastofnunum og annars staðar, mættum við hvorki lána né gefa neinum neitt? Ég býst við, að við mundum ekki vilja kyngja slíku, og ég held, að það sama, sem ég dreg ekki í efa, að við séum sammála um, að eigi við um einstaklinga, eigi einnig við um hinar einstöku þjóðir, enda er það vitað mál, að margar þeirra þjóða, sem veita verulegar fjárhæðir til aðstoðar við þróunarlöndin, eru skuldunautar ekki síður en við.

Þriðja atriðið, sem ég tel rétt að minnast á, er sá misskilningur, sem ég hef orðið var við, að gætir, þegar þessi mál eru rædd á opinberum vettvangi, að ef Ísland gerist aðili að aðstoð við þróunarlöndin, þá höfum við þar með skuldbundið okkur til þess að framfylgja samþykkt Sameinuðu þjóðanna um það að leggja fram í þessu skyni ekki minna en Í% af þjóðartekjum. Eins og ég tók ábyggilega fram í framsöguræðu minni við 1. umr. málsins, þá eru það mjög fáar þjóðir, sem enn þá hafa náð þessu marki og gefur auðvitað auga leið, að þar sem þá mundi verða um einar 400–500 millj. kr. að ræða, gæti minna gert gagn í þessu efni.

Í grg. þeirri, sem fylgir frv., er þess getið, að nefnd sú, sem um þetta mál fjallaði á vegum utanrrn., hafi lagt til, að að því yrði stefnt, eins og það er orðað í áliti nefndarinnar, að Íslendingar legðu fram 1% af þjóðartekjunum, en ekkert tekið fram um það, á hvað löngum tíma það eigi að vera. Ég átti sæti í þessari nefnd og skoðun mín er óbreytt á því, að að þessu beri að stefna. En þetta var aðeins álit þeirrar nefndar, þannig að meðflm. mínir að þessu frv. eru auðvitað algerlega óbundnir af því, og aðalatriðið er það, að þó að þetta frv. verði samþ., þá eru engin ákvæði um þetta efni í frv., svo að hér er í rauninni um mál að ræða, sem eru óskyld hvort öðru.

Að endingu vil ég aðeins ítreka það, sem ég sagði í framsöguræðu minni fyrir málinu við 1. umr., að með samþykkt þessa frv. mundi aðeins vera ákvarðaður rammi fyrir framkvæmd þessara mála. Samþykkt frv. tryggir auðvitað ekki, að átak verði í þessum málum gert. Hvað svo gerist, verður auðvitað komið undir ákvörðunum fjárveitingavaldsins á hverjum tíma og sömuleiðis dugnaði þeirra manna, sem valdir verða til þess að fjalla um þessi mál. En ég og hv. meðflm. mínir að þessu frv. teljum þó, að eftir atvikum sé sú umgerð, sem hér er um að ræða, viðunandi, þannig að samþykkt frv. ætti undir öllum kringumstæðum að stuðla að því að koma þessu máli á rekspöl, sem að mínu áliti er meira en tímabært.