17.03.1971
Neðri deild: 63. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1793 í B-deild Alþingistíðinda. (1910)

69. mál, aðstoð Íslands við þróunarlöndin

Frsm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Á þinginu haustið 1964 var lögð fram í Sþ. þáltill. um aðstoð við þróunarlöndin, sem hljóðaði á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta fara fram athugun á því, með hverju móti Ísland geti tekið virkari þátt en nú er í því að veita þróunarlöndunum aðstoð til eflingar efnahagslegum framförum þar, og leggja niðurstöður þeirrar athugunar fyrir Alþ. að henni lokinni.“

Flm. þessarar till. var hv. þm. Reykv., Ólafur Björnsson prófessor. Till. fékk ágætar undirtektir þm. og fljóta afgreiðslu. Hv. utanrmn. mælti með samþykkt hennar, sem og var gerð með shlj. atkv. í Sþ. þann 31. marz 1965. Í mjög ítarlegri ræðu, sem Ólafur Björnsson prófessor flutti, er hann fylgdi till. sinni úr hlaði, skýrði hann m.a. frá, hvað í hugtakinu þróunarland fælist, frá þeirri aðstoð, er þau fengju, og þætti einstakra ríkja í þeirri aðstoð. Í ræðu sinni benti hann m.a. á framlög Íslendinga, er rynnu til hinna ýmsu stofnana Sameinuðu þjóðanna, en þm. sagði, að samt sem áður hefði gætt meira tómlætis af hálfu okkar Íslendinga í þessu mikilvæga alþjóða- og menningarmáli en æskilegt væri. Þm. kvað enn fremur rétt að benda á, að aðstoð okkar við þróunarlöndin gæti verið á fleiri vegu en sem fjárframlög til ákveðinna framkvæmda, enda af okkar hálfu ekki um að ræða framlög, sem um munaði, og fleira hamlaði efnahagslegum framförum en fjármagnsskortur, fáfræði almennings og skortur á almennri verkkunnáttu ekki síður en sérfræðilegri þekkingu væri meðal mikilvægustu orsaka þess, að þessi Íönd hefðu dregizt aftur úr í efnahagslegu tilliti. Hann benti enn fremur á margs konar leiðbeiningastarfsemi á öðrum sviðum, svo sem á sviði heilbrigðismála, kennslu- og uppeldismála, sem kæmi þessum löndum að miklum notum, en þyrfti ekki að kosta það land ýkja mikið, sem hana léti í té. Einar Olgeirsson, sem þá sat á þingi, og hv. þm. Ingvar Gíslason mæltu báðir með till., fluttu ítarlegar ræður um vandamál þessara ríkja og um það, hvað við gætum helzt gert til hjálpar. Tóku þeir báðir undir skoðanir flm. um nauðsyn þessara þjóða á aukinni menntun á öllum sviðum og ekki sízt aukinni verkmenntun, þ.e. að fulltrúar þeirra fengju að kynnast sögu okkar og atvinnulífi og þeirri þjóðfélagsþróun, sem hér hefur átt sér stað á Íslandi og reynslu okkar af breytingunni frá því að vera umkomulítil og vanmegnug nýlenduþjóð og til þess að vera tiltölulega velmegandi bjargálna þjóð, eins og við nú erum.

Haustið 1965 skipaði utanrrh. þriggja manna nefnd til þess að vinna að athugun þeirri, sem í till. fólst, og skila áliti. Í nefndina voru skipaðir Ólafur Björnsson prófessor, sem jafnframt var formaður hennar, Sigurður Guðmundsson, framkvæmdastjóri Húsnæðismálastofnunar ríkisins, og Ólafur Stephensen, þáv. framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands. Nefnd þessi skilaði bráðabirgðaáliti og till. í frv.-formi, en þær komu þó ekki fram á því þingi, enda hafði ríkisstj. ekki tekið afstöðu til þess; hvort frv. í þeirri mynd yrði lagt fyrir Alþ. Þeir efnahagsörðugleikar, sem yfir okkur dundu seinni hluta ársins 1967, og sá nauðsynlegi niðurskurður í öllum fjárveitingum, sem í kjölfarið fylgdi, mótaði að sjálfsögðu þá ákvörðun meiri hl. Alþ. að gera sem minnst í því að taka upp fjárveitingar til nýrra hluta. Ákvað nefndin af þessum orsökum að fresta endanlegri tillögugerð, unz betur áraði.

Vorið 1969 var lagt fram frv. hér í hv. Nd. Alþ., sem byggt var á fyrstu till. mþn. Var það flutt að ósk aðila í Æskulýðssambandi Íslands. Voru flm. þeir Pétur Sigurðsson, hv. þm. Jón Skaftason, 2. þm. Reykn., Benedikt Gröndal 5. þm. Vesturl., og Jónas Árnason, 4. landsk. þm. Þetta frv. kom ekki til umr. á því þingi, en var endurflutt á síðasta þingi seint um haustið 1969, og voru flm. þeir sömu. Mþn. hafði þá aftur tekið til starfa, og mæltist hún til þess, að málið yrði ekki tekið fyrir hér í hv. d., fyrr en þeir hefðu átt kost á að skila endanlegu áliti, því að endanlegar till. yrðu sennilega töluvert frábrugðnar þeim, sem áður höfðu komið fram. Urðum við flm. málsins hér í Nd. að sjálfsögðu við þessari ósk. Endanlegum till. og áliti nefndarinnar var skilað í febrúar á þessu ári, og er það frv., sem hér er til umr., byggt á þeim till. óbreyttum og er komið frá hv. Ed. Töluverður munur er á þessu frv. og því, er hér var flutt í hv. d. á sínum tíma. Meginmunurinn er sá, að í eldra frv. var engin afstaða tekin til þess, hvort sú aðstoð, sem Íslendingar gætu látið þróunarlöndunum í té, yrði í formi framlaga til alþjóðlegra stofnana eða hvort um svokallaða tvíhliða hjálp yrði að ræða. Ef um tvíhliða hjálp væri að ræða, mundu Íslendingar sjálfir skipuleggja og framkvæma aðstoð við þróunarlöndin einir eða í samstarfi við aðra. Þessi háttur er t.d. á hafður annars staðar á Norðurlöndum, og fer mikill meiri hluti þeirrar aðstoðar, sem þau veita, fram á tvíhliða grundvelli, en þau eru einnig með tiltölulega há framlög til alþjóðastofnana. M.a. vegna þessara breytinga og vegna þess, að form. mþn. á sjálfur sæti á Alþ. — sá, sem upphaflega flutti málið hér inn á Alþ. og þekkir það bezt — þótti öllum aðilum þ. á m. okkur hér í Nd., er fyrstir fluttum frv. um málið, eðlilegt, að Ólafur Björnsson gerðist sjálfur flm. að frv. þessu. Varð það úr, og voru aðrir flm. í Ed. þeir hv. þm. Björn Jónsson, Jón Árm. Héðinsson, Karl Guðjónsson og Ólafur Jóhannesson, sem þar eiga sæti.

Eins og ég hef þegar getið um, er mál þetta komið frá Ed., en þar var það samþ. með shlj. atkv. Ein litilfjörleg breyting var þó gerð á frv. um gildistöku laganna, þ.e. að þau skuli taka gildi þann 1. apríl 1971 í stað 1. jan. s.l. Var sú breyting einnig að sjálfsögðu samþ. shlj. Frv. þetta hefur verið til athugunar hjá allshn. hv. d. eins og hjá allshn. Ed. Varð sú skoðun ofan á, að óþarft væri að senda málið til umsagnar, því að þeir aðilar, sem helzt hefðu vit þar á, hefðu þegar tjáð sig. Á ég þar við í fyrsta lagi hv. utanrmn., þegar þáltill. var samþ. Í öðru lagi þá ráðstefnu, sem var haldin hér í Reykjavík seint á s.l. hausti á vegum Félags Sameinuðu þjóðanna og Herferðar gegn hungri, en sú ráðstefna fjallaði um aðstoð Íslands við þróunarlöndin. Þar voru saman komnir flestir forustumenn þeirra félagssamtaka, sem afskipti hafa haft af þessum málum, og enn fremur embættismenn, sem þekkja vel til þeirra. Ráðstefnan gerði ályktun um málið, taldi sig í meginatriðum samþykka því frv., sem hér lægi fyrir, og skoraði á Alþ. að samþykkja það. Í þriðja lagi vil ég nefna þær viðræður, sem flm. eldra frv. áttu við áhugamenn um þessi mál úr röðum ýmissa æskulýðssamtaka.

Vissulega hefur komið fram gagnrýni á mál þetta á opinberum vettvangi, en ég held, að þau ítarlegu svör, sem jafnharðan hafa komið fram frá fylgismönnum máls þessa, hafi upplýst og sannfært flesta, sem ekki höfðu myndað sér skoðanir um málið. Allir nm. allshn. þessarar hv. d. undirrita nál. og mæla með samþykkt frv. utan einn hv. þm., Jónas Pétursson, sem var fjarstaddur afgreiðslu málsins. Þegar n. hafði lokið afgreiðslu þessa máls, kom fram brtt. við 2. gr. frv. á þskj. 345 frá þeim hv. landsk. þm., Jónasi Árnasyni, og hv. 6. þm. Reykv., Magnúsi Kjartanssyni, og leggja þeir til í þessari till. sinni, að aftan við 1. tölul. 2. gr. bætist: „Skulu áætlanir við það miðaðar, að aðstoð Íslendinga við þróunarlöndin aukist í áföngum og nemi 1% af þjóðartekjum þeirra eftir 10 ár.“ Enginn nm. hefur fengizt til að mæla með till. þessari. Þó lýsti hv. þm. Steingrímur Pálsson, hv. 8. landsk. þm., því yfir, að hann mælti með henni, ef hún væri stefnumótandi, en ekki skilyrðislaust. Engin brtt. í þá átt hefur komið fram, og leggur því n. til, að brtt. á þskj. 345 verði felld.

Til að gefa hv. þd. nokkra hugmynd um peningalegt gildi þessarar till. má benda á, að ef hún hefði t.d. tekið gildi eða komið til framkvæmda með fullum styrkleika sínum nú um síðustu áramót, mætti gera ráð fyrir, að útgjöld vegna þessa mundu nema á yfirstandandi ári nær 500 millj. kr. Jöfnuður þeirra á næstu 10 ár mundi þýða, að ætla yrði á næstu fjárlögum nær 50 millj. kr. til þessarar starfsemi. Mþn. mun í áliti sínu hafa lagt til, að stefnt yrði að því, að Íslendingar legðu fram 1% af þjóðartekjum sínum, en hins vegar ekki tekið fram, á hve löngum tíma það ætti að vera. Eins og frv. er nú, er það fjárveitingavaldsins hverju sinni að ákveða, hve stórt átak verður gert á þessu sviði, og einnig er það komið undir dugnaði þeirra, sem að þessum málum vinna og fórnfýsi almennings.

Ég þykist ekki þurfa að hafa fleiri orð um þetta mál. Eins og fram hefur komið í máli mínu, er það einróma álit hv. allshn. þessarar d. að mæla með samþykkt þessa frv. óbreytts.