17.03.1971
Neðri deild: 63. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1797 í B-deild Alþingistíðinda. (1912)

69. mál, aðstoð Íslands við þróunarlöndin

Frsm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Það er vissulega allrar athygli vert í hvert sinn, sem hv. þm. stendur hér upp, tekur til máls og lýsir því yfir m.a., að við teljumst til hinna betur megandi þjóða og að við séum þjóð, sem hefur úr svo miklu að spila, eins og hann getur um. En út af því, sem hann sagði um till. sína, þá vil ég aðeins taka fram, að annars vegar er till. hans eða þeirra hv. þm. skilyrðislaus, og hins vegar vil ég leyfa mér að benda á það, að samþykktir Sameinuðu þjóðanna hafa verið fólgnar í því að skora á aðildarþjóðirnar að stefna að þessu marki. Þetta liggur að sjálfsögðu í hlutarins eðli. Þær hafa ekki löggjafarvald á þingum viðkomandi þjóða. Þær skora á þær að stefna að þessu marki. Þannig held ég líka, að slíkar samþykktir hafi verið samþykktar á löggjafarþingum okkar nágrannaþjóða. Ég held, að það hafi ekki verið skilyrðislaus ákvæði um, að þetta 1% ætti að taka gildi hvorki á því ári, sem þau lög voru samþ., né á einhverju árabili ákveðnu. Hins vegar ætti að stefna að þessu.

Hv. þm. minntist á nokkur lönd í sambandi við þetta 1% og gat réttilega um það, sem kemur fram í grg. flytjanda, að sú aðstoð, sem er veitt, er ekki aðeins lán og gjafafé og aðstoð frá ríkinu, heldur koma þarna inn í einkaaðilar, og ég vil líka benda á það til skýringar fyrir þessa hv. þm., að í þessu fé eru einmitt fjármunir, sem Frakkland, Stóra-Bretland og aðrir slíkir hafa lagt fram og lánað til þessara þróunarlanda m.a. til þess að tryggja sína viðskiptahagsmuni. Þetta telst til þess fjár, sem fellur undir þetta 1%, sem við erum hér að ræða. Líklega er það ríki, sem hæst hefur komizt á þessu sviði, Frakkland. Það má segja, að á undanförnum árum hafi þeirra framlag numið rúmlega 1% af þjóðartekjum, en það verður að taka tillit til allra fjárframlaga, eins og ég hef þegar getið um. Og það er alveg sama, eins og ég hef líka sagt, hvort um lán er að ræða eða gjafafé. En þessi þjóð, eins og ég geri ráð fyrir, að hinar geri líka, leggur mikið í fjárfestingu í sínum gömlu nýlendum, og það er talið með þessu fé.

Ég fæ ekki séð, að við þurfum að elta þetta uppi hjá viðkomandi þjóðum, og mér þykir gott, ef Alþingi Íslendinga stendur við till., sem ég veit, að hv. 1. flm. till. mun flytja við afgreiðslu fjárl. í haust, að við tökum tíunda partinn al því, sem þeir óska eftir, og samþykkjum það sem fjárframlag til aðstoðar þessum löndum. Það eru 50 millj. kr. Það er svona um það bil einn góður framhaldsskóli í dreifbýlinu eða eitthvað annað, sem við þörfnumst. Ég hins vegar hef haft þá skoðun á þessu máli, að við gætum margt gert af okkar fátækt annað en það að leggja fram beina fjármuni, m.a. það, sem ég tók fram, að þeir ágætu þm., núv. og fyrrv., hefðu bent á í sambandi við menningu okkar og atvinnuvegi, verkkunnáttu, skóla og annað þess háttar, sem við gætum frekar miðlað þeim af en veitt þeim bein fjárframlög, og vegna okkar fátæktar munu þau fjárframlög segja afskaplega lítið. Að vísu kemur inn í þetta kostnaður hér innanlands, en ég held samt sem áður, að sá kostnaður þurfi ekki að koma fram í beinum fjárframlögum, heldur geti hann komið undir aðra liði.