23.03.1971
Efri deild: 72. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1806 í B-deild Alþingistíðinda. (1928)

69. mál, aðstoð Íslands við þróunarlöndin

Frsm:

(Ólafur Björnsson): Herra forseti. Þetta mál hefur verið endursent Ed. vegna breytinga, sem á því hafa verið gerðar í Nd., en þar sem ég var 1. flm. málsins hér í hv. d. og auk þess frsm. þeirrar n., sem um þetta fjallaði, þá tel ég mér skyldast með örfáum orðum að skýra hv. þd. frá þessum breytingum. Það eina, sem efnislega skiptir máli, er, að í fyrsta lagi var gerð sú breyting á, að það var tekið inn í þá upptalningu í 2. gr. frv., þar sem skýrt er frá hlutverki þeirrar stofnunar, sem er aðalefni þessa frv. að koma á fót, að hún skuli vinna að því, að því marki verði sem fyrst náð, að Íslendingar leggi fram 1% af þjóðartekjunum til þessarar aðstoðar. Í sambandi við þetta mál má geta þess, að í hv. Nd. kom fram till. um, að þetta yrði gert á ákveðnu árabili, en þó að ég virði þann stórhug, sem fram kom hjá hv. flm. þeirrar till., þá taldi ég hana nú á misskilningi byggða að því leyti, að þegar talað er um þetta 1%, þá eru í því falin öll framlög í þessu skyni bæði frá einkaaðilum og opinberum aðilum. Einu löndin, sem komast eitthvað nálægt því að ná þessu 1%, eru hin gömlu nýlenduveldi eins og t.d. Frakkland og Holland, en þar er um að ræða mjög veruleg framlög einkaaðila í gróðaskyni beinlínis til þessara landa. Ekkert land mun komast neitt nálægt því, enda er ekki til þess ætlazt í samþykkt Sameinuðu þjóðanna, að ríkið leggi fram 1% af þjóðartekjunum. Þess vegna hefði ég talið það óeðlilegt að samþykkja till. í þá átt.

Hins vegar tel ég það beinlínis til bóta, að þetta skuli hafa verið tekið inn í frv. á þennan hátt. Hér eru ekki sett nein tímatakmörk, en það leiðir af því, sem ég hef þegar sagt, að þetta bindur ekki fjárveitingavaldið á nokkurn hátt, en það skapar þeirri stofnun og þeim, sem kjörnir eru til að stjórna henni visst aðhald, sem kannske er ekki vanþörf á, vegna þess að það sjónarmið hefur komið fram, að e.t.v. gerðu þessir menn lítið að gagni, en sinntu þá helzt því að fara í ferðalög til Afríku og fram eftir þeim götunum, og ég vil gjarnan vitna í það, sem hv. 6. þm. Reykv., Magnús Kjartansson, sagði í Nd., þegar ég hlustaði á umr. um málið þar, að þess beri að gæta, að þó að þetta 1% vaxi mönnum e.t.v. í augum, þá er ekki um það að ræða, að Íslendingar eigi að leggja þetta af mörkum af því, sem þeir hafa nú — 400 millj. kr. eða hvað það nú er. Það gerir enginn ráð fyrir öðru en þetta komi til framkvæmda á alllöngum tíma, en þá mundi það ekki vera tekið af því, sem við höfum nú, heldur af þeim hagvexti, sem átt hefur sér stað á þeim tíma, sem um er að ræða. Ég fjölyrði ekki meira um þetta.

Hin brtt. er í rauninni fyrst og fremst formsatriði og mun hafa verið borin fram vegna ábendinga skrifstofustjóra Alþ., að það hefði láðst að ákveða tímamörk fyrir kosningu þeirra manna, sem gert er ráð fyrir, að sameinað Alþ. kjósi í stjórn þessarar stofnunar, en nú er það ákveðið.