24.03.1971
Neðri deild: 68. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1810 í B-deild Alþingistíðinda. (1940)

233. mál, girðingalög

Frsm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Ég vil vekja athygli hv. þd. á því, að þetta bráðabirgðaákvæði, sem hv. 3. þm. Norðurl. e. var hér að tala fyrir, var fellt niður við 2. umr. málsins mótatkvæðalaust, að því er ég hygg. Að vísu hefur verið gerð á því smávægileg orðalagsbreyting, en engin efnisbreyting. Mun því mega segja, að orðalagið sé það miklu þrengra, að það brjóti ekki beint í bága við þingsköp að taka það upp aftur samkv. 32. gr. þingskapa. í þessu sambandi dettur mér í hug saga af bónda einum, sem var að draga fé sitt í dilka að haustlagi í Hraunsrétt fyrir norðan. Hann var ágætur bóndi og félagsmálafrömuður í héraði sínu, en ekki mjög fjárglöggur, þ.e. honum var ekki sýnt um að þekkja í sundur skepnur hvorki sauðfé, hross né kýr. Í miðri Hraunsrétt hitti hann á, sem hann átti, kollótta eða krímótta í framan, og því var hún mjög auðþekkt, og segir þá furðu lostinn: Jæja, svo að þú ert þá hér Kolla mín. Ég hélt, að ég hefði lógað þér í fyrra. Nd. Alþ. lógaði þessu bráðabirgðaákvæði 17. þ.m. Nú hittum við það hér aftur bráðlifandi, svo að sýnt er, að það hefur a.m.k. tvö líf. Kötturinn er sagður hafa sjö. Mér fannst ég verða að benda á þetta og skal ekkert um það hlutast, hvort hv. þd. bætir við það þriðja lífinu eða ekki. En ég held, að þetta sé nú þannig vaxið, að eðlilegast hefði verið, að þessi till. hefði verið dregin til baka.