01.04.1971
Efri deild: 85. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1812 í B-deild Alþingistíðinda. (1950)

233. mál, girðingalög

Frsm. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Í girðingalögum eru mjög óljós ákvæði um afréttargirðingar, og má segja, að það séu raunverulega hálfhandahófskennd ákvæði, sem þær snerta, enda hefur komið í ljós, að þarna hefur ekki verið staðið að málum, eins og þurfti. Þetta frv. fjallar um það að afnema þann einhliða ákvörðunarrétt einstaks sveitarfélags til að knýja fram girðingalagnir á fjöllum uppi, ef þar eru afréttarmörk, gegn hagsmunum og vilja þeirra sveitarfélaga, sem lönd eiga á móti. Með frv., ef að lögum verður, er stefnt að því, að hlutlaus athugun verði látin fara fram um það, hvort girðingar sé þörf í þessu tilfelli eða ekki. Annað er efni þessa frv. ekki. Landbn. hefur fjallað um þetta frv. á fundi sínum og varð sammála um það, eins og nál. á þskj. 747 ber með sér, að mæla með því, að frv. verði samþ. óbreytt.