24.03.1971
Neðri deild: 68. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1813 í B-deild Alþingistíðinda. (1956)

292. mál, þingfararkaup alþingismanna

Flm. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Eins og fram kemur í grg. með þessu frv., þá standa allir þingflokkar Alþ. að flutningi þess, en frv. er samið að tilhlutan forseta Alþ. og þingfararkaupsnefndar, og er breyting á þingfararkaupslögunum nú nauðsynleg vegna breyttra forsendna frá því, að lögin um þingfararkaup voru sett á þinginu 1963 og 1964, en við setningu þeirra laga var höfð hliðsjón af kjaradómi, sem upp var kveðinn á árinu 1963. Það verður því að taka ákvörðun um það, hver laun alþm. eiga að vera og með hvaða hætti þau skulu ákvarðast. Í frv. er lagt til að fara inn á sömu braut og nú hefur rutt sér til rúms annars staðar á Norðurlöndum, þ.e. að miða laun þm. við ákveðinn flokk í launastiga opinberra starfsmanna, og í þessu frv., 1. gr. þess, er lagt til, að laun þm. verði ákvörðuð samkv. launaflokki B 3 í þeim kjarasamningum, sem nýlega hafa verið gerðir, og að hækkanir á launum þm. verði með sama hætti og hjá opinberum starfsmönnum. Verði þessi ákvörðun tekin, 1. gr. frv. þessa samþ., þá hefur nokkur leiðrétting fengist á launum þm., en það mál kallar á ákvörðun um það, með hvaða hætti yrði þá farið með laun þeirra opinberu starfsmanna, sem koma og taka sæti á Alþ. Svo að ég vitni aftur í Norðurlöndin, þá hefur sú aðferð verið tekin upp þar að skerða laun þeirra. Það er að vísu með mismunandi hætti, mismunandi mikið, en samkv. þessu frv. er lagt til, að skerðing launa hjá starfsmönnum ríkisins, sem geta, eins og stendur í 2. gr. frv., mætt daglega til vinnu, skuli vera 2/5 hlutar, þannig að þeir haldi 3/5 hlutum af árslaunum, en skerðing á launum þess, sem getur aðeins sinnt störfum sínum á milli þinga, verði 7/10, þannig að hann haldi 3/10 hlutum árslauna sinna.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um frv. Það er öllum hv. þdm. kunnugt, eins og áður er sagt, samið að tilhlutan forseta Alþ. og þingfararkaupsnefndar, en flutningur þess á vegum þingflokkanna og flm. tilnefndir af þeim, einn frá hverjum þingflokki. Ég legg svo til, herra forseti, að frv. að lokinni þessari umr. verði vísað til hv. allshn., en til þeirrar n. mun frv. um þingfararkaup alþm. áður hafa verið vísað.