26.03.1971
Neðri deild: 70. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1814 í B-deild Alþingistíðinda. (1962)

292. mál, þingfararkaup alþingismanna

Eyjólfur K. Jónsson:

Herra forseti. Ég leyfi mér að flytja skrifl. brtt. við frv. þetta. Er þar annars vegar um það að ræða, að flokkurinn B 3 í 1. gr. frv. verði B 1, en hins vegar, að launaskerðing þm., sem embættum gegna úti á landi samkv. 2. gr., verði helmingur í stað 3/10. Hin skrifl. brtt. er svo hljóðandi: „1. Í stað „B 3“ í 1. gr. komi: B 1. 2. Í stað orðanna „fá greidda 3/10 hluta árslauna“ í 2. gr. komi: fá greiddan helming árslauna.“

Mér er ljóst, að mikil og víðtæk samstaða er milli þingflokka og þm. um flutning þessa frv. Geri ég mér þess vegna grein fyrir því, að litlar líkur muni vera á því, að brtt. þær, sem ég flyt, verði samþykktar. Vil ég þó láta á það reyna, en einkum koma hér á framfæri þeim rökum, sem liggja að baki tillöguflutningnum, því að ég efast ekki um, að jafnvel þótt frv. verði nú samþykkt óbreytt, þá muni þau rök, sem ég hef fram að flytja fyrir breytingum á því, verða höfð hér uppi um langa tíð, og ég treysti því raunar, að sú stefna, sem ég mun hér nánar víkja að nokkrum orðum, muni sigra, jafnvel þótt svo fari, að frv. þetta verði nú samþykkt óbreytt. En þótt brtt. sú, sem ég flyt, geri ráð fyrir nokkuð lægri launum alþm. en í frv. eru ráðgerð, vil ég taka skýrt fram, að ég tel, að launakjör þm. þurfi að batna stórlega, enda er það í sjálfu sér ekki launaupphæðin eða flokkaskipunin, sem er mér sérstakur þyrnir í augum, heldur sú ákvörðun að skerða beri laun embættismanna utan af landi, sem þingmennsku stunda, um 7/10 hluta. Í því ákvæði felst sú yfirlýsing af löggjafans hálfu, að líta beri á þingmannsstarfið sem 81/2 mánaðar starf á ári hverju, en þeir, sem önnur störf hafa með höndum, jafnframt þingmennsku, gætu ekki sinnt þeim nema sem svaraði 31/2 mánuði árlega, ef ekki er tekið tillit til eðlilegra sumarfría, en ella væri þingmannsstarfið um 8 mánuðir og tími til annarra starfa rúmir 3.

Skoðun mín er sú, að það væri mjög óheillavænleg þróun, ef þingtími yrði verulega lengdur. Þvert á móti teldi ég ástæðu til að leitast við að stytta hann, bæði þann heildartíma, sem þing situr að störfum ár hvert, og eins mætti gjarnan koma við meiri störfum í þinginu á færri dögum vikunnar en nú er, ef skipulega væri að unnið. Hvort tveggja þetta mundi mjög auðvelda þm. að sinna öðrum störfum en þingmennskunni — ekki einungis þeim, sem búa í Reykjavík og nágrenni, heldur einnig þm., sem eiga heima fjær, og mun það þó einkum verða svo í framtíðinni, er samgöngur fara stórlega batnandi.

Launakjör alþm. eru mál út af fyrir sig, enda er tiltölulega litill munur á launum samkvæmt B-flokki Í, sem ég legg til, að þingfararkaup miðist við, og B-flokki 3, sem í frv. er rætt um. Hins vegar er ljóst, að þeir, sem framgöngu hafa haft um frv. þetta, hafa talið, að þróunin ætti að vera sú, að þm. sinntu aðeins öðrum störfum en þingstörfum rúman ársfjórðung og væru launin við það miðuð og þá talið eðlilegt, að þingfararkaup yrði greitt samkvæmt þriðja flokki. Ég legg hins vegar áherzlu á, að þm. gegni öðrum störfum í þjóðfélaginu sem næst hálft árið, og legg því til, að mánaðarlegar launagreiðslur þeirra verði nokkuð lægri en fyrirhugað er í frv. Engu að síður yrðu þingfararkaupsgreiðslur mun hærri samkvæmt minni tillögu miðað við þann tíma, sem ég tel, að hæfilegur sé til stjórnmálavafsturs, en vera mundi, ef þróunin yrði sú, að alþm. almennt sinntu ekki öðrum störfum en stjórnmálum nema fjórðung hvers árs.

Frv. gerir ráð fyrir því, að alþm., sem embætti hafa í Reykjavík, haldi 60% tekna sinna. Mér finnst ekki réttlátt, að ýkja mikill munur sé á launaskerðingu þeirra, sem hér búa, og hinna, sem þing sækja utan af landi, einfaldlega vegna þess að þm. búsettir í Reykjavík verða á milli þinga að sinna margháttuðum erindum á sviði stjórnmálanna, og hygg ég raunar, að oft og tíðum lendi á þeim meiri þungi en hinum, sem dvelja úti á landi utan þingtímans, vegna þess að mörg erindi þarf að reka hér í höfuðborginni. Á hinn bóginn er svo ljóst, að þm., sem föst störf hafa úti á landi, geta á ýmsan hátt sinnt þeim, meðan á þingi stendur, með margháttuðum erindrekstri í höfuðborginni, símtölum við sína undirmenn og eins með því að hverfa heim til starfa yfir helgar, þegar sæmileg færð er. Geri ég því ekki tillögu um, að launaskerðing þeirra þm., sem störf hafa í Reykjavík, verði minni en getið er í frv.

Hin mikla launahækkun þm. er rökstudd með því, að störf þeirra fari nú stórum vaxandi. Ég hygg, að hitt sé sönnu nær, að kjörin hafi verið allt of rýr og þm. réttilega til þess fundið, að þeir báru ekki úr býtum laun á borð við aðra, sem svipaða vinnu leggja af mörkum og svipuðum hæfileikum eru gæddir, enda útgjöld þm. margvísleg, og mörg dæmi eru þess, að menn hafa ekki treyst sér til að takast stjórnmálastörf á herðar af fjárhagsástæðum. Á þessu er sjálfsagt að ráða bót, en slík ákvörðun má undir engum kringumstæðum leiða til þess, að grundvallarbreyting verði á afstöðu manna til stjórnmálaafskipta, en sem betur fer, hefur það verið svo, að þm., sem ekki gegndu sérstökum trúnaðarstörfum í stjórnmálunum umfram þingmennskuna, hafa allir eða a.m.k. flestir haft með höndum hin margbreytilegustu störf í þjóðfélaginu og ekkert dregið af sér við þau, hvort heldur hefur verið búskapur eða skrifstofustörf. Ég tel, að það hafi verið til mikillar gæfu, að þm. flestir hafa verið í nánum tengslum við atvinnuvegi þjóðarinnar og hin margháttuðu störf í þjóðlífinu. Ég held, að það hafi verið þeim mikill styrkur og þar með löggjafarsamkundunni. Og ég dreg meira að segja í efa, að það hafi íþyngt mönnum eða gert þeim lífið erfiðara að sinna hálft árið öðrum störfum en stjórnmálavafstri. Þvert á móti hygg ég, að sjóndeildarhringur þm. mundi þrengjast, ef þeir ekki eiga að ganga til annarra starfa, og ég held líka, að þeir muni þá þreytast fyrr en ef þeir geta gengið að öðrum störfum en stjórnmálum verulegan hluta ársins.

Mér er ljóst, að ekki eru allir sammála þeirri skoðun minni, að nauðsynlegt sé að reyna að takmarka lengd þingtímans og gera þingmönnum kleift í sem ríkustum mæli að sinna öðrum störfum en stjórnmálum. Hefur þeim rökum jafnvel verið hreyft gegn þeim skoðunum, sem ég hér flyt, að embættismannavald styrkist nú svo, að nauðsyn beri til þess, að þm. hafi aðstöðu til þess mestan hluta ársins að fylgjast með störfum embættismanna og koma í veg fyrir, að þeir, sem ekki hafa verið kjörnir til þess fulltrúar af þjóðinni, ráði ráðum hennar í stöðugt vaxandi mæli. En mér er spurn: Er það líklegast til þess að draga úr embættismannavaldi að bæta við nokkrum tugum embættismanna, þ.e. að allir þm. yrðu einungis embættismenn og sinntu ekki öðrum störfum?

Menn svara því sjálfsagt til, að frv. taki einungis til þeirra, sem hvort eð er gegni embættum annars vegar sem þm. og hins vegar sem embættismenn í öðrum ríkisstofnunum, og ekkert segi þar um það, hvernig fara skuli um launakjör þeirra þm., sem störf hafa hjá einkafyrirtækjum og sveitarfélögum og ekki heldur hjá hálfopinberum stofnunum eða fyrirtækjum. En hætt er við því, að stjórnendur stórra fyrirtækja, sem ógjarnan vildu liggja undir gagnrýni, hneigðust til þess að styðjast við reglur ríkisvaldsins í þessu efni. Og er ekki nokkurn veginn ljóst, að sú stefnuyfirlýsing, að ekki sé gerandi ráð fyrir því, að alþm. geti sinnt öðrum störfum nema svo sem eins og í ársfjórðung, leiði til þess, að þingtíminn lengist jafnt og þétt og menn hverfi frá öðrum störfum — a.m.k. ábyrgðarstörfum. Eða hví skyldi embættismaður úti á landi vera að halda í embætti sitt, ef hann á ekki nema tveggja kosta völ, annaðhvort að sinna því, eins vel og honum er unnt, samhliða þingmennskunni, þ.e. að nota a.m.k. helming starfskrafta sinna í þágu embættisins og vinna þá helming þess tíma launalaust, eða taka hinn kostinn að gegna embættinu aðeins sem svarar ársfjórðungi og sitja þá í óþökk flestra, því að slík embættisfærsla yrði auðvitað gagnslítil, en auk þess stæði hann í vegi fyrir því, að aðrir fengju viðkomandi embætti.

Mergurinn málsins er að mínu viti sá, að það væri mjög óæskileg þróun — ég vil segja hættuleg þróun, ef eingöngu ættu að sitja á þingi svonefndir atvinnustjórnmálamenn og hver sá, sem til þingmennsku veldist, ætti þegar í stað að hverfa með húð og hári inn í þennan ágæta hóp, sem hér situr en úr sinni stétt í sveit eða bæ. Nú bið ég hv. þm. að misskilja mig ekki. Ég tel ekki, að alþm. séu verra fólk en gengur og gerist. Þvert á móti er hér mikið mannval, og ég held, að þm. yfirleitt séu miklu betra fólk en almenningur álítur. Engu að síður er það nú svo, að hver dregur dám af sínum sessunaut, og hreinskilnislega sagt finnst mér engin vanþörf á því, að þm. viðri sig hálft árið úti í þjóðlífinu og yfrið nóg, að þeir sitji saman hinn helminginn. Stytting þinghalds mætti t.d. gerast með þeim hætti að hafa langt frí um miðjan vetur, en athafnasamt þing á hausti og vori, svo að ekki liði óhóflega langur tími á milli þess, að þm. hefðu aðstöðu til þess að fylgjast með gjörðum ríkisstj. og embættismannavalds, sem sumir virðast mjög óttast, og skal ég ekki lítið úr því gera, að það eru hinir kjörnu fulltrúar þjóðarinnar, sem eiga að hafa úrslitaráð.

Ljóst er, að starfshætti Alþ. þarf að bæta á margan veg, til þess að unnt verði að stytta þinghald, en gera Alþ. samt mun áhrifameira og athafnasamara samhliða því, að virðing þess færi vaxandi. Mér virðist t.d. einsýnt, að vinda þurfi að því bráðan bug að auka húsrými Alþ., þannig að þm. geti haft afdrep fyrir vinnu sína samhliða því, sem aðstaða þingflokka yrði bætt og þeim fengið starfslið, sem undirbúið gæti mál og aðstoðað þm. á einn veg og annan. Slíkar aðgerðir væru að minni hyggju miklu líklegri til árangurs en lengra þinghald, enda er raunin sú, bæði hér og í þjóðþingum annarra landa, að mál dragast fram á síðustu vikur hvers þings, hvort sem þinghaldið er lengra eða skemmra. Mér er ljóst, að sumir hv. þm. halda því fram, að þetta frv. móti enga stefnu í þessu efni, en þar er ég á öndverðri skoðun. Ef með lögum er ákveðið, að þingmennska sé svo viðamikið starf, að einungis sé hægt að ætlast til þess, að menn geti sinnt öðrum störfum í ársfjórðung, er það yfirlýsing um að þingmennskan nálgist það að vera atvinnugrein og fullt starf, enda yrði næsta skrefið vafalaust að fylgja fram til fulls þeirri stefnu, sem nú yrði mörkuð.

Ég geri mér vonir um, að einhverjir þm. vilji hugleiða þau rök, sem ég hef reynt að setja hér fram; og styðji þessa breytingu. En hvað sem því líður, þá taldi ég ótækt annað en þessi rödd heyrðist hér á hinu háa Alþ., því að ég þykist þess fullviss, að margir þm. muni mér sammála um aðalefni málsins, og áfram hlýtur að verða barizt um þá meginstefnu, sem ég hef gert að umræðuefni, hvað sem verður um samþykkt þessa frv. nú.