26.03.1971
Neðri deild: 70. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1820 í B-deild Alþingistíðinda. (1966)

292. mál, þingfararkaup alþingismanna

Björn Pálsson:

Herra forseti. Það er erfitt fyrir okkur að ræða þetta mál mikið, bæði er það óviðkunnanlegt og þar að auki er þetta viðkvæmt mál, eins og gerist með peningamálin. Persónulega kann ég illa við það, að við ákveðum þetta sjálfir. Mér væri kærara, að aðrir aðilar gerðu það t.d. kjaradómur. Það var sama, hvar maður kom, eftir að Morgunblaðið kom út í gær eða fyrradag með fréttirnar um það, hvað kaupið okkar ætti að hækka, og um öll þau fríðindi, sem það taldi upp. Það fyrsta, sem sagt var við mann, var: Ja, þið ætlið að fara að skammta ykkur vel þessir þm. Það var nú miðað við það, sem á að vera að ári, en ekki það, sem verið hefur undanfarin ár, og aldrei hef ég reiknað tvær ferðir á mánuði heim, og ég held ég hafi aldrei reiknað húsaleigu eins hátt og má. A.m.k. hef ég aldrei fengið 12 þús. kr. fyrir húsaleigu á mánuði, en þetta var allt birt í Morgunblaðinu. Þar var auk þess villa, þ.e. að við fengjum 74 þús. kr. í ferðakostnað á mánuði, en það var yfir árið, og við höfum aldrei fengið það greitt hingað til, en það verður kannske í framtíðinni. En Morgunblaðið var ákaflega fljótt til að birta þetta og dró hreint ekki úr tíðindunum. Það var eðlilegt, að fólk ræki upp stór augu — og svo þessir fæðispeningar, sem við utan af landi áttum að fá. Það væru ekki slæm kjör fyrir þessa þm., sögðu menn. Það má kannske til sanns vegar færa. En sannleikurinn er sá með þingkaupið, að það hefur verið lágt og það hefur enginn orðið auðugur á því að vera þm. Þm. hafa yfirleitt verið fátækir. Hafi þeir eignazt eitthvað, þá er það af öðru en þingmennsku.

Við erum ekki stór þjóð og alþýða manna hefur ekki búið við neina auðlegð, og það er skiljanlegt, að þingkaup sé lægra hér en í stærri löndum, enda er þetta vitanlega á margan hátt minna verkefni hjá lítilli þjóð, og líklega engir þm. í heimi, sem eru á jafn lágum launum. Þetta hefur þeim verið bætt að nokkru, sem hafa komið utan af landsbyggðinni, með því að láta þá hafa ýmis smáfríðindi, eins og með því að taka þátt í kostnaði af húsnæði, fæði og öðru slíku. Ef það hefði ekki verið gert, hefði hver einasti eyrir farið hjá þessum mönnum, þannig að þeir hefðu ekki haft neitt kaup, en vitanlega verða allir, sem koma utan af landi, að kaupa menn í staðinn fyrir sig. En svo eru aftur aðrir, sem ekki hafa neitt fast starf og verða að lifa á þingkaupinu eingöngu. Ég skal játa, að í þessum till. virðist mér það jákvætt að taka tillit til þess, hvort maðurinn hefur launað starf eða ekki. Ég skal ekki deila um þessi þrep; það má endalaust deila um það, hvort þau eru réttlát eða ekki. En mér finnst það ekki ósanngjarnt, að þeir hafi hærra, sem ekki hafa annað starf. Það gæti líka komið til mála, að við hefðum lægra kaup, sem erum atvinnurekendur. Í mörgum tilfellum eiga þm. erfitt með að fá vinnu þann tíma, sem þing er ekki, ef þeir geta ekki skapað sér starf sjálfir.

Ég ætla ekki að fara að koma með till. hér, vegna þess að það er ákaflega erfitt fyrir okkur að deila um till. og greiða atkv. um þær sjálfir. En mér væri kærast, ef það gæti orðið samkomulag um það, að kjaradómur ákvæði kaupið. Hann hefur ákveðið laun ráðh., og ég sé ekki, að það liggi svo mikið á, því að það á ekki að greiða okkur þm. eftir þessu kaupi fyrr en eftir kosningar. Viðvíkjandi ráðherralaunum vil ég segja það, að þeir eiga að hafa, skilst mér, milli 70–80 þús. kr. í mánaðarlaun og auk þess þingkaupið, þannig að þetta verður yfir árið mikið á aðra millj. kr., svona 1.5 millj. kr. Auk þess hafa þeir bílstjóra og bíl. Ef ég væri ráðh., sem aldrei verður, þá mundi ég óska eftir því að taka ekki við þessu, því að helmingurinn af þessu fer í útgjöld. En þetta vex fólki í augum. Ég held, að þeir ættu a.m.k. að sjá sér sjálfir fyrir bíl, ef þeir fara að fá þetta kaup. Þeir þurfa ekki að hafa sérstakan bilstjóra og sérstakan bíl. Ég hygg, að það úthald hafi kostað eins mikið og ráðh. undanfarið.

Það verður frekar óskemmtilegt, þegar við komum út í byggðirnar. Þá verður aðalumtalsefnið hjá fólkinu: Þið skömmtuðuð ykkur vel, áður en þið slituð þinginu. Þetta mun alls staðar mæta okkur. Ég kann því illa við að eiga sjálfur þátt í að ákveða kaupið. Persónulega hef ég engan áhuga á því, að það hækki verulega frá því, sem er, en hitt er mér líka ljóst, að það er allt of lágt fyrir þá, sem ekki hafa annað starf. Það verður lítið þannig á, að við höfum skammtað okkur þetta sjálfir og gert það allríflega, og þar með munu fylgja kröfur annarra um að fá hliðstæð kjör, og margur segir nokkuð með réttu, að hann vinni alveg eins mikið og við. Ég held, að það væri skynsamlegast af okkur að leiða hjá okkur að ákveða þetta sjálfir.