26.03.1971
Neðri deild: 70. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1822 í B-deild Alþingistíðinda. (1967)

292. mál, þingfararkaup alþingismanna

Eyjólfur K. Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. nema kannske um eina mínútu eða svo. Ég kemst ekki hjá því að benda á, að allir þeir, sem hér hafa talað og hafa vikið að mínu máli, hafa sneitt hjá því, sem var mergurinn málsins í minni ræðu, þ.e. að forðast þá stefnu, að alþm. yrðu gerðir að atvinnustjórnmálamönnum allir upp til hópa, en að því væri stefnt með þessu frv. Ég tók mjög rækilega fram, að ég teldi nauðsyn bera til þess að hækka mjög verulega laun alþm., og samkv. minni till., ef sú þróun yrði, sem ég legg til, að alþm. sætu á þingi eða sinntu stjórnmálastörfum hálft árið, en ekki hinn helminginn, þá eru auðvitað launin hlutfallslega miklu hærri en nokkurn tíma samkv. þeirri till., sem hér er flutt. En ég verð sem sé að vekja á því athygli, að hjá þessu var sneitt. Tilgangur minn með þessum tillöguflutningi var fyrst og fremst sá, að við þessar umr. væri bent á það sjónarmið, sem ég hef sett fram, og menn hefðu það í huga, vegna þess að ég teldi þá þróun mjög óheillavænlega, ef þinghaldið yrði mjög lengt og þm. yrðu e.t.v. að lokum allir eingöngu þm. og stjórnmálamenn, en sinntu ekki öðrum störfum í þjóðfélaginu.