26.03.1971
Neðri deild: 70. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1822 í B-deild Alþingistíðinda. (1968)

292. mál, þingfararkaup alþingismanna

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vil harðlega mótmæla því, að á það hafi ekki verið bent, að með þessu frv., sem nú liggur hér fyrir í sambandi við launakjör þm., væri verið, eins og hv. síðasti ræðumaður sagði, að gera menn að atvinnustjórnmálamönnum aðeins. Ég benti einmitt á það, að með þessu væri verið að gefa fólki úr öllum stéttum þ. á m. þeim mönnum, sem ekki hafa fram til þessa getað farið úr sínu starfi inn á þing, vegna þess að þeir þoldu það ekki fjárhagslega, tækifæri til þess að taka þátt í stjórnmálabaráttunni, og með því einmitt að greiða nægilega góð laun fyrir þetta starf fáum við fólk úr öllum stéttum þjóðfélagsins til þess að taka þátt í því. Fram að þessu álít ég — og ég segi það hreinskilnislega við síðasta ræðumann — að bæði atvinnurekendur og aðrir hafi ekki talið, að þeir gætu sinnt þessum störfum vegna þess, að þeir þyrftu að yfirgefa sín fyrirtæki. Ýmsir aðrir menn, þ. á m. opinberir starfsmenn og starfsmenn hjá einkafyrirtækjum, hafa ekki treyst sér til þess að yfirgefa þau störf vegna þess, að þingstörfin hafa verið það illa launuð, að efnahagur þeirra þolir ekki, að þeir fari yfir í þingstörfin, vegna þess að þeir mundu verða fyrir fjárhagslegu tjóni. Ég vil hins vegar meina það, að með því að gera þessi störf eins og önnur störf þjóðfélagsins, sem æskilegt er, að sem flestir sjái um, eftirsóknarverð bæði peningalega og jafnframt fá þeir þessi áhrif, sem þm. á Alþ. Íslendinga hala, þá hlýtur það að verða eftirsóknarverðara fyrir þá að geta gengið að því vísu að geta séð jafnframt fjölskyldu sinni farborða. (Gripið fram í.) Gott, þá erum við sammála, og þá er líklega hv. þm. sammála mér um það, að við fellum hans brtt., sem fram kom.