29.10.1970
Efri deild: 7. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í B-deild Alþingistíðinda. (20)

74. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. l. þm. Norðurl. v. fyrir jákvæðar undirtektir hans um afgreiðslu þessa máls. Það er út af fyrir sig ekkert að undra, þó að fram komi vissar aths., vegna þess að þegar breytt er frá föstum reglum, sem settar hafa verið í lög, er það skiljanlegt, að menn vilji gjarnan fá á því nokkrar skýringar. Varðandi það, að óeðlilegt sé að breyta frá þessum frestum, svo sem hv. þm. sagði síðast í ræðu sinni, þá vil ég aðeins geta þess, að þessum frestum hefur oft áður verið breytt. Ég er ekki að segja, að það sé til fyrirmyndar, en það hefur verið gert.

Varðandi það, sem kom fram hjá bæði hv. 1. þm. Norðurl. v. og einnig hv. 4. þm. Norðurl. e., að það væri undarlegt seinlæti á þessum málum, svo sem hv. 1. þm. Norðurl. v. orðaði það, en hinn hv. þm. gaf í skyn, að þetta væri gert, vegna þess að það þyldi ekki dagsins ljós eins og ég held, að hann hafi orðað það í sambandi við þær ráðstafanir, sem fyrirhugað væri að gera, vil ég taka það fram, að hér er um algjöran misskilning að ræða, að það sé um nokkurt samspil milli ríkisstj. og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja að ræða í þessu máli. Ég held, að hv. þdm. viti gerla, að forusta Bandalags starfsmanna ríkis og bæja er þannig skipuð, að ég held, að hún mundi ekki sérstaklega leggja sig fram um það að gera ríkisstj. það til geðs að haga samningum eftir því, sem henni hentaði. Það held ég, að sé nokkuð langsótt skýring.

Varðandi hitt atriðið, sem er eðlilegt, að fram komi, að þetta þyki vera nokkuð langur tími, þar sem áður er búið að veita langan frest, þá vil ég aðeins segja það, að þetta stafar á engan hátt af því, að ekki hafi verið ötullega að þessu máli unnið, heldur er hér um miklu flóknara og vandasamara mál að ræða en nokkru sinni hefur verið við að fást í þessum samningum, vegna þess að samningar þessir eru byggðir á alveg nýju kerfi, sem ekki er þekkt í íslenzkum samningamálum milli vinnuveitenda og stéttarfélaga. Og það hefur komið í ljós, að vinnan við þetta þrátt fyrir þrotlaust starf er svo mikil, að það hefur ekki tekizt að ljúka málinu á æskilegum tíma, — ég skal fúslega undir það taka, og það eitt er ástæðan fyrir því, að beðið er um þennan frest, en ekki það, að ríkisstj. sé á einhvern hátt að dylja það, hvað hér á að gera, enda er ekkert að dylja.

Ég tek undir það með hv. 1. þm. Norðurl. v., að það er talin brýn nauðsyn, að þetta mál liggi ljóst fyrir, áður en fjárlög verða afgreidd. Þau er í rauninni ekki hægt að afgreiða nema það liggi ljóst fyrir. Hvort starfsmenn sveitarfélaga fylgja hér á eftir, skal ég ekkert um segja, þeir hafa þegar samið, en það liggur nokkuð í loftinu, að þeir munu óska eftir breytingum á sínum kjörum, ef verulegar breytingar verða á kjörum ríkisstarfsmanna.

Ég undraðist nokkuð ræðu hv. 4. þm. Norðurl. e., sem er þekktur verkalýðsleiðtogi og hefur tekið þátt í ótal kjarasamningum verkalýðsfélaga, ef hann getur látið sér til hugar koma, að ég fari hér sem annar aðili að þessum samningum að gefa yfirlýsingar um það í einstökum atriðum, hvernig þessir samningar standa. Það held ég ekki, að hv. þm. meini í alvöru, því að það er auðvitað gersamlega útilokað, að ég geri það, og það gæti eyðilagt alla möguleika til samninga. Enda þótt hér sé talað um, að það séu samningar um veigamikil atriði eða samkomulag, þá er það samkomulag að öllu leyti því háð, að endanlegir samningar takist.

Ég vil svo leiðrétta það algerlega, að sáttasemjari hafi ekki verið kvaddur til, það er líka rangt. Hitt er annað mál, að sáttasemjari hefur ekki unnið mjög mikið í málinu, vegna þess að aðilar sjálfir hafa verið að vinna að því sín í milli að kanna leiðir til sátta, og ég veit ekki betur en það sé í samræmi við alla sáttameðferð, að það sé ekki nauðsynlegt, að sáttasemjari sitji alla slíka fundi, en hann veit gjörla, hvað gerist í þessum efnum. Aðalatriðið er auðvitað það, að sættir takist, en ekki það nákvæmlega, hvað sáttasemjari situr marga fundi með aðilum. Ég get því ekki orðið við þeirri ósk hv. þm. og það mundi ekki leiða til neins góðs í málinu að fara að skýra frá þeim atriðum, sem um hefur verið rætt, eða hvaða líkur geta orðið þar til sátta. Að hve miklu leyti lagður verður trúnaður á blaðafréttir í því efni, það verða menn að ráða við sjálfa sig. Þær fréttir eru ekki komnar frá neinum aðilum, sem þetta mál varða, og eru meira og minna ágizkanir út í hött.

Varðandi það hins vegar, hver sé meginstefna ríkisstj. í þessu máli, þá er alveg auðvelt að svara því. Hún er að fylgja lögum, vegna þess að í lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna segir ótvírætt, að það beri að miða laun opinberra starfsmanna við þau laun, sem sambærilegir starfshópar í þjóðfélaginu þegar hafa, og þetta er sú leiðarstjarna, sem farið verður eftir í þeim samningum, og það er samkomulag um það milli beggja samningsaðila, að að sjálfsögðu verði byggt á þessum fyrirmælum laganna.

Ég sé svo ekki ástæðu til, herra forseti, að orðlengja frekar um málið, en leyfi mér að ítreka þá von mína, að hv. þd. geti fallizt á að veita aðilum málsins þann frest, sem hér um ræðir.