02.04.1971
Neðri deild: 83. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1841 í B-deild Alþingistíðinda. (2018)

202. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Frsm. meiri hl. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir til umr., er komið til þessarar hv. d. frá Ed., en þar mun það hafa verið samþ. með aðeins einu mótatkvæði. Frv. er þess efnis, að það skuli banna alla veiði með dragnót, flotvörpu eða botnvörpu í Faxaflóa. Með því er átt við svæði innan línu, sem er merkt frá punkti réttvísandi í vestur sex sjómílur frá Garðskaga og þaðan beint í Malarrif á Snæfellsnesi. Þetta mál hefur oft verið til meðferðar í hv. d. og hefur jafnan átt þar miklu fylgi að fagna, en nokkrum sinnum dagað uppi í þessari hv. d. Að þessu sinni var afstaða sjútvn. til málsins sú, að allir nm., að einum undanskildum, mæla með samþykkt frv., eins og það liggur fyrir. Meiri hl. n. hefur skilað nál. á þskj. 707, þar sem þessi afstaða kemur fram. Einn nm., hv. 7. þm. Reykv., hefur skilað séráliti á þskj. 752, þar sem hann leggur til, að frv. verði vísað frá með rökst. dagskrá. Ég skal geta þess, að sú málsmeðferð var allítarlega rædd í sjútvn., en niðurstaðan varð sú, er ég hef nú greint frá. Þó er ekki fyrir það að synja, að sumir sjútvnm. hafi fremur viljað stuðla að þeirri málsmeðferð á þeim forsendum, sem hv. 7. þm. Reykv. tilgreinir í sínu nál., sem sé þeim, að til stendur að endurskoða veiðiheimildir þær, sem nú eru í gildi innan landhelgi, mjög bráðlega, og þess vegna hefði e.t.v. verið rétt að láta þetta mál bíða þeirrar endurskoðunar.

Fyrir mitt leyti fylgi ég þessu máli núna fyrst og fremst vegna þess, að ég álít, að það hafi komið mjög skýrt í ljós, eftir að auknar togveiðar voru leyfðar innan landhelginnar, að þær geta verið mjög skaðlegar á hrygningarsvæðum mikilsverðra nytjafiska. Í sambandi við Faxaflóann á ég þá sérstaklega við síldina, en það er vitað, að sums staðar á því svæði, sem um ræðir, eru hrygningarstöðvar síldarinnar. Síldin hrygnir þannig, að hrognin eru í klösum við botninn fyrstu vikurnar, og þess vegna er mjög hættulegt, ef veiðarfæri eru dregin yfir þann botn, þar sem hrognaklasar síldarinnar eru. Það munu á s.l. sumri hafa orðið veruleg brögð að því, að togbátar hafi eyðilagt mjög mikið af síldarhrognum einmitt hér í flóanum á því svæði, sem um er að ræða. Það tel ég vera slíka rányrkju, að ekki megi horfa upp á það aðgerðalaust, og þess vegna fylgi ég þessu frv. Veiði dragnótabátanna álít ég að skipti minna máli, því að hún er sannast að segja orðin mjög litil. Það eru ákaflega fáir dragnótabátar gerðir út nú orðið á þessu svæði vegna þess, hvað veiðimagnið hefur farið minnkandi á undanförnum árum. Hvort það stafar af ofveiði eða öðrum ástæðum, skal ég ekki um dæma, en það út af fyrir sig, álít ég, að hafi ekki úrslitaþýðingu í þessu máli. Minni afstöðu ræður þetta, sem ég skýrði frá um síldarhrognin og togbátana.

Ég skal geta þess, að sjútvn. sendi þetta mál Útvegsmannafélagi Reykjavíkur til umsagnar fyrir allnokkru síðan eða strax, eftir að það kom til sjútvn., en frá félaginu hefur engin umsögn borizt. N. sendi málið einnig Útvegsmannafélagi Suðurnesja til umsagnar, og frá því félagi barst svar með efnislegri umsögn á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Vegna þessa bréfs yðar var boðað til fundar útvegsmanna, og í dag á almennum fundi Útvegsmannafélags Suðurnesja var eftirfarandi samþykkt: Bönnuð skal öll veiði með dragnót, flotvörpu, botnvörpu og nót í Faxaflóa (með því er átt við svæði innan línu, sem dregin er frá punkti réttvísandi vestur 6 sjómílur frá Garðskaga og þaðan beint í Malarrif).

Virðingarfyllst,

f.h. Útvegsmannafélags Suðurnesja,

Huxley Ólafsson.“

Einnig hefur mér borizt svohljóðandi samþykkt frá hreppsnefnd Vatnsleysustrandarhrepps: „Hreppsnefndin samþykkir að skora á hið háa Alþ. að það samþykki till. þá sem hr. Jón Árnason alþingismaður, flytur um friðun Faxaflóa.“

Ég sé ekki ástæðu til þess, herra forseti, að fara um þetta mál fleiri orðum. Því miður er sá hv. þm., sem skilar séráliti varðandi málið, fjarstaddur vegna veikinda og getur því ekki gert grein fyrir sinni skoðun í málinu. Ég vil þess vegna vekja athygli hv. alþm. á nál. hans, sem fram er borið á þskj. 752. Það mun hafa komið fram brtt. við frv. frá þm. Norðurl. Hún snertir ekki efnislega friðun Faxaflóa, heldur er hún varðandi það, hversu langan tíma dragnótaveiðar skuli leyfðar á tilteknum svæðum fyrir Norðurlandi. Sjútvn. hefur ekki fjallað um þá till. og tekur ekki afstöðu til hennar, en ef það er rétt skilið hjá mér, að till. sé eingöngu um það að breyta tímanum, sem dragnótin er leyfð, hef ég fyrir mitt leyti ekkert við það að athuga.