02.04.1971
Neðri deild: 83. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1842 í B-deild Alþingistíðinda. (2019)

202. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Eins og hv. frsm, meiri hl. gat um, þá hef ég leyft mér ásamt þrem öðrum þm. að norðan að flytja brtt., sem varðar leyfi til dragnótaveiða fyrir Norðurlandi. Þessi till. er flutt vegna þess, að okkur hafa borizt tilmæli úr ýmsum verstöðvum norðanlands um það, að dragnótaveiði, ef hún á annað borð er leyfð fyrir norðan land, hefjist seinna en lögin gera ráð fyrir og gengi þá lengra fram á haustið eða veturinn. Það er ekki um neina breytingu á lengd tímans að ræða. En þessar óskir eru fram komnar vegna þess, að kolinn gengur seinna á mið fyrir norðan land en annars staðar, og er þetta því eðlilegt, ef á annað borð er leyfð dragnótaveiði. Ég skal ekki fjölyrða um þetta, en vil þakka hv. form. sjútvn. fyrir stuðning hans við þessa till.