02.04.1971
Neðri deild: 82. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1846 í B-deild Alþingistíðinda. (2035)

241. mál, sala hluta af landi jarðinnar Dysja og jarðarinnar Háagerðis

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður er djúpvitur og vissi fyrir, hvað ég mundi ætla að segja, áður en ég var hingað kominn. Ég vildi aðeins benda á það, að ef við samþykktum þessa brtt. — og ég hef ekkert á móti því, þar sem um er að ræða sölu til hrepps — þá mundi salan til Dalvíkurhrepps á viðkomandi landi verða án nokkurra skilyrða um endursölu, en slík skilyrði eru um söluna til Hafnarfjarðar og hafa verið um sölu til hreppa undanfarið, þannig að ég tel óhjákvæmilegt, að það verði höfð venjuleg formúla um endursölu með ákvæði eins og því, sem felst í sölunni til Hafnarfjarðar. Ég vildi nú vænta þess, að hv. flm. tækju að sér fyrir næstu umr. að gera þessa breyt., svo að það verði ekki augljóst ósamræmi og Hafnarfjörður þurfi ekki að búa við mun þrengri kost af hálfu Alþ. en sú virðulega sveit Dalvík á Norðurlandi.