05.04.1971
Efri deild: 92. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1848 í B-deild Alþingistíðinda. (2048)

241. mál, sala hluta af landi jarðinnar Dysja og jarðarinnar Háagerðis

Frsm. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þetta frv., sem hér er til umr. Landbn. þessarar hv. d. hefur kynnt sér umsagnir, sem bárust til landbn. Nd. varðandi sölu á hluta af jörðinni Dysjum í Garðahreppi. Var leitað umsagnar Sambands ísl. sveitarfélaga, því að málið varðar fyrst og fremst makaskipti milli tveggja sveitarfélaga, sem sé Hafnarfjarðarkaupstaðar og Garðahrepps, og einnig var leitað umsagnar Jarðeignadeildar ríkisins. Voru báðar umsagnirnar jákvæðar.

Um sölu á jörðinni Háagerði í Dalvíkurhreppi er það að segja, að það er ósk hreppsnefndarinnar þar að fá að kaupa jörðina Háagerði, sem er þar innan hrepps. Um það segir í umsögnum bæði frá Landnámi ríkisins og eins frá Jarðeignadeildinni, að jörð þessi hafi ekki verið í byggð síðan 1934 og sé mjög litil og þess vegna alls ekki til þess fallin að hefja á henni sjálfstæðan búrekstur á nýjan leik, og er lagt til að verða við ósk hreppsnefndarinnar í þessu efni. Landbn. hefur sem sé einróma lagt það til, að þetta frv. verði samþ. óbreytt.