04.03.1971
Neðri deild: 56. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1865 í B-deild Alþingistíðinda. (2059)

222. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Jónas Pétursson:

Herra forseti. Ég vil fagna framkomu þessa frv., og það dylst engum, sem lítur á það, að unnið hefur verið mikið starf af þeirri nefnd, sem hefur undirbúið þetta mál. Ég er í þeirri n., sem væntanlega fær þetta frv. til meðferðar, og mun þess vegna ekki fara hér ítarlega út í það. En ég kaus þó að segja nokkur orð núna við 1. umr. málsins. Það er ekki laust við, að ég vilji gagnrýna nokkur atriði í frv. Ég vil fyrst vitna í ummæli hv. frsm., 4. þm. Norðurl. v. Hann sagði, að alger samstaða hefði verið um stefnumið frv. En það er kannske einmitt um stefnumið frv., sem ég er svolítið ósammála þessari hv. nefnd, og ég skal segja það strax, hvað ég á við. Mér finnst, að það gæti um of í heild í frv. íhlutunar og stjórnunar — tilhneigingar til stjórnunar. Skipulag er orð, sem er afskaplega mikið notað nú á tímum, afskaplega dáð, en það er farið að orka dálítið tvírætt á mig oft og tíðum. Ég vil t.d. fyrst benda hér á það, sem sagt er um verksvið Landnáms ríkisins í a-liðnum um skipulagningu byggðar í sveitum landsins. Ég var að velta því fyrir mér áðan, hvort við ættum ekki að orða þetta skemmtilegar, og ég setti á blað: Að stuðla að hagkvæmri byggð og búrekstri í sveitum landsins. Ég held, að þetta sé sama markmið, en það er svolítið annar blær yfir því, þegar það er sagt á þennan hátt. Nú munum við taka þetta til athugunar í n.

En annað er það, sem ég vil koma að, og það snertir stofnun grænfóðurverksmiðjanna. Þar er gert ráð fyrir því, að þær séu yfirleitt fyrirtæki Landnámsins. Það er yfirleitt gert ráð fyrir því, þó að engan veginn sé útilokað, að til greina komi stuðningur við einhver félagssamtök, og ég vil þá sérstaklega í þessu sambandi minna á, að það hefur verið mér sérstakt ánægjuefni að heyra sagt frá því í fréttum, að stofnað hafi verið fyrirtæki vestur í Dalasýslu - hlutafélag, að ég held — eða a.m.k. félagsskapur manna þar, til að vinna að framleiðslu fóðurmjöls úr grasi og þangi. Og ég skal segja það hiklaust strax, að þetta er sú leið, sem ég vildi helzt, að við færum í þessu nauðsynjamáli. Því að það er mikið nauðsynjamál að koma upp framleiðslustöðvum, er vinna úr íslenzku grasi, og ég held, að það sé alveg rétt, að það séu einmitt kögglaverksmiðjurnar eða það form framleiðslunnar, graskögglarnir eða heykögglarnir, sem verði skynsamlegastir og heppilegastir. En það orkar miklu betur á mig, ef hægt væri að koma þessari framleiðslu þannig fyrir — þessum framkvæmdum á næstu árum — að það séu samtök bændanna sjálfra, félagsskapur þeirra, sem gengst fyrir þessum framkvæmdum. Að vísu er sjálfsagt, að Landnámið styðji þær, og það þarf að vera kostur á mjög hagstæðum lánum til þessara framkvæmda.

Ég vil gjalda nokkurn varhug við aukinni íhlutun þess opinbera eða ríkisins á ýmsum sviðum í þjóðfélaginu og hvergi frekar en í landbúnaðinum. Ég var að lesa fyrir stuttu ágæta, skemmtilega grein um Laxárdeiluna eftir Björn Sigfússon, og ég rakst þar á vísuhendingar eða kvæðabrot, sem ég hafði ekki heyrt áður eða a.m.k. kunni ekki og hljóða á þessa leið:

Í fjallgeimum Íslands reis hönd móti hönd, þar er höggfrjálst og olnbogarými.

Nú er það alger rangtúlkun að segja, að það hafi verið einhver einkenni, að í fjallgeimum Íslands hafi risið hönd móti hönd eða þar hafi verið mikið olnbogarými. Ég held, að þetta sé þvert á móti, að það sé kannske hvergi meiri samstarfsvilji og skilningur á milli fólksins en einmitt þar, sem er „höggfrjálst“ og mikið olnbogarými. Og ég vil minna á ágæta frásögn, sem kom í Morgunblaðinu fyrir nokkrum árum um þorrablót í Möðrudal, þar sem Fjallabyggðarbúar, sem eru á strjálbýlasta svæði landsins, komu saman að vetri til til þess að gleðjast! Þar reis ekki hönd móti hönd! Og þetta þurfum við að halda í. Ég er þessi mikli strjálbýlismaður sem ég er, ekki sízt vegna þess, að ég hef séð hina miklu kosti strjálbýlisins í áhrifunum á mótun og gerð þess fólks, sem þar býr. Það er sérstakur sjálfstæðisandi, sem þar ríkir — ekki endilega pólitískur. Ég er ekki að meina, að fólkið sé sérstaklega pólitískt, en andi sjálfstæðis og athafnafrelsis hefur sína miklu kosti, og við megum ekki týna honum úr þjóðlífinu — ekki úr persónuleikanum í þjóðfélaginu, hálftröllum og hálfgerðum útilegumönnum. Þá setur þjóðin ofan. Það er andleg og líkamleg hreysti, sem fylgir frelsi, kyrrð og sjálfstæði. Og ég vil gjarnan segja það hér — enda þótt það sé hreint ekkert strjálbýlt í Fljótsdal, en þar stjórnaði ég búi í 13 ár — að það er bezti tími ævi minnar; og það er kannske fyrst og fremst vegna þess, að ég réð þar ríkjum, enda þótt ég væri undir annarra stjórn, en þeir voru bara í órafjarlægð.

En kannske finnst ykkur ég vera farinn nokkuð afvega í þessu spjalli. En þetta er nú samt þáttur, sem við þurfum að gefa gaum og ekki sízt í löggjafarstarfinu hér, að um leið og við erum að reyna að bæta úr annmörkum strjállar byggðar og fjarlægða, glötum við ekki þeim kostum, sem frjálsræðinu og olnbogarýminu fylgir. Og ég held, að bændastéttin verði sú stétt eða sá hópur manna, sem lengst heldur uppi þessu merki sjálfstæðis og frjálsræðis, og ég álít, að við séum í mikilli hættu með að glata þessu í þéttbýlinu. Þar er fólkið og hefur verið í vaxandi mæli steypt í eitt og sama mót. Þess vegna vil ég nefna hér enn sérstaklega einn kafla í þessum lögum, sem svolítið hefur farið í taugarnar á mér, eins og sagt er, þ.e. orðalagið, og það er kaflinn um félagsbúskap og félagsræktun. Þar stendur: „Tveir eða fleiri bændur geta stofnað til félagsbúskapar á einni eða fleiri jörðum ...“ Ég hef aldrei haft þá tilfinningu, að það væri nokkur hindrun á því, að sá, sem vildi fara að búa og hefði jörð til umráða, gæti sezt þar að og hagað sínum störfum, eins og hann óskaði eftir. Hitt er annað mál að gera einhverjar kröfur gegn þeim réttindum eða aðstoð, sem látin er í té af Landnámi ríkisins, þ.e. að einhver skilyrði fylgi; það er allt annað mál. En við megum undir engum kringumstæðum koma því inn í löggjöf, að það sé í raun og veru ekkert olnbogarými orðið til þess að haga háttum sínum eftir því, sem menn óska helzt.

Ég þarf ekki að láta fylgja fleiri orð um þetta, en ég viðurkenni það, að það eru mörg atriði hér mjög til bóta, og ég held, að það sé einfalt mál að laga þessa annmarka, sem ég hef hér verið að benda á, t.d. að breyta nokkuð orðalagi á þessum greinum um félagsbúskap og félagsræktun, og sérstaklega vildi ég leggja áherzlu á það, að það lægi mjög opið fyrir í lögunum, að ekki yrði síður gert ráð fyrir því, að heykögglaverksmiðjurnar verði fyrirtæki bænda sjálfra eða félagsskapar, sem þeir reka, en Landnámið sjálft komið þeim á fót og reki þær.