24.03.1971
Neðri deild: 68. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1870 í B-deild Alþingistíðinda. (2065)

222. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Björn Pálsson:

Herra forseti. Þetta er talsverður lagabálkur og hægt að ræða lengi um frv., en tíminn er orðinn naumur, svo að ég skal reyna að stikla á stóru.

Það eru allmörg ár, síðan l. voru sett um stofnun nýbýla og landnámsstjóri tók til starfa. Ég geri nú ráð fyrir, að þetta hafi frekar verið jákvæð starfsemi, þó að margar yfirsjónir hafi verið gerðar. Ég álít, að það, sem hafi verið mest gagn að, hafi verið að greiða fyrir því, að býli héldust í byggð með því ýmist að taka eldri býli sem nýbýli eða aðstoða með byggingarstyrki. Viðvíkjandi stofnun nýrra býla hefur sú yfirsjón verið gerð, að þau hafa verið of litil, og með þeirri tækni, sem nú er, reynast þau of lítil, a.m.k. ef á að hafa kvikfjárbúskap, þannig að sumir hafa yfirgefið þau, og þau eru alls ekki öll í byggð, sem reist hafa verið. Í þessu frv. koma fram nokkur önnur sjónarmið. 5ó tel ég, að ýmislegt sé í því, sem er dálítið broslegt, en ég segi ekki, að sé stórskaðlegt. Þær brtt., sem n. hefur gert, sé ég ekki, að skipti miklu máli. Þær eru ekki til ills, en ekki neitt sérstaklega jákvætt við þær, þannig að ég ætla ekki að gera þær að umtalsefni. Ég get greitt atkvæði með þeim öllum, held ég. En það eru nokkur atriði í frv., sem ég vil minnast á. Ég tel, að það, sem sé flónskulegast við þetta allt saman, sé, að þetta kerfi er allt að verða tvöfalt. Búnaðarsamböndin hafa sína ráðunauta og trúnaðarmenn, sýslunefndirnar hafa byggingafulltrúa, og svo er gert ráð fyrir, að þarna komi eiginlega annað kerfi. Ég álít, að ef mönnum er alveg sama um fjármunina, þá sé þetta allt í lagi út af fyrir sig, en ég hef ekki álitið okkur svo ríka þjóð, að við þyrftum ekki að beita einhverri aðgæzlu, og það er a.m.k. tafsamt að samræma þessi sjónarmið. Ráðunautum hjá búnaðarsamböndunum er alltaf að fjölga. Ég spurði einn af ráðunautunum, hvernig stæði á þessu. Hann sagði: „Þetta verður alltaf meiri og meiri vinna. Það er alltaf að fjölga þessum stofnunum, sem þarf að svara og gefa ýmsar skýrslur.“

Annars hefur það verið mín skoðun í lífinu, að ráðunautar kenndu okkur ekki að búa, ef við kunnum það ekki sjálfir, þannig að ég held, að þeir verði fáir vel efnaðir sem láta ráðunauta segja sér, hvernig þeir eigi að fara að því að búa. Ég hef ekkert við 1. gr. frv. að athuga. Þegar komið er að 8. gr., þá er þar allmikil klausa um lán til bústofnsauka og hljóðar svo:

„Lán til bústofnsauka má veita hreppsfélögum gegn tryggingu í fasteign eða sýsluábyrgð. Skilyrði þess, að hreppsfélag geti fengið slíkt lán, er, að myndaður hafi verið í hreppnum bústofnsleigusjóður. Reglur fyrir bústofnsleigusjóði hreppanna skulu m.a. fela í sér:

1. Hreppsnefndin hefur á hendi stjórn sjóðsins.

2. Höfuðstóll sé lifandi peningur, annaðhvort haustlömb (gimbrar) eða kelfdar kvígur.

3. Búpeningurinn sé leigður frumbýlingum í hreppnum fyrst og fremst, en einnig öðrum bændum, er sérstaka þörf hafa fyrir aukinn bústofn t.d. er óhöpp hafa hent, er valda skepnumissi.

4. Leigutími búpeningsins skal að jafnaði eigi skemmri en 6–10 ár. Lánið sé endurgreitt í sama formi og það er tekið, þ.e. skilað haustgimbrum eða kelfdum kvígum.

5. Leiga (vextir) af þessum bústofnslánum skal greidd í lifandi peningi og sé hún einn gripur (haustgimbur eða kelfd kvíga) á ári fyrir hverja 30 gripi, sem leigðir eru.“

Satt að segja finnst mér þetta dálítið frumlegt. Mér hefði fundizt eðlilegt, að þetta hefði verið svona um aldamótin síðustu. Það er náttúrlega ágætt með vaxtakjörin. Fyrir 30 grípi á að greiða einn grip. (Gripið fram í.) Þetta er í l.; þess vegna er ég að ræða um það. Það er ekkert betra, þótt maður framlengi vitleysuna. Annars er þetta meinlaust í sjálfu sér, en þetta er dálítið broslegt. Þetta er sennilega austfirzk hugmynd. Ég heyrði einhvern tíma talað um, að Gísli í Skógargerði gaf nokkrar gimbrar, og ég veit ekki, hvort kvígur fylgdu og hvort þær voru kelfdar eða hvað, en hann gaf eitthvað, og svo átti að stofna sjóð í hreppnum. Það er náttúrlega allt annar hlutur, ef einhver vill gefa eitthvað, en þetta er dálítið frumlegt. Fyrst þurfa hreppsfélögin að taka lánin, svo þarf sýsluábyrgð, og svo má ekki veita lánið nema í gimbrum og kelfdum kvígum og ekki borga leiguna nema í gimbrum og kelfdum kvígum, og þessir aumingja oddvitar, sem eiga að sýsla við þetta, bæta þessu á sig, en vextirnir verða ekki nema 3%. Þetta var þannig, að menn greiddu í smjöri leigur hér áður fyrr, en nú er tæknin orðin svo mikil, að við leggjum mjólkina inn, og svo erum við farnir að hafa nóg af seðlum, þó að þeir séu ekki verðmiklir.

Mér finnst miklu eðlilegra að hafa þetta bara þannig, að það væri lánað til þess að kaupa bústofn og vextir greiddir af peningunum. Ég hef ekkert á móti því, að vextirnir séu lágir. Þeir mættu vera svipaðir og þetta. Ef ríkisstj. vill nú allt í einu fara að lækka vexti, þá skyldi það gleðja mig að vera með þeirri till., en þetta svarar til svona 3%. Og ég held, að það væri miklu fyrirhafnarminna en að láta veslings oddvitana vera að basla með kelfdar kvígur og gimbrar að haustinu, og svo ef einhver kvíga væri ókelfd, þá gætu orðið málaferli út af því, og það er ekki gott að segja um það að haustinu, hvort kvígur eru kelfdar eða ókelfdar, þegar þær eiga e.t.v. að bera á vorin. Ég held, að í nútímabúskap væri eðlilegra að lána peninga og taka vexti í peningagreiðslu, en ég skal ekkert hafa á móti því, að vextir verði 3%; það er fjarri því. Og svo væri hægt að spara oddvitunum alveg feiknafyrirhöfn, að ég ekki tali nú um þessa veslings menn, sem leigja þetta, að stritast með kvígurnar og gimbrarnar. Og hvernig á að borga, ef maður tekur 10 kvígur eða 15 kvígur með hálfri kvígu á leiguna? Þetta er dálítið frumlegt. Það eru ekki allir, sem hafa að gera með 30 kvígur í einu. (Gripið fram í: En verðbólgan fer ekki með þetta.) Nei, hún fer ekki með það; það er alveg rétt. En það væri hægt að lána með vísitölu eða gengistryggingu. Ég kem nú að því seinna. Það er ekki þannig, að ég haldi, að þetta verði neitt stórskaðlegt. Ég held, að bústofnslánadeildin fari tæpast að lána kvígur og gimbrar. Það var víst í gömlu lögunum ákvæði um þetta. Það var margt gott í þeim líka. Þá hefur lítið verið lánað af grípum; ég hef ekki heyrt um það. En ef þetta er nú ekki til neinna nytja frekar en fjárfestingarfélagið hans Eyjólfs míns, þá er bezt bara að fella þetta niður.

Þá komum við að 12. gr. Það er nú ekkert stórt þar; það er þá helzt mállýti. 2. mgr. hljóðar þannig: „Eigi er Stofnlánadeild heimilt að endurlána erlent lánsfé nema með gengisákvæði, enda gangi slíkt lán aðeins til vinnslustöðva og vélakaupa.“ — Svo kemur 3. mgr.: „Stofnlánadeild er heimilt þrátt fyrir ákvæði 2. málsgr.“ — þessarar gr., sem ég var að lesa — „og ákvæði 6. gr. að endurlána erlent lánsfé til bygginga, sem reistar eru til sameiginlegra þarfa bændasamtakanna, enda séu skuldabréf fyrir þeim lánum með gengisákvæði.“ Þarna mætti fella niður: „enda gangi slíkt lán aðeins til vinnslustöðva og vélakaupa“ — og fella svo niður hálfa aðra linu á eftir og segja: — „aðeins til vinnslustöðva, vélakaupa og bygginga, sem reistar eru til sameiginlegra þarfa bændasamtakanna.“ Þetta væri hægt að laga. Þetta er nú orðalagsbreyting aðallega. En í sjálfu sér hef ég ekki neitt annað við gr. að athuga.

Svo er 16. gr. Hún er um bæjarhúsin okkar: „Ef landnámsstjórn telur nauðsynlegt, að bæjarhús séu færð, getur Stofnlánadeild sett að skilyrði fyrir láni til endurbyggingar, að það sé gert.“ Sannleikurinn er sá, að samkv. þessu frv. á landnámsstjóri að vera geysilega voldugur maður. Ég get borið fyrrv. landnámsstjóra ágætt vitni og efast ekki um, að þessi sé ágætur líka. En það getur verið dálítið erfitt að vippa bæjarhúsunum langar leiðir, ef það þarf lítið eitt að gera við þau, til þess að fá 120 þús. kr. lán, af því að krónan er ekki svo mikils virði, þannig að þetta eru anzi ákveðin skilyrði.

Þá er 17. gr., sem hljóðar þannig: „Heimilt er að telja lán eða eftirstöðvar láns úr Stofnlánadeild komnar í gjalddaga án uppsagnar: 1. Þegar áskilið árgjald er ekki greitt á réttum gjalddaga ... “ Ég held, að það væru anzi mörg lán fallin í gjalddaga, ef þessu ákvæði væri framfylgt. Ég veit vel, að Búnaðarbankinn hefur ekki gert það; hann hefur ekki framfylgt þessu. En satt að segja finnst mér alveg ástæðulaust að hafa svona ákvæði í l., að allt lánið sé fallið í gjalddaga, ef ekki er staðið í skilum með árgjald á réttum tíma. Ég komst einu sinni í það að þurfa að borga af ríkisskuldabréfum; þeir hala góðan lögfræðing þar. Ég þurfti að borga af þessum ríkisskuldabréfum. Ég var þá í einhverju húsabraski, og hann sagði mér, að allt lánið væri fallið í gjalddaga. Ég hafði ekki kynnzt þessum vinnuaðferðum fyrr, en þetta lagaðist nú. En mér finnst alveg óþarfi að hafa þetta í okkar bústofnslánadeildarlögum; bankastjórar geta verið misjafnir. Annars hefur það verið þannig, að bankana hefur ekkert langað til þess að taka jarðirnar af okkur, svo að þetta hefur ekki fram að þessu komið að sök.

21. gr. hljóðar þannig: „Stjórn Búnaðarbanka Íslands hefur á hendi stjórn Stofnlánadeildar með sama hætti og annarra deilda bankans. Ákveða bankastjórar allar lánveitingar deildarinnar, enda liggi fyrir umsögn landnámsstjórnar og Byggingastofnunar landbúnaðarins hvað byggingar snertir.“ Landnámsstjórn þarf að skipta sér af mörgu. Búnaðarbankinn á ekki að hafa heimild til þess að lána nema með hennar samþykki. Ég sé ekki, að það sé ástæða til þess að vera að auka okkur fyrirhöfn með því að fara bæði í þessa Byggingastofnun landbúnaðarins og svo til stjórnar Landnámsins líka. Það er ekki landnámsstjóri, það er landnámsstjórnin. Og að þeir hafi svo sérstakt vit á því, hvort á að lána þessum eða hinum, því hef ég satt að segja enga trú á. Ég held, að Búnaðarbankinn sé alveg einfær um að sjá um það. Mér finnst bera ofurlítið á því í þessum l., að yfirleitt þurfa landnámsstjóri og landnámsstjórn að koma við sögu í öllum sköpuðum hlutum.

27. gr. hljóðar þannig: „Í hverri sýslu skal vera landnámsnefnd skipuð þrem mönnum. Tveir nefndarmanna skulu kosnir af hlutaðeigandi búnaðarsambandi, að viðhafðri hlutfallskosningu, ef óskað er, en einn skipaður af landnámsstjórn, og er hann formaður. Skipa skal héraðsráðunaut, þar sem því verður við komið. Kjörtímabil landnáms­ nefndar er 4 ár.

Nefndin skal vera landnámsstjórn og landnáms­ stjóra til aðstoðar og ráðuneytis innan sýslu um framkvæmd þessara laga.“

Þarna er að koma þetta tvöfalda kerfi. Fyrst eru búnaðarsamböndin með sína ráðunauta og alla sína blessaða trúnaðarmenn, og svo á landnámsstjórn líka að hafa þriggja manna nefnd. Ég sé ekki annað en þarna sé tvöfalt kerfi og væri hægt að spara annað. Og svo held ég, að það sé alveg orðið nóg af þessum blessuðum ráðunautum. Ég sé ekki, að það sé þörf á því, að búnaðarsamböndin hafi þetta tvo, þrjá ráðunauta og stundum fleiri í stærstu sýslunum, og í mörgum tilfellum eiga bændur að þurfa að bera undir báða aðila, hvort þeir megi nú gera þetta eða hitt. Það fer að verða lítið frelsi bóndans.

Þá er það IV. kafli: Um verksvið Landnáms ríkisins, er það kallað. Það er eigi lítið verkefni. Það er skipulag byggðar í sveitum landsins. Það er ekkert aukaatriði. Og að halda jarðaskrár yfir allar jarðir. Þriðji liðurinn er: Að sjá um framkvæmdir í byggðahverfum, og fjórði liðurinn: Að annast eða fylgjast með: 1. Ábúð, sölu og leigu lögbýlisjarða. 2. Félagsræktun. 3. Stofnun nýbýla, endurbyggingu og sameiningu jarða. 4. Stofnun grænfóðurverksmiðja. 5. Úthlutun ríkisframlaga til landbúnaðarins samkvæmt þessum lögum.

Þetta er þó nokkurt verkefni, og að sumu leyti finnst mér eiginlega dálítið óþarft að fela landnámsstjórn þetta allt saman, t.d. skipulag byggðar í sveitum landsins. Þetta er ekkert lítið verk. Sannleikurinn er nú sá, að það er ákaflega takmarkað hægt að skipuleggja úr því, sem komið er, en þetta hefði verið æskilegt, áður en byggt var í sveitunum, en það er bara búið að byggja og búið að leggja rafmagn inn á flest býli. Eitthvað heyrði ég um, að Unnsteinn væri að ráðgera að skipuleggja Suðurlandsundirlendið. Ég hef nú ekki heyrt meira um það, hvað komst í verk á því sviði. En ég held satt að segja, að þetta sé nú dálítið ofvaxið landnámsstjórn að skipuleggja byggðir í öllum sveitum landsins. Viðvíkjandi jarðaskránni held ég, að Búnaðarfélagið hafi líka jarðaskrá og þetta sé tvíverknaður og væri rétt, að annar aðilinn sæi bara um þetta eða Búnaðarfélagið væri sem sé ekki að vafstra við það. Að sjá um framkvæmdir í byggðahverfum er náttúrlega gott, þ.e. að líta eitthvað eftir því, en ég hef trú á, að það sé nú ofvaxið þessum nefndum öllum. Mér finnst, að þeir, sem búa í byggðahverfunum, ættu aðallega að sjá um framkvæmdirnar, en hinir gætu haft eftirlit með þeim.

Það væri rétt að orða það svoleiðis, ef þeir vilja eitthvað vera að skipta sér af því. Svo kemur það, að þeir eiga að annast eða fylgjast með ábúð, sölu og leigu lögbýlisjarða. Mér virðast þessi l. vera þannig, að við séum varla myndugir að því að leigja eða selja jörðina okkar án þess að spyrja landnámsstjórn um það. Satt að segja finnst mér það dálítið ófrelsi og óeðlilegt, að sjálfstæðismenn fari að setja svoleiðis ákvæði í lög.

Nú, það er ekkert nema gott um félagsræktunina að segja; hún hefur alltaf verið leyfileg. Hvað viðvíkur stofnun nýbýla, endurbyggingu og sameiningu jarða, geta afskipti verið réttlætanleg að því leyti til, sem nýbýlastjórn hefur með það að gera, en hún á ekki að fara að skipta sér af því t.d., þó að við vildum fara að breyta um á okkar eigin jörðum, annaðhvort kaupa einhvern landskika eða skipta á milli barna okkar. Það kæmi nýbýlastjórn ekkert við; við þyrftum ekkert til hennar að sækja.

Svo koma grænfóðurverksmiðjurnar og úthlutun á ríkisframlögum. Ég kem að grænfóðurverksmiðjunum seinna. Það er eðlilegt, að þeir vilji sjá um úthlutun á því, sem á að greiða samkvæmt þessum l. En sannleikurinn er sá viðvíkjandi þessum greiðslum — þessum styrkjum út á grænfóðurrækt og annað slíkt, að það er miklu eðlilegra og sjálfsagðara að hafa þetta á einni hendi. Nú hefur það verið þannig undanfarið, að um Búnaðarfélagið hafa verið greiddar eitthvað 1500 eða 1700 kr. út á hektarann í grænfóðurrækt. Hér eiga að koma 3 þús. kr. á hektarann, skilst mér, en náttúrlega er ekkert auðveldara en hafa þetta á einum stað, og það er fjöldamargt í þessum I. þannig, að það væri hægt að spara vinnu með því að sameina það að einhverju leyti. Svo hefur ríkið sérstaka deild til að sjá um jarðeignir ríkisins og yfirstjórn þeirra. Það væri í sjálfu sér ekkert nema eðlilegt, að landnámsstjóri sæi um það; það væri sameinað, en aftur að Búnaðarfélagið tæki einhvern hluta af umsjón með þessum ríkisjörðum, því að það eru engar jarðir meira niðurníddar — og hlutfallslega óvíða fleiri jarðir í eyði — en þessi gömlu prestssetur. Ég veit ekki betur en Steinnes í Þingi sé í eyði — höfuðból. Mér var sagt, að Hof í Vopnafirði væri í eyði — einhver bezta jörð í Vopnafirði. Og ætli það sé ekki víðar þannig. Það veitti ekkert af, að nýbýlastjórnin sæi um þessar jarðeignir ríkisins, og er ekkert nema gott um það að segja. En mér finnst tvíverknaður, að Búnaðarfélagið og landnámsstjórn séu í raun og veru að gera sama hlutinn, þ.e. að greiða upphæðir sitt í hvoru lagi til sömu framkvæmdanna. Það mætti nota meiri hagsýni í þeim hlutum.

Um byggðahverfin er ekki mikið að segja. Þetta er ósköp einfalt, að þrjú býli megi reisa byggðahverfi. Annars er það svolítið spaugilegt að kalla þrjú býli sérstakt byggðahverfi. Sömuleiðis er, að það megi vera félagsbú á tveimur búum. En annars er það svolítið broslegt, að þeir eigi að þinglýsa samningi. Það er nú svo. Ég er nú ekki viss um, að það verði betra samkomulag, þó að menn þinglýsi einhverjum samningi en ef menn gera einhvern samning af frjálsum vilja og reyna að standa við hann.

Í 39. gr. er talað um þessi nýbýli utan byggðahverfa. Og þá er m.a. talað um það hér, að ræktanlegt land sé eigi minna en 100 hektarar. Þó er landnámsstjóra heimilt að víkja frá þessari landstærð, ef í staðinn koma t.d. beitilönd eða hlunnindi til lands eða sjávar. Stofnun býlisins skal og því aðeins heimiluð, að þar með sé ekki raskað búrekstraraðstöðu nálægra jarða. Satt að segja finnst mér þetta hafi ekki neinn sérstakan tilgang með 100 hektara. Ég hef verið að athuga þessar jarðir, sem ég þekki, og það eru tiltölulega örfáar jarðir, sem hafa 100 hektara af ræktanlegu landi, og það er hægt að stofna ágætt býli án þess að hafa slíka túnstærð m.a.s. með nútímatækni. Ég hef t.d. verið að athuga þetta í mínu kjördæmi. Það eru á mjög fáum stöðum 100 hektarar af ræktanlegu landi. Það eru Hólar í Hjaltadal og örfáar jarðir hjá okkur í Húnavatnssýslunni, en þetta er alveg undantekning. Og stærstu túnin í Húnavatnssýslu eru líklega um 50 hektarar. Ef á að stofna nýbýli, eiga að vera 100 hektarar af ræktanlegu landi. Ég veit ekki, úr hvaða jörðum á að skipta þessum 100 hekturum. Og ef meiningin er að veita undanþágu á því, þá held ég, að það sé alveg ástæðulaust að vera að nefna svona háa tölu, það sé alveg nóg að hafa það 50 hektara eða jafnvel 30 hektara. Sannleikurinn er sá, að það er ekki alveg sama, hvernig landið er. Ef þetta er land, sem er gott til ræktunar og liggur lágt, þá er miklu tryggari grasvöxtur og þá þarf alls ekki að vera svona stórt land. Hins vegar getur það verið, að það þurfi nokkuð stórt tún, þegar landið liggur hátt, og það hefur borið á því núna síðustu sumrin, að klaki hefur alls ekki farið úr túni, sem liggur hátt, þannig að það er alls ekki sambærilegt. Nú, þarna á nú að vera undanþága, en það er svolítið broslegt ákvæði að gera kröfur til 100 hektara eða rúmlega 330 dagsláttna af ræktanlegu landi. Það væri þá alveg eins gott að segja, að nýbýli eigi alls ekki að reisa.

Þegar við komum að ábúð, sameiningu jarða, endurbyggingu eyðijarða og ráðstöfunum til að koma í veg fyrir, að góðar bújarðir fari í eyði, þá fer nú að lifna yfir því. Landnámsstjóri lætur árlega gera jarðaskrá yfir allt landið. Það er ekki lítið verk að gera þessar jarðaskrár árlega og fylgjast þannig með ábúð allra lögbýlisjarða. Það er ekki lítið verk að fylgjast með ábúð allra lögbýlisjarða á landinu. Eigendum eða ábúendum jarða, sbr. skilgreiningu ábúðarlaga nr. 36 1961, 1., 2. og 3. gr., ber að láta í té upplýsingar, ef landnámsstjórn óskar eftir, varðandi ábúendur og jörðina sjálfa, svo að unnt sé að gera þær athuganir, sem þurfa þykir, áður en jörð er seld eða breytingar verða á ábúð. Landnámsstjórn setji reglur um öflun gagna, og er ráðunautum og oddvitum og öðrum, sem til er leitað, skylt að gefa upplýsingar. Þetta er ekkert smáræðisverk, sem landnámsstjórn á að vinna. Hún á bara að fylgjast með breytingum á ábúð allra jarða á landinu. Hingað til hef ég ekki getað fengið upplýst, hvað margar jarðir eru raunverulega í byggð á landinu, en þarna á að vaka yfir þessu og það árlega, og áður en jörð er seld eða breytingar verða á ábúð. Það þarf að láta í té upplýsingar, ef landnámsstjórn óskar eftir, varðandi ábúendur og jörðina sjálfa, svo að unnt sé að gera þær athuganir, sem þurfa þykir, áður en jörð er seld eða breyting verður á ábúð. M.ö.o. mér virðist samkv. þessu, að við megum engar breytingar gera á ábúð eða selja jarðir án þess að efa landnámsstjórn ítarlega skýrslu um þetta. Ég efast um, að þetta samræmist stjórnarskránni. Ég er t.d. alveg frjáls að selja mína jörð án þess að spyrja landnámsstjóra um það. En það á að gefa árlega skýrslu og fylgjast með öllu. Það má mikið vera, ef landnámsstjórnin getur fylgzt með þessu, allir hlaupa til og gefa henni skýrslu, ef einhverjar breytingar eiga að verða.

Svo er 2. mgr. 44. gr.: „Sveitarstjórnum ber að fullvissa sig um, áður en tekin er afstaða til forkaupsréttar, hvort landnámsstjórn hefur fjallað um málið.“ Sveitarstjórnirnar mega ekkert gera, nema spyrja landnámsstjórn fyrst, hvort hún sé búin að spjalla um þetta. Hún má vera við, þessi landnámsstjórn. Hún má ekki víkja sér mikið frá. Umsóknir um endurbyggingu eyðijarðar sendist til landnámsstjórnar, svo bezt að eigi að leita til hennar um einhverja fyrirgreiðslu, finnst mér.

45. gr.: „Nú losnar jörð úr ábúð, og skal þá landnámsstjórn í samráði við ráðunauta Búnaðarfélags Íslands og viðkomandi sveitarstjórn meta, hvort hún hafi þau búrekstrarskilyrði, að æskilegt sé, að hún byggist að nýju ...“ Ég skil það svo, ef jörð losnar úr ábúð, að það sé, að maður hætti að búa. Og mér virðist þá, að bæði megi leigja og selja jörðina, hvort hann vill heldur án þess endilega að fara að leita til ráðunauta Búnaðarfélags Íslands og viðkomandi sveitarstjórna til þess að meta það, hvort hún hafi búrekstrarskilyrði. Ég hef ekki trú á því, að þessir menn hafi betra vit á því en bóndinn, sem bjó á jörðinni. Ég hef ekki trú á því, satt að segja. En það er ekki mikið, sem þessir aumingja bændur mega gera, eftir að þessi l. eru komin, án þess að spyrja landnámsstjórn um það. Ég sé ekki, að það megi byggja kamar heima hjá sér fyrir byggingafulltrúum og ráðunautum.

Svo kemur um félagsbú og félagsræktun, þ.e. ef tveimur mönnum sýnist að fara að búa saman. Annars hafa oft tveir menn búið saman á Íslandi og ekki þurft að þinglýsa neinum samningi og komið vel saman. Sérstaklega er það í Þingeyjarsýslunum, að menn kannast við það. En nú eiga þeir að þinglýsa samningi. Aðilar skulu gera með sér samning og láta þinglýsa, eftir að hann hefur verið viðurkenndur af Landnámi ríkisins. Það má ekki gera samninginn, nema Landnámið viðurkenni hann. Þeir mega sem sé ekki gera neinn samning, nema hann sé samþykktur af Landnámi ríkisins. Þeir eru ómyndugir að því. Ja, það er ekki lítið, sem þessi landnámsstjórn á að hugsa um.

Og svo komum við að endurræktun og ræktun einærra fóðurjurta. Það er ekkert óskemmtilegt að lesa það: „Landnám ríkisins veitir framlög til endurræktunar á eldri túnum eða nýræktun, þar sem nytjagrös hafa eyðzt af völdum kals eða af öðrum orsökum og annaðhvort enginn eða nytjalítill gróður komið í staðinn.“ — Ég held þeir hafi nú strikað þetta út, þessi n., „enginn eða nytjalítill“. — „Bændur skulu jafnan hafa samráð við héraðsráðunauta eða Landnám ríkisins, ef vafi getur leikið á um endurræktun. Sérstaklega ber að athuga, hvort framræsla er ófullnægjandi, enda fari þá fram endurræsla landsins, áður en endurvinnsla er gerð.“ Jú, þeir skulu hafa samráð hér við héraðsráðunaut og Landnám ríkisins, þ.e. báða. Það er ekki nóg að tala við þessa héraðsráðunauta, heldur verður maður að snúa sér líka til Landnámsins og spyrja um, hvað eigi að gera við kalblettinn. Annars hafa þeir mörg afrek unnið, þessir ráðunautar okkar í ræktunarmálunum. Þeir hafa oft lagt skurðina öfugt við það, sem þeir áttu að liggja, þannig að vatnið hefur setið eftir í mýrunum. Ég hef t.d. aldrei látið ráðunauta ráða nokkrum skurðspotta hjá mér, enda hef ég aldrei þurft að breyta framræslunni. Ég hygg, að hv. 4. þm. Norðurl. v., Pálmi Jónsson, gæti séð það á Búrfellskeldunni a.m.k., að skurðir séu svolítið öfugt lagðir og kannske viðar í Húnavatnssýslu. Ráðunautarnir hafa ráðið því. En nú má bóndinn bara ekkert gera, aumingja bóndinn, án þess að tala við bæði Landnám ríkisins og ráðunautana um hvað eigi nú að gera við kalblettinn. Annars er það með þessa endurvinnslu og endurræktun, sem menn eru að tala um. Það hefur komið oft til umræðu hér, en ég tala sjaldan og hef ekki verið að halda ræðu um það, að það þyrfti að endurrækta kalið í túnunum. En þetta er alveg þveröfugt. Þetta er það vitlausasta, sem við gerum, að vera að ýfa kalblettinn upp. Við eigum að láta þá gróa sjálfa, og þetta vita allir reyndir bændur. Nema þurfi að ræsa túnið að nýju, þá verður að bylta því aftur. Ég hef oft talað um þetta við bændur og reynsla þeirra er, að þegar farið er að rífa upp túnin, þá kemur arfinn og þeim gengur hálfu verr að losna við hann. Ef landið er bara nógu þurrt, þá grær það upp og þá kemur sterkasti gróðurinn upp aftur á einu eða tveimur árum. En þarna má ekkert gera, nema Landnám ríkisins komi til, og tiltaki, hvað sé nú gerlegt í þessu flókna máli.

55. gr.: „Heimilt er að veita framlög til sveitabýla til að hagnýta“ — hér kemur góð grein — „jarðvarma til heyþurrkunar, hvort sem er úr eigin orkulindum eða samveitum. Landnámsstjórn ákveður í hverju tilviki upphæð framlaga innan þeirra marka, sem l. heimila.“

Þarna er Benedikt á Hofteigi kominn. Fyrst á að byggja hús, svo á að leggja pípur í húsin, svo eiga bændur að aka heytuggunni og leggja á þessar pípur og þurrka þetta með heitu vatni. Þeir heyja mikið þann daginn. Annars er það nú þannig með okkur bændurna, að tækninni hefur fleygt fram.

Við sláum með þyrlum og brunum með miklum hraða um túnin, og svo höfum við rakstrarvélar, sem hreinraka. Bændur eru að verða hálfgerðir „lordar“, þannig að við getum tekið saman 300–400 hesta á dag, en við höfum bara alls ekki mannafla til þess, hvorki peninga til að búa út þetta hitakerfi Benedikts né mannafla til þess að pota votu tuggunum inn og svo aftur út, þegar þær eru orðnar þurrar. Við þurfum að þurrka miklu meira en hægt er að þurrka svona. Og þessa endileysu fóru þeir að taka upp í frv. eins og kvígurnar og gimbrarnar. Það eru tveir aðdáanlegir kaflar þarna.

„Landnámsstjórn skal í samráði við Búnaðarfélag Íslands ...“ — þeir eiga nú að ráðfæra sig hver við annan. Ég held, að það væri betra að hafa bara annan aðilann. — „ ... láta gera áætlun, eins fljótt og við verður komið, um hversu margar grænfóðurverksmiðjur sé eðlilegt að stofna í landinu, og gera tillögur um staðarval.

Áætlun þessi skal lögð fyrir landbúnaðarráðherra, sem tekur endanlega ákvörðun“ — hann hefur líklega bezt vit á því — „um stofnun og staðarval, svo og um skipun stjórnar. Hver verksmiðja skal hafa þriggja manna stjórn.“ — Það verður nokkuð dýr stjórn á hvaða verksmiðjukríli, sem er. — „Tveir skulu vera úr heimabyggð, en landnámsstjóri eða fulltrúi hans þriðji maður og sé hann formaður.“

Það er nú komin dálítil reynsla á þessa kögglaverksmiðju. Menn hafa ekkert nema gott um það að segja. Gallinn er bara þetta, að þeir kostuðu 9.23 kr. hvert kg s.l. sumar, og það er svipað og maísinn. Gallinn er sá, að þetta er þriðjungi næringarminna eða jafnvel helmingi. Það er búið að rannsaka þetta. Fyrir utan það, að náttúrlega er ódýrast af öllu að gefa síldarmjöl. Það þarf ekki nema 50 g á dag á kind og láta hana svo út á gott haglendi, þá helzt hún við. Sannleikurinn er sá, að ég hef verið að athuga áburðarþörfina á dagsláttu. Þið eruð ekki meiri búmenn en ég, og það kostar um þúsund krónur, ef vel er borið á. Ég reikna tíu hesta af dagsláttunni, og þá eru það 100 kr. áburðurinn á hest, og það má heyja vel fyrir 100 kr., því að tæki þarf að hafa, hvort sem við sláum mikið eða lítið, þannig að heyhesturinn þarf ekki að kosta nema um 200 kr., ef allt er í góðu lagi. En með því að kaupa þessa köggla þá kostar það svona 600– 700 kr. Sannleikurinn er sá, að þetta kögglabrölt allt saman er fjárhagsleg vitleysa. Við eigum að þurrka heyið með súgþurrkun. Ég vil ekki segja, að það geti ekki átt rétt á sér í svona 2–3 verksmiðjum, en þær hafa bara ekki borið sig; það þarf að styrkja þær. Svo er önnur gr. hérna einhvers staðar, þar sem þær eiga að bera sig. Ég veit ekki, hvernig þeir ætla að láta þær fara að því. Þær hafa ekki gert það, og þeir, sem kaupa þessa köggla á 8 kr. hvert kg, þeir eru seldir á það núna plús flutningur, og það verða 10–11 kr. hvert kg. Það er algjör vitfirring að búa við slíkt. Það kostar lambsverð að kaupa köggla ofan í rolluna í staðinn fyrir, að maður má ekki eyða í fóður, ef maður ætlar að hafa sæmilega afkomu og græða svolítið, þó að ekki sé nema 400 kr. fyrir kindina. Þetta er algjör vitleysa. Það er ekki hægt að búa við það. Það getur borgað sig að kaupa köggla eitt og eitt ár til að þurfa ekki að skerða bústofninn, en að ætla sér að fara að reka búskap eingöngu með heykögglum það nær engri átt.

Hitt er annað mál, að það er mikið vit fyrir bændur að hafa félagsræktun, og þeir hafa haft hana, áður en þessi l. komu, og allt verið í lagi með það og ræktað grasið, þar sem hagkvæmast er að rækta það, og flutt það þangað, sem beitin er meiri, en erfiðara að rækta. Það er viturlegt og gott, en að fara að ætla sér að fóðra búpeninginn aðallega á kögglum; það er ekki nema vitleysa. Alveg eins og maður ætlaði að fara að fóðra að mestu á fóðurbæti. Ekkert er upp úr því að hafa. Við þurfum að afla heyja með hagkvæmasta móti; það er hagkvæmast fyrir þjóðarbúið. Og sannleikurinn er sá, að með súgþurrkuninni er undantekningarlítið hægt að bjarga heyjunum, án þess að þau stórhrekist. Það, sem erfiðast er í votviðrasumrum, er að komast um túnin. Þó að við ætlum að hafa varmahita með einhverjum pípum einhvers staðar, þá þurfa menn að komast um túnið og eins, þó að kögglaverksmiðja sé. Á votlendum túnum þá er þetta erfiðasti hluturinn.

Landnám ríkisins ætlar að taka að sér að byggja gróðurhús á garðyrkjubýlum og styrkja það allt að 120 kr. á fm. Og það er ekkert nema gott um það að segja, ef mönnum sýnist svo. Annars hélt ég, að þessi gróðurhús hefðu nokkurn veginn borið sig og hefði jafnvel verið helzt gróði af þeim og þau þyrftu nú ekki beint á styrk að halda. En ég hef ekki vit á því, að ég skuli dæma það. Ég er ekki inni í þeim hlutum, en mér hefur heyrzt, að þessir menn, sem reka gróðurhúsin, ef það eru dugnaðarmenn, láti allvel af efnahag sínum, og ég veit ekki, hvort það er nokkur sérstök ástæða til að fara að styrkja þá.

Viðvíkjandi 3 þús. kr. styrk á grænfóðri þá er ekkert nema gott um það að segja, en annars er bezt að vera ekki að blekkja menn allt of mikið, svo að þeir fari ekki að rækta eingöngu til að fá þennan styrk. Sannleikurinn er sá, að grænfóður hjá okkur s.l. sumar á Norðurlandi, a.m.k. þar sem ég þekki til, spratt illa. Það er með grænfóður eins og með annað gras, ef sumarið er kalt, sprettur það ekki nægilega, en það er sjálfsagt fyrir menn að hafa eitthvert grænfóður. Það eru vandkvæði á því norðanlandi, ef snjór kemur á haustin, en dálítil grænfóðurrækt fyrir bændur, sem hafa kýr, það getur verið vit í því. Það má vera, að það sé skynsamlegt að styrkja það í hófi, og það þarf að hafa magnið í hófi.

Svo kemur nú að byggingunum; það er mjög merkilegur kafli. „Landbrh. skipar ráðgjafanefnd Byggingastofnunar landbúnaðarins. Nefndin skal vera stofnuninni til ráðuneytis um val verkefna.“ Þarna á fyrst að vera byggingaráðsstofnun og svo önnur ráðgjafanefnd. „Í nefndinni skulu vera: Forstöðumaður Byggingastofnunar landbúnaðarins, sem er formaður, dýralæknir, nautgriparæktarráðunautur, sauðfjárræktarráðunautur og maður með bútæknimenntun.“

Þarna erum við komnir að byggingunum. Það er merkilegur hlutur með byggingarnar. Við höfum haft ótal ráðunauta, og sannleikurinn er sá, að í fjárhúsbyggingum hafa okkur orðið á mistök. Ég hygg, að það séu hvergi í heiminum byggð dýrari fjárhús en á Íslandi. Þessi nýju hús eru með stórum kjallara, og svo eru grindur yfir þessum kjöllurum. Ef á að vera hægt að aka áburðinum út, þarf að steypa allt gólfið, og svo þarf að steypa stórt plan fyrir utan til þess, að traktorinn sökkvi ekki, þegar hann kemur út úr húsinu. Svo er dýrt og vandað hús yfir þessu öllu saman. Yfirleitt byggja menn hvergi í heiminum svona yfir rollurnar. Nú er það þannig, að bændurnir vita sínu viti, og við áttum bónda norður í Húnavatnssýslu, sem fann upp á því að byggja allt öðruvísi og byggði eitt hús og hafði heyið í miðjunni og rollurnar allt í kring. Nú eru þeir teknir upp á þessu hinir, en þetta lærðum við bara ekki af neinni byggingarnefnd hér fyrir sunnan, hvorki af Landnámi ríkisins né öðrum, og þetta eru hús, sem bera af bæði í því, að þau eru helmingi ódýrari, og auk þess er helmingi minni vinna að hirða skepnur í þeim. En þessir arkitektar og lærðu menn byggðu þessi dýru hús, sem eru bæði vinnufrekari og helmingi dýrari. Auk þess er sá galli á grindunum, að þegar lömbin fæðast reka þau lappirnar niður milli rimlanna og fótbrjóta sig, og svo er traðkað á þeim og þau drepast. Menn þurfa að vaka yfir þessu til þess að missa ekki lömbin, og vitur maður eins og Jakob á Varmalæk sagði mér — hann hefur ekki þennan djúpa kjallara — að hann reyndi að láta skítinn vera kominn upp fyrir gríndurnar, þannig að lömbin festust eigi. Þannig eru bændur búnir að eyða stórfé í þessar byggingar. Í staðinn fyrir að byggja ódýr og hentug hús, sem lítil vinna og fé fer í.

Ég ætla ekki að fara ítarlega út í þetta, en annars er hægt að halda ljómandi skemmtilega ræðu um öll þessi byggingamál, og ég geri það kannske einhvern tíma seinna, ég veit það ekki — um allt víðs nið, alla ráðunautana og allar stofnanirnar. Ég byggði og spurði engan um það í sumar, og ég komst í mestu vandræði með að fá lánið. Mér var raunar alveg sama, hvort ég fékk það eða ekki. (Gripið fram í: Tókst það að fá lánið?) Já, á endanum. Þeir skrifuðu mér aths. við bygginguna, svo fór ég að ræða um þetta við þá, og þeir féllust þá á, að þetta væri eiginlega allt vitleysa, sem þeir hefðu sagt, nema þetta með bitana, þeir væru ekki nógu sterkir. Og ég sagði þeim að koma að læra af mér, hvernig ætti að byggja. Þetta eru allt góðir drengir, sem eru í þessum stofnunum, og gott að eiga við þá. En það er ekki víst, að svo verði alltaf. Þess vegna vil ég ekki hafa nein ákvæði í þessum l., svo að hægt sé að beita við okkur kúgun og rangindum.

En sannleikurinn er, að þetta frv. er meinleysisbull og hálfgert til skammar að samþykkja það. Ég held, að það ætti að samræma þetta betur, Búnaðarfélagið og Landnámið. Ef þeir vilja hala eitthvert landnám, þá næmi landnámsstjóri fyrst land á ríkisjörðunum, sem eru komnar í eyði, höfuðbólum eins og Hofi í Vopnafirði og fleiri ágætum jörðum, sem ríkið er búið að koma í eyði. Þar eru nóg verkefni. En allan þennan lagabálk með varmaveitum og allri þessari vitleysu, sem í honum er, þarf að laga. Sannleikurinn er sá, að það er miklu meira vit í súgþurrkun en þessari varmaþurrkun. Það er allt annað, og menn gætu farið norður á Strandir og lært þar af bændunum. Þeir kunna að verka vothey, og þeir kunna að fóðra á votheyi, og það er hlutur, sem getur borgað sig og er nauðsynlegur víða. En það er mikið af svona meinlausum vitleysum í þessu frv. Ég er ekki að segja, að þær séu stórskaðlegar, það er hægt að hafa gaman af þeim.