25.03.1971
Neðri deild: 69. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1882 í B-deild Alþingistíðinda. (2067)

222. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Jónas Pétursson:

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að tala langt mál við þessa umr., því að ég sagði hér nokkur orð við 1. umr. og lét þá í ljósi það helzta, sem ég vildi koma að um þetta mál, þ.e. að mér þætti að sumu leyti helzt til mikill stjórnunarblær á þessu máli, og nokkur atriði nefndi ég sérstaklega því til sönnunar. En það vildi nú svo til, að hv. 3. þm. Norðurl. v. kom hér í ræðustól í gærkvöldi, og ég kemst tæpast hjá því . . . Jú, Björn Pálsson, 3. þm. Norðurl. v., þetta hefur allt saman breytzt, það stendur hér 3. þm., ég man, að ég mistók mig einhvern tíma á því nr. Jæja, en allir kannast nú við Björn Pálsson, og hann flutti hér langa ræðu og gagnrýndi margt, sem í frv. var.

Ég skal játa það, að að sumu leyti var ég talsvert sammála grunntóninum í hans ræðu, en það eru örfá atriði, sem ég vildi sérstaklega gera að umtalsefni. Hann var að reyna að gera mjög hlægilega eina gr. frv., sem fjallaði um bústofnslán, taldi þessa hugmynd vera ættaða að austan, og það mun vera rétt hjá honum. En það er meginkjarni þeirra ákvæða, að þar er um að ræða lán, sem eru verðtryggð í sjálfu sér. Ég hef oft heyrt þennan sama hv. þm. halda hér langar ræður út af verðbólguvanda, en mér þykir hann ekki jafnskýr og hann er oft, ef hann sér ekki, að einmitt í þessu ákvæði er gengið á snið við þennan verðbólguvanda. Það er einmitt einn af höfuðkostum þessa fyrirkomulags, að það er séð fyrir því, að verðbólguvandi kemur þarna ekki til greina. Honum fannst vextirnir vera lágir. Það er reiknað með 31/3%. Hann er nú einn af þeim mönnum, sem hvað harðast hefur deilt hér á háa vexti, og það er þó rétt - og ég hélt, að einmitt hann áttaði sig á því — að sú vaxtatala, sem nú er almennt reiknað með í þjóðfélaginu, er ekki nema að sumu leyti vextir. Hún er að öðru leyti hugsuð sem verðtrygging. Þarna þurfti það ekki að koma til

vegna þess, að höfuðstóllinn er verðtryggður vegna þessa fyrirkomulags, sem er á þessum lánum.

Þá kom hann hér nokkuð inn á heykögglaframleiðslu og framleiðslukostnað heys og komst að þeirri niðurstöðu, að hann mundi ekki vera nema 2 kr. á kg eða 200 kr. á heyhest, en hins vegar hefði framleiðslukostnaðurinn reynzt vera milli 8–9 kr. á kg af heykögglum. Ég held, að þetta hafi verið ákaflega snöggsoðinn reikningur, framleiðslukostnaðurinn á heyinu, þegar hann komst að þeirri niðurstöðu, að hann mundi ekki vera nema 2 kr. á kg. Og m.a. tók hann aðeins inn í þann reikning heyskaparkostnaðinn og áburðarkostnaðinn. En mér finnst, að flestum mundi nú finnast ónóg til lengdar, ef þeir fengju ekki annan kostnað uppborinn í heyöfluninni fyrir utan það, sem er svo þar að auki, að vitanlega voru þær upphæðir, sem hann nefndi, um þessa tvo liði mjög fjarstæðar. Það gæti staðizt við einstök og sérstaklega hagstæð skilyrði. En hitt vildi ég taka undir með honum, þegar hann fór að tala um kalið og endurræktunina. Hann sagði, að það vitlausasta, sem gert væri, væri að vera að rífa upp þessar kalskemmdir. Að vissu leyti er ég honum alveg sammála um þetta, að yfirleitt er hyggilegast með það land, sem hefur kalið, að brjóta það ekki að nýju, en láta það gróa upp, eins og hann sagði; það verður sterkasti gróðurinn, sem kemur. Hins vegar er það víst, að stundum verður ekki hjá þessu komizt, vegna þess að kalið veldur oft mjög mikilli ósléttun, þannig að landið þýfist mjög mikið við það að kala, og af þeim sökum verður óhjákvæmilegt að brjóta það.

Það var margt fleira, sem fram kom í ræðu hans, sem ég ætla ekki að dvelja frekar við. En ég gat þess, að ég hefði haft hér að vissu leyti nokkuð að athuga við 1. umr. málsins og sérstaklega það, að ég taldi vera ofstjórnarblæ á þessu frv. í heild. Ég kom á framfæri allmörgum brtt. í landbn., sem þetta frv. lá fyrir. Sumar af þeim brtt. voru teknar til greina, en aðrar ekki, og ég hef nú kosið samt sem áður að hreyfa ekki neinum frekari brtt. en samstaða náðist um í hv. n., af því að ég legg mikið upp úr því þrátt fyrir að frv. er ekki að öllu leyti eins og ég hefði óskað — og tel það mjög mikilvægt, að það komist í gegn og verði lögfest á þessu þingi. En kaflanum um félagsbúskap og félagsræktun, tel ég, að hafi verið breytt til verulegra bóta, sérstaklega vegna þess að þar er annar blær; það er ekki sami stjórnunarblærinn á þeim kafla núna og var.

Hins vegar var annar kafli, sem ég gerði hér að umtalsefni, um grænfóðurverksmiðjurnar, sem ég vildi fá í nokkuð annað horf, en ekki varð samkomulag um í n., og það, sem ég hefði kosið, var einmitt í þá átt, að það væri aðalstefna þessara l., að þessar heykögglaverksmiðjur yrðu stofnaðar af félagssamtökum bænda eða einstaklingum, færri eða fleiri saman. Það er að vísu rétt, að þetta er ekki útilokað. Það er gert ráð fyrir þessu einnig í frv., en mér hefði þótt fara betur á því, að það hefði verið undirstrikað í l., að það væri aðalstefna þeirra. Og ég get sagt það í stuttu máli, að ég er algerlega á móti því, að opinberar stofnanir fari að heyja fyrir bændur. Það má segja, að það sé ekki beinlínis það, sem hér er um að ræða, og þó er það að vissu leyti það.

Ég hef nú oft komið að því og m.a., er þetta frv. var til 1. umr., að ég hafi litið svo á, að bændastéttin hafi verið sjálfstæðasta stétt þjóðfélagsins og ekki sízt í hugsun. Ég hef einnig sagt það hér úr þessum ræðustóli, að ég teldi mig fyrst og fremst vörð strjálbýlisins. Það er frelsisandi, sjálfstraust, kjarkur og manndómur, sem hefur verið aðalsmerki bændastéttarinnar, og það er undirstaða strjálbýlisins.

Ég heyrði þjóðsögur, sérstaklega þegar ég var yngri, og hafði af þeim mikla ánægju oft og tíðum. Ein þjóðsaga, minnir mig, að bæri yfirskriftina: „Hvíldu þig, hvíld er góð.“ Ég ætla ekki að fara að rekja hér þá sögu, en ég er oft að hugsa um það, að mér finnst þetta vera orðin býsna hávær rödd nútímans — þetta, sem ég vildi kalla feigðarboða strjálbýlisins, ef mikið er hlustað á þessa rödd. En nú heyrist hún úr öllum áttum, úr fjölmiðlum, ja, við skulum segja hér — úr steinköstulum Reykjavíkur. En þá fyrst finnst mér vera vá í lofti, ef hún fer að hvísla upp úr hverjum runna, upp úr gróinni jörð og túnum bændanna.

Ég vildi segja þessi varnaðarorð í sambandi við þetta mál, þó að mönnum finnist kannske þetta vera eins og utan dagskrár. En það er einhvern veginn svona, að á bak við hvert einasta mál er eins og nokkur grunnur, og við þurfum að gefa mjög gætur að því, í hvaða átt er stefnt. Það er þannig ástatt núna, að ég var um s.l. áramót valinn í stjórn þessarar stofnunar og skipaður stjórnarformaður Landnáms ríkisins, og ég vil því segja það hér, að að svo miklu leyti, sem hægt er að hafa áhrif á framkvæmd l., sérstaklega að því er þetta atriði um grænfóðurverksmiðjurnar snertir, þá mun ég beita mér fyrir því af alefli, að þær verði fyrst og fremst fyrirtæki bænda og það verði ekki stofnað til þeirra af Landnámsins hálfu, nema ekki verði annar möguleiki. Það er nauðsyn á því, að þessar framleiðslustöðvar komi upp og það viða í landinu, enda er gert ráð fyrir, að það sé gerð sérstök athugun nú þegar með það, hvað hæfilegt sé, að þær verði margar. En það verði sem sé fyrst og fremst leitazt við, að þær verði fyrirtæki bænda sjálfra. Þetta vildi ég í sem stytztu máli segja við þessa umr. málsins.

Eins og ég sagði áðan, þá hefði ég kosið að koma að fleiri breytingum og lagfæringum, sérstaklega að því er varðar blæ málsins, en af því að ég legg á það mikla áherzlu eins og aðrir nm. og — ég vona — alþm. yfirleitt, að þetta mál verði lögfest, þá mun ég fylgja því, eins og það liggur nú fyrir.