25.03.1971
Neðri deild: 69. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1895 í B-deild Alþingistíðinda. (2070)

222. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið frá því, sem orðið er. Ég hafði kvatt mér hljóðs hér við umr. í gær. Hv. frsm. n., hv. 5. þm. Austf., hefur nú svarað svo rækilega þeim efnisatriðum, sem helzt komu fram í umr. bæði í gær og í dag, að því er snertir gagnrýni á þetta frv., að þess gerist naumast þörf að bæta þar við.

Ég vil þó, úr því að ég er hingað kominn, lýsa yfir því þegar, að þær brtt., sem n. hefur flutt, eru fluttar af henni einróma, og vegna þess að ég var 1. flm. þessa frv., þá taldi ég rétt, að það kæmi einnig skýrt fram frá mér. Tvær eða þrjár af þessum brtt. eru til samræmis við það, sem fram kom í ályktun Búnaðarþings og hefur þegar verið lýst. Ég tel ástæðu til þess að árétta það enn frekar vegna þess, er fram kemur í grg. Búnaðarþings, að þær breytingar, sem n. leggur til, að gerðar verði á kaflanum um grænfóðurverksmiðjur, eru fram komnar til þess að taka af tvímæli um, að þær verksmiðjur, sem þegar hafa verið stofnaðar — ekki einungis þær, sem eru í opinberri eigu, heldur einnig í einkaeign — geti fallið undir þessi l. með tilliti til þess, að verði þessar verksmiðjur endurbyggðar eða þeirra starfsemi aukin, þá geti það einnig orðið til þess, að þær hljóti aðstoð í samræmi við þetta frv., ef að l. verður.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. flutti hér mikla ræðu. Ég skal ekki fara langt út í hans mál. Hann hélt þeim hætti sínum að fara nokkuð út fyrir það efni, sem hér er á dagskrá, og ræddi m.a. um framkvæmdaáætlun ríkisins, sem var til 1. umr. hér í þessari hv. d. í dag. Hann hefði átt að taka eftir því, að hæstv. fjmrh., sem mælti fyrir því máli, gat þess, að málefni Stofnlánadeildar landbúnaðarins og veðdeildar Búnaðarbanka Íslands væru til frekari athugunar hjá hæstv. ríkisstj. Um ýmsa útreikninga, sem hann var hér með, skal ég ekki ræða. Hann gat þess enda í upphafi sjálfur, að ýmsum kynni að finnast þeir athugaverðir.

Eins og ég sagði áðan, skal ég ekki fara langt út í efnisatriði frv., en ástæða er þó til þess, að ég árétti það einnig, að valdsvið Landnáms ríkisins og valdsvið landnámsstjóra, sem komið hefur fram, að mönnum vaxi í augum, að sé aukið eftir þessu frv., er aukið mjög óverulega. Það er nýmæli í frv., að Landnámi ríkisins er falin forusta um tillögugerð í ákveðnum þáttum, sem snerta það að koma við meiri hagkvæmni í uppbyggingu byggðar en verið hefur til þessa. En það er ekki nýmæli, að Landnám ríkisins hali haft áhrif á þróun byggðar. Það hefur haft það frá upphafi með því að skipta jörðum, stofna nýbýli og með því að reisa byggðahverfi. Nú er hins vegar breytt um stefnu og Landnámi ríkisins falin viss forusta í tillögugerð um aðra skipan á þessum málum. Það er heldur engin nýlunda, svo sem komið hefur hér fram í ræðum manna, að Landnámi ríkisins sé falið að láta gera sérstaka jarðaskrá fyrir allt landið. Landnám ríkisins hefur gert slíka jarðaskrá í fjölda ára, og sú jarðaskrá er raunar sú eina, sem verið hefur fullnægjandi til þessa. Sú skrá, sem verið hefur hjá Búnaðarfélagi Íslands, var gerð eftir úttekt jarðabótaframlaga, en þegar til þess kom að mæla ræktunarlönd hjá einstökum bændum, þá var skráin hjá Búnaðarfélagi Íslands leiðrétt í samræmi við það. Þeir aðilar hér á landi, sem hafa unnið að kortlagningu túna, eru héraðsráðunautarnir, þ.e. búnaðarsamböndin og Landnám ríkisins í samvinnu. Landnám ríkisins hefur kostað þetta verk að hálfu á móti búnaðarsamböndunum. Það er því engin nýlunda, að Landnám ríkisins vinni að þessum málum. Allt tal hv. 3. þm. Norðurl. v. í þessu sambandi og í sambandi við ýmislegt annað, t.d. afskipti Landnáms ríkisins af ábúð, sölu og leigu lögbýlisjarða, er að mestu leyti út í hött, vegna þess að þessi ákvæði hafa verið í l. að undanförnu, og það er nauðsynlegt, að Landnámi ríkisins berist upplýsingar um þessi efni til þess að geta haldið sinni jarðaskrá í góðu lagi.

Ég vil aðeins taka fram í sambandi við það mark, sem sett er vegna stofnunar nýbýla, að gert er ráð fyrir að jafnaði, að krafizt sé 100 hektara ræktunarhæfs lands eða þá að í staðinn komi t.d. beitilönd eða hlunnindi til lands og sjávar. Bæði hv. 3. þm. Norðurl. v. og hv. 5. þm. Norðurl. e., sem hefur flutt um þetta efni brtt., hafa talið þetta mark allt of hátt. Hv. 3. þm. Norðurl. v. sagði hér í gær, að það væru mjög fáar jarðir eftir því, sem hann þekkti til, sem hefðu svo mikið ræktunarhæft land. Ég hygg, að nær sanni sé að segja, að í sumum sveitum í okkar héraði séu margar jarðir, sem hafi nær 300 hektara af ræktunarhæfu landi en 100 hektara. Þegar talað er um það mark, sem sett er í þessu tilliti, þá megum við ekki miða um of við túnstærð í dag. Hv. 5. þm. Norðurl. e. segir, að beztu búin séu rekin á þeim jörðum, sem hafi kannske þriðjung af þessu ræktunarlandi eða helming. Þetta má vel vera rétt; ég skal ekki draga það í efa. En við megum ekki horfa einungis til dagsins í dag. Við verðum að horfa einnig til framtíðarinnar, og ef allt land nýbýlis er ræktanlegt land, sem í mörgum tilfellum kann að vera, þá er að mínu viti sannarlega ekki of frekt í sakir farið með því að hafa þetta hámark í 100 hekturum.

Ég lít svo á, að ég bæti ekki um ræðu hv. 5. þm. Austf., frsm. n., með því að tína upp fleiri efnisatriði, sem gagnrýnd hafa verið í þessu frv. Hann gerði það svo rækilega. En út af ræðu hv. 3. þm. Norðurl. v. í heild, sem minnzt var á hér áðan, vil ég segja í fyrsta lagi það, að þessi hv. þm. sagði, að það væri ekki fyrir sjálfstæðismenn að bera fram svona frv. Hann minntist ekkert á það, að það væri ekki allt í lagi fyrir framsóknarmenn að gera það. Nú er það svo, eins og hv. dm. er kunnugt, að framsóknarmenn hafa einnig unnið að gerð þessa frv., og hv. 5. þm. Austf. er meðal flm. þess. Einhvern veginn er það svo, að þessi hv. þm., 3. þm. Norðurl. v., virðist vera farinn að taka það eitthvað sérstaklega nærri sér, að sjálfstæðismenn flytji frv., sem hann kallar meinleysislegt bull og til hálfgildings skammar fyrir Alþ., að flutt sé. Honum finnst það miklu verra, að það skuli vera sjálfstæðismenn, sem flytja slík frv. en framsóknarmenn. Um það atriði, að frv. þetta sé meinleysislegt bull svo sem minnt var á hér af hv. frsm. n. áðan, þá er það að mínu viti rétt, sem hann sagði, að slíkar ræður sem sú, er hv. 3. þm. Norðurl. v. flutti hér í gær, falla réttilega undir þann dóm, en þó ekki nema að sumu leyti. Slíkar ræður kunna að virðast meinleysislegt bull í eyrum þeirra manna, sem kynnt hafa sér þetta frv. og vanir eru að heyra ræður þessa hv. þm. En þær geta verið skaðsamlegt bull vegna þeirra, sem ekki hafa kynnt sér það efni, sem þær fjalla um, og hafa oft og tíðum orðið til vansæmdar fyrir það fólk, sem valið hefur þennan hv. þm. til setu hér á Alþ.