25.03.1971
Neðri deild: 69. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1900 í B-deild Alþingistíðinda. (2072)

222. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Björn Pálsson:

Herra forseti. Það væri full ástæða til þess að halda skemmtilega ræðu og jafnvel langa, en vegna þess að það er orðið áliðið, þá verð ég að neita mér um þá ánægju. Jónas Pétursson gat þess, að hann væri mér sammála um það, að það ætti ekki að rífa upp kalin tún. Hann var víst eitthvað að deila á mig, en m.a. var mér sagt, að hann hefði byrjað á að tala um, að heyhesturinn kostaði meira en 200 kr. Ég reikna áburðinn og vinnuna, en vélarnar á bóndinn, hvort sem er, og jörðina á hann. Ég reiknaði aðeins vinnuna og áburðinn, þegar ég var að tala um 200 kr. Og sannleikurinn er sá, að ef vinnan og áburðurinn verður mikið meira en þetta, þá verður ágóðinn takmarkaður, af því að það þarf meira að borga, fólkið þarf að lifa og svo eru menn misduglegir, og Jónas veit, að ég hef heyjað allra manna mest og ef til vill hef ég miðað of mikið við sjálfan mig í þessu tilfelli. Þetta er misjafnt að sjálfsögðu.

Ég hef ekki komið með brtt. — það er rétt — við þetta frv., og það er af því, að ég er ekki stefnunni sammála, sem ríkir þar. Það ber lítið á milli hjá mér og hv. 3. þm. Vesturl. Ég álít það rétt, að þarna séu þrjár stofnanir. Það eru Búnaðarfélagið og Landnámið, og svo er þessi Jarðeignadeild ríkisins, sem hefur með þetta að gera. Þegar nýbýlalögin voru samþ., þá var stefnan sú að fjölga býlunum. Þá var tæknin miklu minni. Síðari árin, sem Pálmi Einarsson var við þetta, var mjög lítið gert af því að reisa ný býli. Starfið gekk aðallega út á það að tryggja það, að jarðir héldust í byggð. Ég er ekki að deila á að, því að ég tel, að það hafi verið rétt stefna. Ég álít, að þetta hafi verið rétt stefna, og þannig er viðhorfið nú. Menn reikna ekki með því, að jörðunum verði fjölgað, og fyrsta skrefið er að halda byggilegum jörðum í byggð. Ég álít, að Jarðeignadeildin gæti sameinazt nýbýladeildinni, ef vildi. Aftur ætti Búnaðarfélagið að hafa þessar skýrslugerðir. Þarna eru í raun og veru tvö kerfi, og það var það, sem ég var að skopast að. Annars virðist mér, að hv. 4. þm. Norðurl. v. og hv. 5. þm. Austf. hafi tekið þetta of nærri sér, því að þeir virtust vera eitthvað sárir. En það er nú svo með köttinn, að hann mjálmar, þegar stigið er á rófuna á honum, og þannig getur það verið með mennina, ef þá svíður undan einhverju. Ég tel mér það frekar til tekna, að þeir voru með persónulega áreitni. Annars er ég aldrei með það við menn, því að mér er vel við flesta og deili sjaldan á þá persónulega.

Það, sem ég var að tala um í sambandi við Sjálfstfl., þ.e. að ég væri dálítið hissa á þeim að leggja þetta frv. fram, er það, að þarna er stefnt að ríkisrekstri með þessar kögglaverksmiðjur. Þeir hafa alltaf verið að tala um framtak einstaklingsins og ágæti þess, sem ég hef verið þeim að miklu leyti sammála um. Ég vil nú, að þeir sýni þetta í verki. Það var einhvern tíma, að Lúðvík Jósefsson, þáv. 5. þm. Austf., var að tala um sjávarútvegsmál og vildi ekki svona mikinn sósíalisma eins og verið væri að innleiða í vissum atriðum. Hann vildi annaðhvort hafa þetta almennilegan sósíalisma eða þá bara kapítalisma — svona hóflegan, en honum þótti þetta vera of mikill hræringur. Ég er ekkert á móti því, að ríkið reki eina verksmiðju, því að það þarf að halda niðri verði, og ég tel t.d. nauðsynlegt, að kaupfélög séu rekin, en ekki er þar með sagt, að ég telji, að kaupfélög eigi að vera einráð. Það er allt í lagi að lofa kaupmönnunum að verzla líka. Það er allt í lagi, að ríkið reki eina verksmiðju, en við eigum að lofa einstaklingum að gera það líka, af því að ég hef trú á því, að þeir geti gert það fullt eins vel. Það getur t.d. enginn keppt við kaupmann, sem vinnur með fjölskyldu sinni að afhendingu og verzlun. Það getur ekkert kaupfélag drepið hann, ef hann býr við sömu skattaskilyrði. Og ég er sannfærður um það, að ef einstaklingur rekur verksmiðju, leggur hann sig að mörgu leyti betur fram en forstjóri, sem er ráðinn af ríkinu. Ef þetta er gróðavegur, þá kemur þetta af sjálfu sér. Ég var ekki að tala um, að það væri sérstaklega vitlaust að búa til köggla, en ég hef talið það vitlaust að ætla sér að treysta eingöngu á það fóður; það er allt of dýrt. Ég gat um það í gær, að kögglarnir hafa kostað 9.20 kr. hvert kg, og þar að auki er flutningskostnaður. Það eru líklega fullar 11 kr. komið til notenda. Fóðurverðið fyrir rolluna mundi kosta dilksverð, og hver getur rekið þannig bú? Við verðum að framleiða heyið ódýrt til þess, að búskapurinn geti borið sig. Ég taldi eigi viturlegt að treysta eingöngu á heyköggla, þó að það geti verið gerlegt eitt og eitt ár að gefa þá með frekar en að drepa niður bústofn.

Viðvíkjandi ábúð jarða stendur það alveg ákveðið: „Nú losnar jörð úr ábúð, og skal þá landnámsstjórn í samráði við ráðunauta Búnaðarfélags Íslands og viðkomandi sveitarstjórn meta, hvort hún hafi þau búrekstrarskilyrði ...“ o.s.frv. Það er rétt, að talað er um þetta í grg., en það er allt annað lög eða grg. Grg. týnist, en lögin standa, og þá hefði þurft að orða þetta þannig: „Nú losnar jörð úr ábúð“ — og bæta þá við — „og byggist eigi með eðlilegum hætti.“ Það er bara allt annar hlutur. Það er algerlega tvírætt með ráðunautinn. Það er ekki talað um, að það sé ráðunautur búnaðarsambandsins, og vitanlega hafa þeir ekki vald til þess að skipa hann nema hafa samþykki búnaðarsambandsstjórnar, og þá var hægt að orða það þannig í l., að það væri hægt að semja við héraðsráðunauta búnaðarsambandanna um að gera það. En þarna er gert ráð fyrir tvöföldu kerfi. En hvernig það verður í framkvæmd, það er allt annað. Og það væri hægt að spara töluverða vinnu með því að hafa kerfið einfalt. Ýmislegt, sem hv. 5. þm. Austf. sagði, var slitið úr samhengi eins og það, að vitlaust væri að rífa upp kalið land. Ég hélt því fram, að í flestum tilfellum væri það ekki rétt, nema það þyrfti að ræsa landið fram. Og þetta er reynsla flestra, held ég, og Jónas Pétursson var mér sammála um það. Ég skal ekki segja, hversu mikla reynslu hv. 5. þm. Austf. hefur af kali, en þetta er okkar reynsla, a.m.k. mín. Ég talaði ekkert misjafnt um héraðsráðunauta, það er mesta vitleysa, og veittist ekki persónulega að nokkrum manni. Hitt taldi ég, að þeir hefðu ekki fundið upp hentugasta byggingarfyrirkomulag á fjárhúsum og það hefði viljað til, að skurðir hefðu ekki verið lagðir á réttan hátt. En það var ekki vikið persónulega að ráðunautunum, en þeir eru misvitrir eins og aðrir menn, og ég álít, að bændurnir þurfi engan veginn að sækja alla vizku til þeirra. Þeir séu kunnugir sínu landi og reyndari í búskap en flestir ráðunautar.

Þá var hv. 5. þm. Austf. að finna að því við mig, að ég hefði gert lítið úr heyþurrkun með heitu vatni, en það kom svo fram hjá hv. þm., að hann væri mér sammála um þetta. Ég þarf þess vegna ekki að deila mikið um það. Ég skýrði þetta í gær og skal ekki endurtaka það. Viðvíkjandi því, sem hv. 4. þm. Norðurl. v. sagði um, að jarðir hefðu 300 hektara af ræktanlegu landi, þá held ég, að það sé ákaflega lítið um það. Hann býr á því svæði, sem er vel fallið til ræktunar og það eru örfáar jarðir þar, sem hafa 300 hektara af ræktanlegu landi, yfirleitt eru þær teljandi a.m.k. í dölunum. Og sum sveitarfélög munu ekki hafa eina einustu jörð með það mikið af ræktanlegu landi. Ég tel t.d., að í Vatnsdalnum sé ekki ein einasta jörð með svo mikið af ræktanlegu landi. Ef við tökum okkar sýslu, þá er meiri hlutinn af hreppunum þannig, að það væri ekki ein einasta jörð með það mikið af ræktanlegu landi.

Þetta var eigi pólitísk ræða hjá mér; þetta var stefnumál. Ég taldi frv. vera í meira lagi spaugilega orðað að ýmsu leyti, m.a. þetta með kvígurnar og gimbrarnar og fleira því um líkt. Ég álít, að það megi koma þessu fyrir á hagkvæmari hátt. Þess vegna hefði verið réttara, að stefnan hefði verið önnur við endurskoðun þessa frv. og miðað við að gera þetta allt einfaldara í staðinn fyrir að halda þessu tvöfalda kerfi eins og nú á að gera. En ég geri ráð fyrir, að þessu verið breytt, áður en mörg ár líða. Það er alltaf verið að breyta hlutunum, og þá verður þetta endurskoðað, hvort það er að einhverju leyti kosningamál. Það skiptir ekki máli í raun og veru. Það eru víst allt hálfgerð kosningamál nú, en fyrir mér var þetta algert stefnumál. Bezt er að taka Jarðeignadeild ríkisins og sameina hana Landnáminu og Búnaðarfélagið taki hluta Landnámsins. Ég álít, að breyting sé orðin á þessu og hafi verið í lengri tíma, þannig að stefnan sé ekki að fjölga býlunum heldur að styrkja þau býli, sem þegar eru í byggð, til þess að þau megi haldast í byggð áfram. Og ef ég kæmi með einhverja brtt., þá væri hún um að hækka styrkinn til að endurbyggja íbúðarhús á jörðum — jafnvel að fara með hann upp í 300 þús. kr. því að það er orðið mjög erfitt fyrir bændur með þeim lánum, sem þeir fá, að endurbyggja íbúðarhús á jörðum sínum. Það væri nær að hækka þann styrk og lækka þá eitthvað annað. Má vel vera, að ég komi með brtt. við 3. umr. viðvíkjandi því atriði.

En ég hef ekki komið með brtt. af því, að ég er ekki sammála stefnunni, sem er ráðandi í þessu frv., en vegna nokkurra atriða, sem mér þóttu dálítið spaugileg, þá stillti ég mig ekki um að minnast á þau í gær, en annars þykir mér leiðinlegt, ef ég hef sært þessa vini mína. Atvikin hafa hagað því þannig, að ég og hv. 5. þm. Austf. höfum ekki verið sammála. Hann hefur orðið að vinna að málum, sem mér finnst miður viturleg, eins og frv. um lífeyrissjóðinn. Hann hefur talað fyrir honum, en ég sé ekki, að menn þurfi að skattyrðast út af því persónulega, þó að þeir séu ekki málefnalega sammála, og ég ætla ekki að gera lítið úr vitsmunum eða drengskap þessa ágæta manns.