02.04.1971
Efri deild: 88. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1908 í B-deild Alþingistíðinda. (2087)

222. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Frsm. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þetta frv. við þessa umr. Eins og nál. á þskj. 779 ber með sér, þá varð n. sammála um að mæla með því, að frv. yrði samþ. með tilteknum brtt., sem n. flytur á þskj. 780. g get þó ekki látið hjá líða að benda á, að í þessu frv., eins og það liggur hér fyrir, er um nokkur nýmæli að ræða og nokkra stefnubreytingu í þeim málum, sem varða Landnám ríkisins — breytingu, — sem ég tel vera til mikilla bóta. Þar á ég sérstaklega við það, að horfið verði frá því ráði, sem áður þótti vænlegast, að skipta jörðum og fjölga og auka framleiðni í landbúnaði á þann hátt. Nú hefur aftur á móti verið horfið að stefnu, sem nú er almennt viðurkennt, að sé miklu vænlegri, og hún er sú, að jarðir séu nægilega rúmar og það þurfi tiltölulega stærri bú núna til. þess að standa undir þeim vélakosti og tæknibúnaði öllum, sem landbúnaði fylgir, en þær jarðareiningar, sem áður voru taldar nægilegar til þessara hluta. Þá vil ég einnig benda á, að í þessu frv. er gert ráð fyrir nokkuð skýrari ákvæðum um félagsbú og stuðning við þau, og tel ég það líka vera til bóta. Þá er einnig stuðningur við grænfóðurverksmiðjur, sem að áliti allra landbúnaðarmanna er mjög mikilvægt að efla svo sem verða má, því að það virðist vera sýnilegt af þeirri skömmu reynslu, sem þar er fengin, að með því megi bæta mjög fóðurframleiðslu á Íslandi og verða óháðari erlendum fóðurkaupum en við erum nú.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta, en aðeins geta þess, að þær brtt., sem landbn. flytur hér á sérstöku þskj., eru fyrst og fremst tæknilegs eðlis og eru fluttar í samráði við landbrn. Við frekari athugun rn. á frv. kom í ljós, að því var áfátt í vissum tilvikum og þá í þessum gr., sem hér koma til. Það er 46. gr., þar sem gert er ráð fyrir því, að samþykki landbrh. komi til, til þess að landnámsstjórn geti keypt jarðir í vissum tilvikum eins og þar segir frekar fyrir um. Þá er umorðuð 62. gr., og er það gert fyrir það, að hún var ekki í samræmi við þær venjur, sem skapazt hafa um gerð fjárl. og fjárveitingar til ríkisfyrirtækja, og er hún umorðuð til þess að vera í samræmi við það, sem er um önnur hliðstæð ríkisfyrirtæki. Og sama er að segja um 3. till., sem er við 75. gr. Þar er gert ráð fyrir, að ríkisendurskoðunin endurskoði reikninga Landnámsins, en þeir hafa fram að þessu verið látnir fylgja reikningum Búnaðarbanka Íslands og verið endurskoðaðir af endurskoðendum hans, en í öllu falli þykir það sjálfsagt, að ríkisstofnanir heyri undir ríkisendurskoðunina að öllu leyti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta frv. að svo komnu máli, nema sérstakt tilefni gefist, en ég vil leggja til, að frv. verði samþ. með þessum tilteknu breytingum, sem ég lýsti hér, á þskj. 780, og því verði vísað til 3. umr.