29.10.1970
Efri deild: 7. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í B-deild Alþingistíðinda. (21)

74. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Björn Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. undrast mjög, að ég skuli spyrja svo fávíslega, sem hann telur raun bera vitni um, og ég sem reyndur samningamaður skuli spyrja um það, hvernig samningar eru á vegi staddir og telur það vera algert launungarmál, sem, ef ljóstrað yrði upp, gæti spillt öllum samningum. Ég verð nú að segja það, að mín reynsla af þessu er önnur, því að oft og tíðum hefur það verið og oftast nær svo, þegar almenn verkalýðsfélög hafa átt í samningum, að gangur samninganna hefur verið opinbert mál, sem hefur verið skýrt frá í blöðum og fjölmiðlum nokkurn veginn jafnharðan og þar var eitthvað að gerast. Ég veit ekki betur en þessir samningar séu nú þegar á dagskrá hjá ýmsum félögum innan B. S. R. B. t. d., og var núna síðast t. d. í hádeginu verið að auglýsa fundi um einstök atriði samninganna fyrir vissa hópa, þannig að málið er auðvitað að verða þessa dagana meira eða minna opinbert mál, og ég verð þá gagnkvæmt að undrast þau svör hæstv. ráðh., að hv. þd. komi þetta ekkert við og hann neiti einnig að gefa upplýsingar um þetta í n. Ég held, að þessi svör séu ráðh. ekki á nokkurn hátt sæmandi. Hver stefnan sé, þá segir hann hins vegar, að því sé auðsvarað. Hún sé sú, að það beri að miða við sambærilega starfshópa aðra í þjóðfélaginu og fara eftir því. En mér sýnist þetta nú stangast nokkuð mikið á við það, að á hinn bóginn er upplýst, að nú verði laun opinberra starfsmanna metin eftir einhverju vísindalegu starfsmati. Er það nú svo hjá okkur, að einkafyrirtækin í landinu fari eftir einhverjum vísindalegum reglum um það, hvaða kaup þau greiða sínu starfsfólki? Ég held ekki. Mér sýnist, að þessi svör stangist því algerlega á og gefi engar upplýsingar um það, hvað hér sé raunverulega að gerast. Ég skal svo ekki þrátta um það.

Það kann vel að vera, að það sé ekki unnt og ekki heppilegt að gera nákvæma grein fyrir því hér frammi fyrir hv. þd., hvar samningar eru nákvæmlega á vegi staddir, þó að ég hefði nú álitið í minni fávizku, að það væri ekki nein goðgá, þó að frá því væri skýrt, um hvað samkomulag er orðið. Ég var ekki að biðja um annað. Ég var ekki að biðja um neina nákvæma útlistun á því, hvaða kröfur væru uppi um þau atriði, sem eru óútkljáð enn þá, heldur eingöngu um þau atriði, sem fullt samkomulag er orðið um. Og út frá því hefði sennilega mátt marka, hver stefna ríkisstj. raunverulega væri í þessum málum. En það verður ekki gert með þessari einföldu, og ég vil segja allt of einföldu, uppsetningu hæstv. ráðh.

Það er auðvitað vitað, að opinberir starfsmenn hafa í aðalatriðum fengið sams konar hækkanir og aðrir launamenn í landinu á undanförnum árum, og hafa þar alls ekki farið neitt varhluta af. Og það er þess vegna alger fásinna að ætla sér að halda því fram, a. m. k. ef það er rétt, að hér sé um 30–40% kauphækkanir að ræða, að það sé eitthvað, sem taki algerlega mið af annarri launaþróun í landinu. Hér er algerlega um nýja hluti að ræða og einhvers konar framúrstefnu, sem ég fæ ekki með nokkrum hætti skilið, eins og nú stendur á í okkar efnahagsmálum.

En fyrst svo er, að hæstv. ráðh. neitar að gefa hér upplýsingar, sem ég tel sjálfsagt, að hann hefði gefið góðfúslega, þá hlýt ég að gera till. um það, að málið fari til n. og hún kanni þá, hvaða upplýsingar eru fáanlegar, annaðhvort frá hv. ráðh. eða þá öðrum aðilum varðandi þessi mál. Ég legg til, að málinu verði vísað til hv. fjhn.