15.12.1970
Efri deild: 35. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 328 í B-deild Alþingistíðinda. (214)

3. mál, Landsvirkjun

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ástæðan til þess, að þetta frv., sem á sínum tíma var samþ. einróma hér í hv. d., er hingað komið, er sú, að í Nd. var að ósk minni gerð sú breyting á frv., að ríkisstj. var heimilað í stað ríkisábyrgðar, ef henta þætti, að taka sjálf lán og endurlána lánið Landsvirkjun. Það var engin breyting gerð á upphæð fjárhæðarinnar, sem um var að ræða í upphafi í frv., heldur einungis þetta formsatriði heimilað, að ríkisstj. sjálf taki lánið, því að fyrirhugað er, að málið verði leyst með þeim hætti, að lán verði tekið af hálfu ríkisins sjálfs og síðan endurlánað Landsvirkjun, og verður það hluti af stærra láni, sem væntanlega verður tekið fljótt eftir áramótin til þess að leysa þessi vandamál og önnur vandamál, sem nánar verður vikið að í sambandi við 3. umr. fjárl.

Ég vænti þess, þar sem hér er raunverulega ekki um neina grundvallarbreytingu að ræða, að hv. d. geti fallizt á það, svo sem var í hv. Nd., að samþykkja frv. svo breytt.