10.02.1971
Neðri deild: 45. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1920 í B-deild Alþingistíðinda. (2140)

191. mál, byggingarsjóður aldraðs fólks

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Í sambandi við frv. það á þskj. 314, sem hér liggur fyrir til 1. umr., vil ég taka undir það með hv. 1. flm., að nauðsyn ber til, að það opinbera fari að styðja að því að koma upp dvalarheimilum fyrir aldrað fólk í landinu. Það hefur ekki verið gert til þessa, og á þingum hér undanfarið hefur verið lagt fram frv. um breytingu á sjúkrahúslögunum, þar sem gert væri ráð fyrir því, að ríkissjóður styddi þessa starfsemi, en hún hefur ekki náð fram að ganga, og það stóð til, að reynt yrði samkomulag um það á milli flokka að koma með slíkt frv. í vetur, en af því hefur ekki orðið enn þá. Í sambandi við þetta frv. er það að segja, að stefnan er rétt að því leyti, að það er mikil nauðsyn að styðja þessa starfsemi, sem mjög fer í vöxt og fólki hefur reynzt erfitt að koma í framkvæmd, vegna þess að þar hefur ekki verið um að ræða neinn opinberan stuðning og um lánsmöguleika hefur ekki verið að ræða að öðru leyti en því, að erfðafjársjóður hefur lánað til dvalarheimila.

En í sambandi við frv. þetta verð ég að segja það, að mér sýnist, að það, sem á skorti til þess, að þetta sé framkvæmanlegt, sé fjármagn, sem þennan sjóð vantar. Ég held, að þessi sjóður hafi ekki styrkt dvalarheimili eða byggingu dvalarheimila að öðru leyti en því, sem hann kann að hafa gert hér í Reykjavík, a.m.k. hefur það verið svo um það dvalarheimili, sem ég þekki bezt til í Borgarnesi, sem nú er nýtekið til starfa, að ekki hefur fengizt lán úr þessum sjóði til þess. Þess vegna hygg ég, að þó að löggjöf væri sett um það, að þessi sjóður, sem myndaður er með happdrættisfé, ætti að veita styrk til dvalarheimila eða til íbúða fyrir aldrað fólk, þá verði það ekki framkvæmanlegt nema með því að auka fjármagn til sjóðsins. Ég vil því segja það, að stefnan er rétt. Það opinbera þarf að styðja þessa starfsemi, því að hún er hin mesta nauðsyn og er tímabær. Með hverju ári, sem líður, er vaxandi þörf fyrir uppbyggingu vegna aldraðs fólks, en fjármagnið skortir. Ég vil því treysta því og vona, að þetta frv. sé fyrirboði þess, að það náist samstaða hér á hv. Alþ. um að veita fé eða útvega fé til styrktar byggingarstarfsemi fyrir aldrað fólk, og að því mun ég styðja, í hvaða mynd sem er.