23.11.1970
Efri deild: 20. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1924 í B-deild Alþingistíðinda. (2167)

109. mál, verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

Flm. (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Ég hef á þskj. nr. 116 leyft mér að flytja frv. um breyt. á l. um verzlun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf, nr. 63 frá 28. mal 1969. Frv. gerir ráð fyrir því, að bann sé sett við auglýsingu á tóbaki í blöðum, útvarpi, sjónvarpi og utan dyra. Frá því að frv. var lagt fram, hefur mér verið bent á óhemjulegan áróður í kvikmyndahúsunum fyrir vissum vindlingategundum. Svo langt var, síðan ég hafði farið í kvikmyndahús sjálfur, að mér var ekki persónulega kunnugt um þetta. En það er auðvitað sjálfsagt að athuga um brtt. og taka bannið inn varðandi kvikmyndahúsin líka. Það var sannarlega spor fram á við, þegar hv. Ed. samþykkti hér á sínum tíma, að hver vindlingapakki skyldi bera svofellda aðvörun:

Viðvörun. Vindlingareykingar geta valdið krabbameini í lungum og hjartasjúkdómum. Menn mun reka minni til þess, að bandarískir tóbaksframleiðendur voru hér með nokkurt þóf í vor s.l. og hótanir við einkasöluna vegna þessa atriðis, en það leystist, og ber nú hver pakki þessa áletrun. En framleiðendur hafa sannarlega áhuga á því að koma með krók á móti bragði, því að vel skipulagðar og vel gerðar auglýsingar um ágæti vindlinga bókstaflega flæða yfir menn varnarlausa. Þetta er ósvinna hin mesta, og verður hv. Alþ. að sjá sóma sinn í því að stöðva þennan ófögnuð. Ég segi ófögnuð. Vegna hvers er svo fast að orði kveðið? Ég mun nú í fáum orðum reyna að rökstyðja það og hef í því sambandi farið í skýrslur, sem viðurkenndir sérfræðingar í læknavísindum hafa látið frá sér fara nú upp á síðkastið um hættuna, sem miklar vindlingareykingar hafa í för með sér. Eftirfarandi var birt í Morgunblaðinu 25. okt. s.l., með leyfi forseta:

„Brezk stjórnarskýrsla“, segir í fyrirsögn. „100 þúsund deyja í ár — af völdum sígarettureykinga.“ „Eitt hundrað þúsund Breta munu deyja í ár vegna sígarettureykinga. Kemur þetta fram í skýrslu, sem brezka ríkisstjórnin gerði heyrinkunna í dag. Er þetta mun hærri tala en búizt hafði verið við. Skýrsluna vann Sir George Gober og snýst hún almennt um heilbrigðisástand í Bretlandi. Í skýrslunni segir Sir George, að sígarettureykingar hafi aukizt stórlega í landinu og dauðsföllum af völdum lungnakrabba, bronkítis og hjartasjúkdóma fjölgað ískyggilega.

Þá hafa brezk blöð það fyrir satt, að hópur brezkra lækna muni á næstunni leggja fram tillögur til úrbóta og þar sem ríkisstjórnin er gagnrýnd fyrir sinnuleysi í þessum málum. Meðal þeirra atriða, sem læknarnir telja nauðsynleg, er að auka fræðslu um skaðsemi sígarettureykinga, sígarettuauglýsingar verði mjög takmarkaðar og lagt verði bann við reykingum á opinberum stöðum, í kvikmyndahúsum, í járnbrautarlestum, áætlunarbílum og e.t.v. á skemmtistöðum.“

Hér er um óhugnanlega þróun að ræða, sem við megum sannarlega hugleiða nokkuð betur okkur sjálfum til aðvörunar. Almenningur hefur einnig veitt þessu athygli, og í ágætri grein, sem nýlega birtist í sumum dagblöðunum eftir Hjálmtý Pétursson, tel ég koma fram sjónarmið hins skynsama borgara um þetta atriði, og með leyfi forseta vil ég lesa örfá orð úr þeirri grein:

„Það hefur löngum verið talið, að góð heilsa væri það dýrmætasta, sem nokkrum manni gæti hlotnazt. Auður og völd eru þeim lítils virði, sem liggja fyrir dauðanum, helteknir af ólæknandi sjúkdómi. Sárast er það fyrir þann, sem er í biðstofu dauðans, er hann rennir huganum yfir líf sitt og uppgötvar, að sá ólæknandi sjúkdómur, sem hann þjáist af, er sjálfskaparvíti, krabbi af völdum sígarettureykinga.

Í sjónvarpinu í vor var sýnd ensk kvikmynd um skaðsemi tóbaks og krabbameinssýkingu. Þetta var áhrifamikil mynd og ætti að vera flestum minnisstæð, sem sáu. Sýnt var í prósentum aukin dauðsföll af völdum krabbameins hjá þeim þjóðum þar sem mest er reykt. Enn fremur gáfu línurit og tölur til kynna þær tugmilljónaupphæðir, sem tóbakssalar eyða í auglýsingar, til þess að gylla þetta eitur fyrir mannfólkinu. Í þessari kvikmynd var brugðið upp mynd frá Íslandi, sem átti að sýna hreint loft og heitar laugar, en þrátt fyrir þessi náttúrugæði væri krabbinn og sígarettan að nema hér land.“ Lýkur svo tilvitnuninni.

Herra Bjarni Bjarnason, læknir hjá Krabbameinsfélagi Íslands, flutti snjallt erindi um krabbamein og áhrif vindlingareykinga í ríkisútvarpinu 9. þ.m. og kom m.a. þetta fram: Að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin helgar árið 1970 krabbameinsvörnum og krabbameinsleit. Stofnunin hefur einnig komizt að þeirri niðurstöðu, að um 33% krabbasjúklinga fær bata, og er þetta næstum ævintýralegur árangur miðað við það, sem áður var, og menn sjá fram á, að allt að því annar hver sjúklingur muni fá bata innan skamms. Hér á Íslandi hafa aðeins 34 sjúklingar með lungnakrabba fundizt á tímabilinu 1931–1954 eða á 24 ára tímabili, en frá 1955–1968, á s.l. 14 árum, 264. Ég endurtek á s.l. 14 árum 264. Orðrétt sagði læknirinn:

„Það þarf ekki að skýra það lengur fyrir fólki, því að allir vita það nú orðið að sígarettureykingar eiga sök á 95–97% allra þessara krabbatilfella. Lungnakrabbinn myndi sem sagt hverfa að mestu,“ segir læknirinn orðrétt, „ef fólk fengist til að leggja niður sígarettureykingarnar. Svona einfalt er það nú. En þar sem þess virðist enginn kostur, er ekki lengur hægt að standa aðgerðalaus og sjá lungnakrabbann vaða uppi.“ Læknirinn bendir síðan á þá staðreynd, að þeir, sem hætta að reykja, fá undraverða bót á lungum sínum og eftir 5–10 ár megi varla greina, hvort maðurinn hefur verið stórreykingamaður eða ekki. Þetta er geysiþýðingarmikið atriði, og það þarf að benda mönnum á gildi þess, að björgunin felst í því að hætta nú þegar reykingum. Bezt væri auðvitað að byrja aldrei.

Þeir vösku menn hjá Krabbameinsfélaginu hafa oft áður ýtt við hv. alþm., en fengið daufar undirtektir, og ég vil, með leyfi forseta, lesa úr einu slíku bréfi. Bréfið er sent Háskólabíói, Árna prófessor Vilhjálmssyni, stjórnarformanni. Bréfið er svo hljóðandi dagsett 11. nóv. s.l.:

„Stjórn Krabbameinsfélags Íslands hefur mörgum sinnum sent Alþ. áskorun um að banna með öllu sígarettuauglýsingar hér á landi. Það erindi hefur enn þá ekki fengið neina afgreiðslu. Þess vegna hefur verið ákveðið að snúa sér til einstakra aðila, sem auglýsa sígarettur, í von um, að þeir bregðist betur við og sýni sjónarmiðum félagsins meiri skilning. Heilsutapi og geigvænlegum mannfórnum af völdum sígarettureykinga þarf ekki að lýsa fyrir Íslendingum. Hverjum manni, sem kominn er til vits og ára, hlýtur að vera fullkunnugt um það. Allir, sem láta sig líf og heilsu fólksins einhverju skipta, ættu því að gera sitt til að afstýra þessum voða. Ef bíóin vildu hætta að birta tóbaksauglýsingar, væri það ekki óverulegt spor í rétta átt, því að máttur þeirra auglýsinga, sem þau birta, er meiri en flesta grunar. Framkvæmdastjórn Krabbameinsfélags Íslands beinir því þeim vinsamlegum tilmælum til stjórnar Háskólabíós, að sígarettuauglýsingar verði lagðar þar niður, þar sem hún lítur svo á, að slík auglýsingastarfsemi samrýmist ekki því menningarhlutverki, sem Háskólanum er ætlað. M.a. er erfitt að hugsa sér, að Háskólinn, sem elur upp menn til að lækna sjúkdóma og afstýra þeim, geti jafnframt rekið stofnun, sem aðhefst nokkuð það, sem geti orðið til að auka útbreiðslu eins skæðasta sjúkdóms, sem mannkynið á í höggi við. Í von um, að tilmælum þessum verði tekið með vinsemd og skilningi, kveðjum við yður.

Virðingarfyllst,

f.h. framkvæmdastjórnar

Krabbameinsfélags Íslands,

Bjarni Bjarnason læknir, formaður.“

Það kemur hér fram, eins og vitað var, að Krabbameinsfélagið vill stuðla að því, að auglýsingar verði bannaðar og það væri auðvitað langæskilegasta leiðin, en því miður þá er peningavaldið það mikið hjá tóbaksframleiðendum, að menn láta undan þeim þunga, þegar stórar upphæðir eru annars vegar. Vissulega mun verða erfitt fyrir okkur að banna það, að auglýsingar sjáist hér á Íslandi, og ætla ég mér ekki þá dul, að það sé framkvæmanlegt. Við hinu má sporna, að auglýsingaáróðurinn sé í fullum gangi á almennum stöðum hjá stofnunum, sem kenna sig við menningu og þar fram eftir götunum, og inn á þá braut vil ég fara, að hömlur séu samt settar við slíkum áróðri. Við fáum hingað frjálsan innflutning erlendra blaða, og við sjáum þar litaðar auglýsingar, en ég tel, að við getum ekki spornað við neinu slíku. Hitt er á að líta, að við eigum að horfa í eigin barm og hamla á móti því, að innlendir aðilar dreifi þessum áróðri hér um landið.

Mjög margt fleira mætti benda á til sönnunar því, að aukning á vindlingareykingum veldur stórtjóni á heilsu manna og hreinlega drepur hér marga á ári hverju. Ég tel, að við getum ekki horft upp á þessa uggvænlegu þróun án þess að stemma stigu við henni, eftir því, sem í valdi hv. Alþ. stendur. Við getum með því að banna í l. komið í veg fyrir snjallan áróður um ágæti og hressileg áhrif vindlingareykinga, og þá sýnist mér það ekki ofgert að leggja það til, að slíkt sé gert og það nú þegar. Það er athyglisvert, að mikill áróður er nú rekinn fyrir ágæti vindlinganna, og dynur þetta yfir fólk með margvíslegum hætti svo sem í dagblöðum, á veggskiltum og síðast en ekki sízt nú upp á síðkastið, eins og ég sagði áðan, í vel gerðum áróðursmyndum í bíóunum. Því miður var svo langt, síðan ég hafði farið í kvikmyndahús, að mér var ekki kunnugt um þennan snjalla áróður, en það er í sjálfu sér alger óhæfa, þegar menn koma til þess að njóta góðrar myndar og það í kvikmyndahúsum, sem kenna sig við menningu og fá til þess sérstök lagaákvæði sér til hjálpar. Þetta er mesta ósvinna.

Spyrja má hér: Hvenær er næsta stig? Hefjast ekki t.d. bráðum sinfóníutónleikar með 10 mínútna forleik um tóbak og auglýsingum um ágæti þess? Er það svo, að fólk geti hvergi verið óáreitt fyrir þessum ófögnuði? Hvergi er þess getið, hvað það kostar að reykja eins og flón og renna þannig stórfé út í loftið. Ekki þarf neinn stórreykingamann til þess að eyða nú á einu ári í sígarettur allt að 20 þús. kr. Hvað fer t.d. mikill tími í súginn vegna allra þessara reykinga? Hvergi er getið um það.

Mörgum kann e.t.v. að finnast, að ég sé kominn út í allt of mikla siðgæðisprédikun hér á hv. Alþ. og ætti fremur að standa úti á torgi og hrópa þar. Þó að þar væri þörf á að hrópa til fólks um að gæta heilsu sinnar, þá rýrir það ekki gildi þess að hrópa einnig í þingsölum um hollustuhætti. Það er hrópað hátt á betri sjúkrahús og alla aðstöðu til betri heilbrigðisþjónustu, og er það vel. En er ekki eðlilegt að stemma stigu við því að ungmenni falli í valinn vegna snjallrar áróðurstækni í auglýsingum í dag um ágæti vindlinganna, og hér höfum við hv. alþm. skyldu að sinna. Það er von mín, að þetta litla frv. fái jákvæðar undirtektir í hv. Ed. og skjóta afgreiðslu.

Það væri, herra forseti, hægt að hafa um þetta allt mikið lengra mál, en ég sé ekki ástæðu til þess. Ég hef víða orðið var við góðar undirtektir, og að svo mæltu vil ég leyfa mér að vísa þessu til 2. umr. og heilbr.- og félmn.