26.10.1970
Efri deild: 5. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í B-deild Alþingistíðinda. (217)

18. mál, kirkjuþing og kirkjuráð

Dómsmrh. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Þetta frv. til l. um breyt. á l. um kirkjuþing og kirkjuráð er flutt til staðfestingar á brbl. frá 9. júlí s. l. Eins og fram kemur í aths. við frv., voru brbl. út gefin vegna þess, að nauðsyn bar til að lögfesta þau ákvæði, sem í frv. greinir, vegna breytinga, sem urðu á skipan prófastsdæmanna með nýjum l., sem sett voru á síðasta Alþ. um skipan prestakalla og prófastsdæma. Prófastsdæmin mynda hvert um sig kjördæmi í kosningum til kirkjuþings, og er í 1. gr. frv. tekin upp sú nýja skipan prófastsdæmanna, sem varð með þeim lögum. Í 2. gr. frv. felst hins vegar breyting á ákvæðum um kosningar til kirkjuþings. Sú skipan, sem þarna er um að ræða í 2. gr. frv., er á allan hátt einfaldari en er í l. frá 1957, en samkv. þeim skyldi kjósa aðalmenn og varamenn, tvo varamenn og þá hvern í sínu lagi, en með frv. er hins vegar kveðið svo á, að kjósa skuli þrjá menn og skuli, eins og þar segir, reikna þeim, sem fyrstur er í röðinni eitt atkvæði, öðrum manni 2/3 atkvæðis og þriðja manni 1/3 atkvæðis, og skipi þeir síðan sæti varamanna í þeirri röð, sem tölur segja til um með hliðsjón af þeim útreikningi. Þessarar breytingar á ákvæðum um kosningu til kirkjuþings var óskað af kirkjunnar mönnum, og sýnist hún vera eðlileg og líka sanngjörn.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um frv., en legg til, hæstv. forseti, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og til menntmn.