05.04.1971
Neðri deild: 88. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1940 í B-deild Alþingistíðinda. (2188)

109. mál, verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Ég skal ekkert verulega lengja þessar umr., en ég vil bara láta í ljósi mína skoðun m.a. á þeirri brtt., sem hér hefur verið lögð fram, þó aldrei nema hún sé tekin aftur til 3. umr. Ég er andvígur þeirri till. af þeirri ástæðu fyrst og fremst, að hún kann að stofna málinu í hættu á því stigi, sem það er núna. Þar að auki er ég andvígur því að fella niður merkingar á sígarettupökkunum. Hitt er annað mál, að merkingarnar, eins og þær hafa verið framkvæmdar, eru hrein handarbakavinna. Þetta er sett með örsmáu letri neðan á botninn á pökkunum í staðinn fyrir að setja aðvörunina með læsilegu letri á hliðina á þeim, eins og ætlunin var hjá þeim, sem fengu merkingarnar í l. teknar. Og það, sem á að gera í þessu efni að mínum dómi, er að halda merkingunum áfram, en gera þær skýrar, en það á jafnframt að efla og auka á öðrum sviðum áróður og upplýsingastarfsemi um skaðsemi tóbaksins; það á að gera það jafnhliða merkingunum. Þær krónur, sem fara í þessar merkingar, eru ekki það margar, að þær skipti stóru máli hér, ef merkingarnar eru gerðar úr garði eins og til var ætlazt m.ö.o. svo að þær séu sýnilegar. Ég sem sé álít það, að það eigi að halda áfram að merkja pakkana, það eigi að herða og taka upp á nýjum sviðum áróður gegn sígarettureykingum og tóbaksnotkun, og svo í þriðja lagi og það er það raunar, sem hér er um að ræða, að hætta að auglýsa í innlendum fjölmiðlum, hvort sem það eru blöð eða aðrir fjölmiðlar. Hitt er hlutur, sem við ráðum ekki við, innfluttar bækur og rit. Það brýtur í bága við venjuleg samskipti þjóða, ef á að fara að stöðva innflutning á prentuðu máli, og það getum við ekki, og það kemur ekki þessu máli við.

Ég held, að ef nokkurt vit á að vera í hlutunum, þá verðum við að hafa í þessu máli afdráttarlausa stefnu og berjast gegn sígarettureykingunum á öllum sviðum — ekki auglýsa þær á einum stað og hefja andróður gegn þeim á öðrum, heldur eigum við að hafa eina heildarstefnu, berjast á þessum þremur höfuðvígstöðvum: merkja pakkana, herða áróður í fjölmiðlum og hætta að auglýsa í þeim. Þetta er ósköp einfalt mál, ef menn líta á þetta frá heilbrigðu sjónarmiði og hleypidómalaust, vil ég segja. Það er ekki lítið í húfi. Menn draga ekki í efa upplýsingar lækna um skaðsemi sígarettureykinga fyrir heilsufar, og það þarf ekki að sækja það í neinar tölfræðilegar upplýsingar, enda satt að segja liggja ekki fyrir neinar tölur um það, hversu gífurlegur kostnaður er fyrir einstaklinginn og fyrir þjóðfélagið af öllum þeim fjölmörgu sjúkratilfellum, sem menn beint eða óbeint og óvefengjanlega rekja til reykinganna.