04.11.1970
Efri deild: 11. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 330 í B-deild Alþingistíðinda. (219)

18. mál, kirkjuþing og kirkjuráð

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Menntmn. hefur haft frv. það, sem hér liggur fyrir til athugunar, og eins og álit hennar á þskj. 88 ber með sér, mæla þeir nm., sem viðstaddir voru á þeim fundi, sem málið var tekið fyrir á, með því, að það verði samþ. óbreytt. Það eru tvær efnisbreytingar, sem í þessu frv. felast miðað við gildandi lögákvæði um þessi efni: 1) Skipan kjördæma til kirkjuráðskosninga er breytt til samræmis við þá breyttu tilhögun á skipun prestakalla og þá um leið prófastsdæma, sem samþ. var á síðasta Alþ. 2) Sú breyting er gerð á núgildandi ákvæðum um kosningar til kirkjuþings, að varamenn til kirkjuþings verði hér eftir kosnir um leið og aðalmenn til kirkjuþings, þannig að þeir, sem næstflest atkvæði hljóta við kosningu aðalmanna, verði varamenn í stað þess að kjósa varamenn sérstaklega eins og nú er.

Á sínum tíma voru um það skiptar skoðanir hér á hv. Alþ., hvort kirkjuþing og kirkjuráð væru stofnanir, sem ættu rétt á sér í þeirri mynd; sem lögfest hefur verið. Ég býst við, að sá ágreiningur sé enn fyrir hendi, en að mínu áliti er ekki tekin afstaða til þessa máls með því, að n. mælir með því, að þetta frv. verði óbreytt, og enn fremur mundi ég líta þannig á, að hv. þd. væri í sjálfu sér ekki að taka afstöðu til slíks máls, þó að hún féllist á það að samþykkja frv., svo sem n. hefur lagt til.