05.04.1971
Neðri deild: 88. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1945 í B-deild Alþingistíðinda. (2192)

109. mál, verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Ég vil mjög taka undir síðustu orð hv. 3. þm. Vesturl. Enda þótt ég hafi við íhugun þessa máls í vetur komizt að þeirri niðurstöðu, að það sé ekki rétt að hætta merkingum á sígarettupökkum, þá get ég vel ímyndað mér, að það séu margir á annarri skoðun og menn kynnu að eiga erfitt með að greiða atkv. um brtt. út frá efni hennar, vegna þess að þeir óttist, eins og hv. 3. þm. Vesturl. sagði, að með því stöðvuðu þeir málið og það sé þess vegna hætta á, að ekki fengist rétt mynd út úr þeirri atkvgr. Ég held, að það væri mjög æskilegt, að hv. þm. tæki till. til baka málsins vegna. Það er nú þegar nokkuð liðið á þetta ár, og það skiptir ekki öllu máli, hvort slíkt yrði samþ. á þ nú eða kannske í haust, þegar þ. kæmi saman þá. Ég held, að það hafi verið misskilningur hjá hv. 2. þm. Reykn., þegar hann hélt því fram, að það væri hægt að orða till. hv. 5. þm. Norðurl. v. þannig, að hún stofnaði málinu ekki á neinn hátt í hættu. Það, sem við eigum við með því að stofna málinu í hættu, er það, ef það fer til Ed. með ákvæði, sem yrði deila um þar. Hættan er sú að dengja frv. þannig á milli d., að það dagaði uppi vegna þess, hve liðið er að lokum þings.

Hv. 5. þm. Norðurl. v. vildi ekki meina, að neitt væri athugavert við merkinguna á pökkunum. Við auðvitað höfum hvor sína skoðun á því. Varðandi leturstærðina, held ég, að vandfundið sé smærra letur a.m.k. hjá Tímanum en það, sem notað var við þessar merkingar. Það er engin tilviljun, að í Stjórnartíðindum, þar sem þau l. eru prentuð, sem sett voru á þ. í fyrra eða hvenær það nú var, þá er líkt og hér í þessu þskj. aðvörunin prentuð með stóru letri. Það er engin tilviljun. Þetta var þannig í þskj., þegar málið var hér í hv. Alþ., og þannig áfram í Stjórnartíðindum, og það var ætlazt til þess, að pakkarnir yrðu merktir greinilega með þessari aðvörun. Hvað sem hv. 5. þm. Norðurl. v. álítur um það, þá álít ég það ólíklegasta staðinn til þess að vekja athygli að merkja botninn á pökkunum. Ég held að enginn maður, sem t.d. væri að auglýsa sína vöru, mundi setja auglýsingu á botninn á umbúðunum. Það held ég, að flestir geti nú orðið sammála um svona í rólegheitum. Það er mesti misskilningur hjá hv. þm., að þetta sé eitthvert sérstakt tilfinningamál hjá mér. Ég er búinn að velta þessu máli töluvert fyrir mér eins og auðvitað aðrir hv. þm., og það hafa ekki farið fram hjá mér þær raddir, sem borizt hafa til þ. frá ýmsum samtökum og frá þeim læknum, sem barizt hafa fyrir þessu máli. Þeir vilja yfirleitt ekki fella merkingarnar niður, og ég treysti mér ekki til þess að ganga gegn vilja þess fólks, sem staðið hefur í eldlínunni í þessu máli að undanförnu — gegn vilja læknanna og annarra, sem þar hafa drengilegast barizt. Ég treysti mér ekki til þess. Hv. þm. vitnaði í ummæli hæstv. fjmrh. um, að þessar merkingar hefðu ekki haft nein áhrif. Áróður og auglýsingar hafa ekki endilega áhrif strax. Það er eðli áróðurs, að hann vinnur á smátt og smátt, og það er það, sem menn hugsa sér með þessu fyrst og fremst, enda drýgra en skyndiárangur, þegar frá líður, svo að ég held, að það sé í raun og veru engin reynsla fengin af þessum merkingum nú þegar. Ég geri ekki mikið úr þeim fjárhæðum., sem til þess fara, 1 millj. kr. Það eru ekki stórar fjárhæðir, þegar eins mikið er í húfi og hér.

Ég vil að lokum bara endurtaka það, sem ég sagði áðan. Ég held, að við verðum bara að hafa í þessu alveg heila stefnu, berjast á öllum vígstöðvum gegn vágestinum, halda áfram að merkja pakkana, hætta að auglýsa í blöðum og útvarpi, herða andróður gegn tóbaksnotkun í fjölmiðlum og tíma að verja til þess fé, þó að það séu ekki teknir í það nákvæmlega þeir aurar, sem notaðir hafa verið í þessa tilraun til merkinga á sígarettupökkum, sem hér hefur verið gerð að umtalsefni.