06.04.1971
Sameinað þing: 43. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1951 í B-deild Alþingistíðinda. (2204)

Almennar stjórnmálaumræður

Dómsmrh. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Heiðruðu hlustendur. Þær almennu stjórnmálaumr., sem hér fara fram nú í lok síðasta þings á kjörtímabilinu, munu vafalaust einkennast af því, að alþingiskosningar eru nú fram undan, en sama má reyndar segja um þinghaldið í vetur og þá ekki sízt síðustu vikurnar. Hefur þetta komið hvað ljósast fram í frumvarpaflutningi og yfirboðstill. hv. stjórnarandstæðinga, sem rignt hefur yfir þingheim. Það er síður en svo neitt við það að athuga að þm. flytji frv. um málefni, sem út af fyrir sig geta verið góð og þörf, en þegar það er haft í huga, að velflest frv. og till. stjórnarandstæðinga eru því marki brenndar að þýða aukin útgjöld eða tekjumissi fyrir ríkissjóð, er hætt við, að ljóminn fari af tillögugerðinni og frv.-flutningnum, þegar yfirleitt er ekki með einu orði eða einum stafkrók að því vikið, hvernig afla skuli tekna til að mæta útgjöldunum.

Nærtækt dæmi um slíkan málflutning eru t.d. viðbrögð hv. stjórnarandstæðinga við 2. umr. um stjfrv. um almannatryggingar í Ed. Alþ. nú fyrir helgina, en það frv. var afgr. sem lög frá Alþ. í dag. L. er ætlað að taka gildi frá næstu áramótum og áætlað, að þau muni auka útgjöld lífeyristrygginganna um 500 millj. kr. á ári. En stjórnarandstaðan flutti m.a. um það till. og lagði á það mikla áherzlu, að l. tækju gildi 1. júní þessa árs. Hafa ber einnig í huga, að hv. stjórnarandstæðingar fluttu líka till. um mikla hækkun og aukningu bóta frá ákvæðum frv., hefði slíkt þýtt a.m.k. á 4. hundrað millj. kr. aukin útgjöld fyrir tryggingarnar á þessu ári, án þess að nokkur ábending fylgdi um tekjuöflun til þess að mæta slíkum útgjöldum, sem að verulegu leyti eru borin uppi af ríkissjóði.

Á þessu þingi eins og oftar nær fjöldi mála ekki að hljóta endanlega afgreiðslu. Það er hvort tveggja, að málafjöldi og þá sérstaklega nú er slíkur, að tími endist ekki til, og auk þess eru allmörg stjfrv. lögð fram til að kynna þau með endurflutning á næsta þingi í huga.

En það eru fleiri en ríkisstj., sem leggja fram frv. án þess að ætlast til afgreiðslu á þeim. Í gær var m.a. útbýtt þáltill. frá nokkrum hv. þm. Framsfl. um eflingu Landhelgisgæzlunnar með kaupum á nýju varðskipi og gæzluflugvél. Vegna þess hve landhelgismálin eru nú mjög til umr. hér á hv. Alþ., þykir mér rétt að gefa hér upplýsingar, sem reyndar komu að nokkru fram við umr. í hv. Ed. fyrir skömmu. Endurnýjun og aukning m.a. á flugkosti Landhelgisgæzlunnar hefur verið til athugunar og meðferðar um alllangt skeið. Eins og kunnugt er, er gæzluflugvélin Sif nú orðin gömul og reyndar ekki alls kostar hentug til gæzlustarfa og þarf auk þess bráðlega að fara í dýra skoðun. Í sept. s.l. heimilaði hæstv. þáv. dómsmrh. forstjóra Landhelgisgæzlunnar að leita tilboða í gæzluflugvélina TF-Sif með sölu fyrir augum og undirbúa kaup á annarri flugvél, sem henta þætti til gæzlustarfa. Jafnframt var heimilað að vinna áfram að útvegun tilboða í þyrlu af meðalstórri gerð. Litla þyrlan, TF-Eir, sem Landhelgisgæzlan í samvinnu við Slysavarnafélagið keypti árið 1965, hefur þrátt fyrir smæð sína, sem eðlilega setur henni mikil takmörk, reynzt afburða vel. Var því þegar árið 1967 leitað tilboða í stærri þyrlu, en vegna fjárhagsörðugleika, sem þá steðjuðu að, var kaupum frestað. Á s.l. ári var aftur farið að huga að kaupum, og niðurstaða þeirra athugana hefur orðið sú, að heppilegast mundi að kaupa meðalstóra þyrlu af gerðinni Sikorski 5–62. Má nú telja fullvíst, að slík þyrla í fullri skoðun og með öllum nauðsynlegum varahlutum fáist keypt á hagstæðu verði frá bandarísku strandgæzlunni, sem hefur notað slíkar þyrlur undanfarin ár við almenn gæzlustörf og gefizt mjög vel. Er endanlegt tilboð væntanlegt nú alveg á næstunni. Unnið hefur verið að útvegun á lánsfé til kaupanna, sem er fáanlegt með aðstoð Seðlabankans. Landhelgissjóður hefur nokkurt fé aflögu, og Slysavarnafélagið hefur fyrir hönd Björgunarskútusjóðs Austfjarða boðið framlag til kaupanna. Það má því fastlega gera ráð fyrir, að úr kaupum verði, og gæti þá þyrlan jafnvel komizt í notkun nú í sumar. Rétt er, að það komi fram, að áætlað er að reka áfram litlu þyrluna TF-Eir eins og verið hefur.

Eins og kunnugt er, sinnir Landhelgisgæzlan í verulegum mæli öryggisþjónustu fyrir fiskiskipaflotann. Fyrir þá þjónustu ekki síður en fyrir Landhelgisgæzluna sjálfa er tilkoma slíkrar þyrlu ómetanleg, en hún er m.a. sérstaklega útbúin til björgunarstarfa bæði yfir landi og sjó og er það öflugt tæki, að hún getur boðið veðrum byrginn. Um það blandast mönnum varla hugur, að þegar við Íslendingar nú stefnum að stórútfærslu fiskveiðilögsögunnar, þurfi henni að fylgja efling og endurskipulagning varðgæzlunnar. Þó kemur víst engum til hugar, að unnt verði að spanna svo víðáttumikið hafsvæði með stöðugrí gæzlu hvarvetna á svæðinu, heldur verði að leggja áherzlu á sem mestan hreyfanleika og viðbragðsflýti gæzlutækjanna. Mun því flugkostur Landhelgisgæzlunnar vafalaust gegna þar mikilvægu og vaxandi hlutverki í framtíðinni. Efling og endurnýjun á gæzlukosti Landhelgisgæzlunnar með framtíðarhlutverk hennar fyrir augum hefur verið og er til meðferðar í dómsmrn. og hjá Landhelgisgæzlunni, og eru þyrlukaupin, sem ég áðan nefndi, einn liður í þeim efnum.

Góðir hlustendur. Við lifum nú í þjóðfélagi, sem hefur tekið stórkostlegum breytingum á örfáum áratugum. Þetta breytingaskeið hefur fært íslenzku þjóðinni margt gott, en einnig margan vanda. Eitt þeirra vandamála, sem við höfum ekki farið alveg varhluta af, er vaxandi ofbeldishneigð hópa manna í þjóðfélögum viða um heim, þjóðfélögum, sem búið hafa við lýðræði og réttaröryggi. Einn angi þess vandamáls hefur birzt okkur þessa dagana í frásögn fjölmiðla af sprengiefnaþjófnaði nokkurra íslenzkra ungmenna og fyrirætlunum þeirra um notkun þýfisins til hermdarverka. Þó að manni kunni að finnast hugmyndir þessara ungmenna býsna ómótaðar og reyfarakenndar, þá endurspegla þær þó á sinn hátt það hugarfar, að ef aðstæður í þjóðfélaginu séu mönnum ekki að skapi, þá skulu þeir taka rétt sinn sjálfir með valdi í trássi við lög og reglur samfélagsins. Þó að ólíku sé saman að jafna, og það vil ég taka skýrt fram, þá hefur það þó í þessu sambandi jafnvel hvarflað að mér, að ungir ofstækismenn æstir af pólitísku ofstæki kunni meðfram að telja, að þeim sé ekki vandara um að taka rétt sinn sjálfir en bændum í Þingeyjarsýslu, sem jafnvel ýmsir löghlýðnir borgarar telja ekki ámælisverða fyrir að taka það, sem þeir töldu sinn rétt, með valdi. Þótt eins og ég áður sagði, hér sé mikill munur á, þá mættu menn þó í þessu sambandi gjarnan hugleiða það, að varúðar skyldu menn gæta í orðum og athöfnum, þegar annars vegar er réttaröryggið í landinu, ein af máttarstoðum okkar þjóðfélags.

Læt ég svo máli mínu lokið og þakka hlustendum áheyrn.