06.04.1971
Sameinað þing: 43. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1954 í B-deild Alþingistíðinda. (2205)

Almennar stjórnmálaumræður

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Í eldhúsdagsumr. er það vani að rifja upp það, sem gerzt hefur í stjórnmálum okkar á liðnu ári eða á lengri tíma. Venjulega hafa þessar umr. snúizt um efnahagsmál og atvinnumál að verulegu leyti, enda alltaf þar af nógu að taka. Að þessu sinni er þó eitt mál, sem ber hærra en öll önnur meðal stjórnmálamanna og þjóðarinnar í heild, en það er landhelgismálið. Um þetta mál var nýlega útvarpsumr. frá Alþ., en þrátt fyrir það vil ég gera það að umtalsefni með nokkrum orðum.

Við sem höfum alizt upp og starfað í fiskibæjum og fiskikauptúnum landsins, þekkjum sögu og þróun landhelgismálsins. Við þekkjum baráttu fiskimanna okkar við ofsafengna landhelgisbrjóta í marga áratugi. Við höfum ekki gleymt þeim, sem djarfast hafa barizt, og þeim, sem látið hafa lífið í þessum átökum. En saga þessa máls er þó fyrst og fremst sigrar lítillar þjóðar, sem oftast hefur verið sundurþykk, en í þessu máli hefur hún borið til þess gæfu að snúa bökum saman og átt eitt hjarta og eina sál.

Erlend togveiðiskip hikuðu ekki við að toga dögum saman á fjörðum inni um og fyrir síðustu aldamót. Frásögnin um brezka togarann, sem veiddi heila viku á Dýrafirði haustið 1899, er táknrænt dæmi um þá niðurlægingu, sem fiskimenn okkar urðu að þola. Þeirra eina vörn var að kæra til sýslumanns síns, sem brá þegar í stað við og hélt til Dýrafjarðar, fékk áraskip og reri út að togaranum við 6. mann. Landhelgisþjófarnir létu sér hvergi bregða og urðu þess valdandi, að bátnum hvolfdi með þeim afleiðingum, að þrír menn létu lífið, en sýslumaður og tveir manna hans björguðust aðframkomnir. Þessi frásögn og margar aðrar hafa lifað á vörum þjóðarinnar, haldið vöku hennar og hert hana í sókn til frekari aðgerða í þessu brýnasta hagsmunamáli hennar.

Við, sem stöndum að till. ríkisstj. um rétt Íslendinga til landgrunnsins og hagnýtingu auðæfa þess, munum vel okkar fyrri skoðanir og viljum í engu hvika. Hitt er okkur ljóst, að við höfum sjálfir gert till. um, að saman verði kvödd alþjóðaráðstefna, sem haldin verður fyrri hluta árs 1973 varðandi réttarreglur á hafinu, og eigum við ásamt 85 öðrum ríkjum sæti í undirbúningsnefnd þeirrar ráðstefnu. Okkur sem þjóð er nauðsyn á því að efla skilning og vináttu sem flestra þjóða á málstað okkar og tilveru sem sjálfstæðrar þjóðar án þess að afsala okkur rétti til einhliða útfærslu, ef annað þrýtur. Fari svo, að einhver þjóð eða þjóðir skipuleggi og framkvæmi stórauknar veiðar á fiskimiðum okkar, þá getur svo farið, að við neyðumst til að færa út fiskveiðilandhelgina fyrr en ráðstefna Sameinuðu þjóðanna verður haldin. Mörg ríki mundu skilja, að það væri gert í ýtrustu neyð. Það geta skapazt þau atvik, að útfærsla landhelginnar þurfi að eiga sér stað með litlum fyrirvara og þá alveg eins fyrr en till. stjórnarandstöðunnar gerir ráð fyrir eins og eftir þann tíma. Það er þess vegna, sem við í ályktun okkar viljum ekki löngu fyrir fram ákveða þann dag, sem útfærsla landhelginnar á að eiga sér stað. Það ber að harma, að stjórnarandstaðan hefur rofið samheldni í landhelgismálinu nú fyrir kosningar, en hitt er þó enn alvarlegra, ef það veikir málstað okkar í samskiptum við önnur ríki. Á þessu kjörtímabili hafa skipzt á skin og skúrir í atvinnu- og efnahagslífi þjóðarinnar. Í byrjun kjörtímabilsins varð mikið verðfall á öllum helztu útflutningsafurðum okkar, sem leiddi af sér samdrátt og nokkurt atvinnuleysi. En með því að bregðast skjótt og skynsamlega við þessum vanda samfara hækkandi verðlagi á flestum útflutningsafurðum okkar tókst fljótlega að snúa málinu við. Frá því að efnahagsaðgerðirnar voru gerðar í nóvember 1968, hefur staða sjávarútvegsins verið mjög hagstæð í flestum greinum hans. Þessi hagstæða þróun sjávarútvegsins hefur mjög aukið trú og bjartsýni á þessum stærsta atvinnuvegi okkar, sem í áratugi hefur verið hornsteinn efnahagslegs sjálfstæðis íslenzku þjóðarinnar.

Fyrir efnahagsaðgerðirnar hafði mjög dregið úr smíði fiskibáta, en um s.l. áramót voru í smíðum 68 fiskibátar innanlands, þar af 18 yfir 100 rúmlestir, 4 50–100 rúml. og 46 undir 50 rúml. Erlendis eru í smíðum 6 togarar, hver yfir 1000 rúmlestir, og eitt fiskiskip annað, 450 rúml. Samningar eru á lokastigi um smíði tveggja rúmlega 1000 rúml. togara innanlands, og unnið er að undirbúningi á smíði fjölmargra annarra fiskiskipa. Þá má einnig geta þess, að fjögur flutningaskip eru í byggingu, þar af eitt innanlands.

Á þessu kjörtímabili hefur Fiskveiðasjóður lánað út á fiskiskip 1646 millj. kr., og nú munu liggja fyrir beiðnir um lánsfé til fiskiskipa að upphæð 600 millj. kr., sem ekki hefur verið tekin afstaða til enn þá. Fiskveiðasjóður er ein sterkasta lánastofnun landsins, og mun láta nærri, að eigið fé hans séu 1400 millj. kr.

Á þessu kjörtímabili hafa verið stofnaðir tveir merkir sjóðir í sjávarútvegi. Annar er Stofnfjársjóður fiskiskipa, sem er deild við Fiskveiðasjóð Íslands, og er meginhlutverk sjóðsins að veita eigendum fiskiskipa aðstoð við að standa straum af stofnfjárkostnaði skipa sinna. Stofnfé sjóðsins er framlag ríkissjóðs, 134 millj. kr., en þau tvö ár, sem sjóðurinn hefur starfað, hafa fiskkaupendur greitt ákveðið gjald af fiskverði til sjóðsins, og hefur það numið þennan tíma um 10l0 millj. kr. Hinn sjóðurinn er Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins, og er hlutverk hans að draga úr áhrifum verðsveiflna, er verða kunna á útflutningsafurðum fiskiðnaðarins. Á því eina ári, sem gjöld til sjóðsins hafa verið reiknuð, árið 1970, hafa komið í sjóðinn um 400 millj. kr. Fiskimálasjóður, sem hefur það hlutverk að veita fé til rannsókna og nýjunga í þágu sjávarútvegsins, markaðsleitar fyrir sjávarafurðir og viðbótarstofnlána til fyrirtækja í sjávarútvegi, átti um síðustu áramót 138 millj. kr. eigið fé.

Það er eftirtektarvert, að á síðasta ári jókst verðmæti útfluttra sjávarafurða um rúmlega 2.3 milljarða frá árinu á undan eða úr 7763 millj. í 10081 millj. kr., og voru sjávarafurðir 78.2% af öllum útflutningi landsins, og er þá meðtalinn útflutningur álversins í Straumsvík. Þetta sýnir á glöggan hátt þá gífurlegu þýðingu, sem sjávarútvegurinn hefur í þjóðfélaginu og það mikla átak, sem gert hefur verið í fiskiðnaði landsins til þess að auka verðmæti sjávarafla. En þó að byr hafi verið hagstæður nú að undanförnu, þá megum við alltaf búast við áföllum, aflatregðu eða söluerfiðleikum, og megum því ekki eyða öllu jafnharðan, sem aflað er. Þess vegna hefur verið lögð áherzla á að efla stofnlánasjóði sjávarútvegsins og stofna nýjan sjóð til þess að geta mætt áföllum, sem yfir kunna að dynja.

Á þessum fáu mínútum, sem ég hef til umráða, get ég ekki rætt um fleiri atvinnugreinar. En þessi fáu orð um sjávarútveginn sýna annað en hv. stjórnarandstæðingar munu kyrja hér á eftir, því að ólíklegt tel ég, að þeir muni í þessum efnum breyta út af vana sínum. Þeir hafa í samfleytt 12 ár spáð hruni atvinnulífsins og séð algera stöðvun á næsta leiti. Hitt er staðreynd, að viða vantar fólk til starfa, þá alveg sérstaklega sjómenn. Það er enn fremur staðreynd, að kaupgeta almennings hefur verið með allra mesta móti. Lífsþægindi þessarar þjóðar eru ekki einkaeign nokkurra auðugra manna. Sem betur fer er flestum, sem geta unnið og eru heilir heilsu, gert kleift að búa við þau lífsþægindi, sem nútímaþjóðfélag býður þegnum sínum. Hins vegar má ekki ganga fram hjá því, að ellilaun og örorkubætur þyrfti að hækka miklu meira en raun ber vitni. Persónulega er ég þeirrar skoðunar, að fjölskyldubætur með einu barni mætti fella niður og það fé, sem við það sparaðist, ætti að nota til að hækka ellilaun og örorkubætur.

Ekki skal látið staðar numið að ræða um lífsafkomu almennings fyrr en minnzt hefur verið á þann aðstöðumun, sem er enn þá á því að búa í þéttbýli og strjálbýli. Þar hefur verið og er verið að gera mikið, en margt er ógert, sem verður að hraða. Sérstaklega vil ég minna á þær sveitir, sem ekki hafa fengið raforku, og þann aðstöðumun, sem er á menntun ungmenna í strjálbýli og þéttbýli.

Á s.l. ári var varið meira fé til rafvæðingar sveitanna en nokkru sinni fyrr, og á yfirstandandi ári er einnig varið miklu fé til þessara framkvæmda. Á þessum tveimur árum er talið, að 400 sveitabýli muni fá rafmagn frá samveitum. Framlög ríkisins til skólabygginga hafa hækkað gífurlega á fjárlögum þessa árs, og nema þau nú 466 millj. kr., en voru á s.l. ári 305 millj. kr. Framlag til byggingar barna- og gagnfræðaskóla hækkaði á þessu eina ári um 51% og framlag til héraðsskólanna um tæplega 50%, og eru þessi framlög miklu hærri til strjálbýlis en þéttbýlis.

Á þessum vetri hafa verið tilburðir uppi í þá átt að koma á vinstra samstarfi, og lék formaður Alþfl. þar eitt aðalhlutverkið. Það þótti heldur djörf leiksýning að boða á einn fund þm. Alþfl., Samtaka frjálslyndra og vinstri manna og Alþb., þegar ljóst var, að Alþb. eitt var klofið í þrjá hluta, enda urðu endalok þessara viðræðna eftir því, sem til var stofnað. Framsókn gamla fékk hins vegar ekki að taka þátt í þessum viðræðum og þótti súrt í broti, en ekki var hún samt með öllu látin í friði, því að vinstri menn buðu unglingadeild Framsóknar upp á einkaviðræður, sem enduðu með því, að unglingarnir eru nú til fóta hjá gamla manninum í Selárdal. En vinstri menn hefðu viljað vænsta klárinn gefa til að fá Karl Guðjónsson, en hvort hann verður Alþfl. til gæfu eða ekki, verður tíminn að leiða í ljós.

Það hefur aldrei verið stigið gæfuspor í íslenzkum stjórnmálum, þegar vinstri flokkarnir gera alvöru úr að ná saman. Það sanna betur en orð fá lýst klofningarnir í Alþfl. á sínum tíma, Hræðslubandalagið og síðast en ekki sízt vinstri stjórnin. Allir þessir tilburðir hafa endað með skelfingu. Það er staðreynd, sem verður ekki með rökum mótmælt, að Sjálfstfl. er sterkasta aflið í stjórnmálum Íslands, og þegar hann hefur haft forustu þjóðmálanna með höndum, hafa orðið miklar og stóvirkar framfarir í landi okkar. Sjálfstfl. hefur ávallt látið þjóðarhagsmuni sitja í fyrirrúmi, en ekki stundarhagsmuni flokksins, þó að á móti hafi blásið. Sjálfstfl. mun hér eftir sem hingað til halda ótrauður áfram að treysta grundvöll atvinnulífsins, því að traust atvinnulíf er aflgjafi framfara á öllum öðrum sviðum í þjóðlífi okkar. — Góða nótt.