06.04.1971
Sameinað þing: 43. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1957 í B-deild Alþingistíðinda. (2206)

Almennar stjórnmálaumræður

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Fyrir ríflega 7 árum, þegar Alþfl. hafði verið í stjórnarsamstarfi við Sjálfstfl. í meira en 4 ár, fengu Alþfl.-menn þessa áminningu frá fyrrverandi foringja sínum, Haraldi Guðmundssyni: „Þó að þið vinnið með íhaldinu, verðið þið vandlega að gæta þess að verða ekki íhaldsmenn sjálfir.“

Þessi óttamenguðu orð fyrrverandi foringja flokksins um áhrif íhaldssamstarfsins á hann voru ekki mælt að ófyrirsynju. Alþfl. hafði þá þegar tekið þátt í tveimur gengislækkunum, vaxtahækkun, afnámi verðlagsákvæða á fjölmargar vörutegundir, afnámi vísitölubóta á laun verkafólks, setningu gerðardómslaga á síldarsjómenn og hafði staðið að því að innleiða 3% söluskatt í smásölu á allar neyzluvörur almennings. Fjögurra ára reynsla af samstjórninni með Sjálfstfl. sýndi því vissulega, að orð hins aldna foringja Alþfl. voru ekki mælt að ástæðulausu.

Það er alkunna, að mjög misjafnt er, hversu fljótt breytt umhverfi hefur áhrif á menn. Sumir glata undrafljótt einkennum uppruna síns og draga dám af nýju umhverfi sínu, sem orkar til grundvallarbreytingar á afstöðu þeirra til mála. Til eru jafnvel alkunn dæmi um, að nokkurra vikna dvöl í útlöndum hafi breytt framburði manna á eigin móðurmáli. Er að undra, þótt náið samstarf við sér miklu sterkari andstæðinga í rúman áratug orki til áhrifa á pólitíska afstöðu til þjóðmála í ekki minna mæli?

Þegar Alþfl. var í upphafi stjórnarsamstarfsins við íhaldið að byrja að láta hafa sig til þess að koma fram stefnu Sjálfstfl., t.d. með lögfestingu 3% söluskatts á allar almennar nauðsynjavörur, ól hv. þm. Benedikt Gröndal t.d. enn með sér efasemdir um réttmæti þeirrar tilslökunar gagnvart íhaldinu, og hann sagði hér á hv. Alþ. 17. okt. 1961 með leyfi hæstv. forseta:

„Ekki svo að skilja, að við teljum núverandi skattakerfi vera fullkomið eða til langrar frambúðar. Söluskattarnir leggjast engan veginn eins rétt á landsfólkið og þeir ættu að gera, og þarf á næstu árum að kanna það mál ofan í kjölinn með vaxandi reynslu og gera nauðsynlegar breytingar. Sennilega verður að hafa fastan, lágan söluskatt á flestum eða öllum vörum, en síðan aðra söluskatta, sem leggjast með vaxandi þunga á vörur og þjónustu, eftir því hvað nauðsynlegar þær teljast hverju alþýðuheimili. Þannig á að leggja skatta á þá, sem hafa peninga til að veita sér eitt og annað í þjóðfélaginu, en hafa lítið sem ekkert á nauðþurftum heimilanna.“

Þegar Benedikt Gröndal mælti þessi orð var íhaldshreimurinn enn ekki svo mjög áberandi í pólitísku málfari hans. En algjör samstaða með íhaldinu allar götur síðan þessi orð voru mælt, hefur svo sannarlega kallað á aðrar athafnir en þau gáfu fyrirheit um. Í sama mánuði og Haraldur Guðmundsson aðvaraði Alþfl., í jan. 1964, samþykkti Alþfl. hækkun almenns söluskatts úr 3% í 5.5% og í desember á sama ári varð enn hækkun í 7.5%, og í janúar 1970 samþykkti Alþfl. með íhaldinu að hækka þennan neyzluskatt upp í 11%. Á sama tíma hafa tollar á lúxusvarningi verið stórlega lækkaðir, en sú tekjurýrnun ríkissjóðs er borin uppi af söluskattinum, sem nemur 3500 millj. kr. á ári og leggst þyngst á barnafjölskyldur og elli- og örorkulífeyrisþega. Þetta eru efndirnar á þeim orðum Benedikts Gröndals, sem hann lét falla um söluskatt, þegar enn mátti greina leifarnar af hreim jafnaðarstefnunnar í rödd hans.

Samtímis því að Alþfl. hefur undanfarin ár verið önnum kafinn við að aðstoða Sjálfstfl. við að koma fram stefnumálum íhaldsins, svo sem auknum neyzlusköttum, tilslökun í verðlagsmálum, sérstakri skerðingu á hlut sjómanna, svo að nemur 850 millj. kr. á ári og stórauknu launamisrétti í þjóðfélaginu, hafa varnargarðar þess fólks, sem erfiðast á í lífsbaráttunni, elli- og örorkulífeyrisþega og fátækra barnafjölskyldna, verið að bresta með rýrnun verðgildis tryggingabóta ár frá ári. Í útvarpsumr. fyrir nálega ári sýndi ég fram á það með ákveðnum dæmum, hversu stórlega hafði dregizt saman það magn nauðsynlegustu matvara, sem unnt var að kaupa fyrir mánaðarlegan elli- og örorkulífeyri og fjölskyldubætur. Augu almennings voru mjög greinilega að opnast fyrir því, hversu hrapallega hafði verið að þessum málum staðið, og í hugum margra staðfesti það íhaldsþjónustu Alþfl., að stjórnarflokkarnir fengust ekki til þess að hækka ellilífeyri um meira en 6.20 kr. á dag, þegar söluskattur var hækkaður í fyrra um 47% eða úr 7.5% í 11%. Þótt Alþfl. gripi til þess í kosningahræðslu sinni eftir alla íhaldsþjónkunina að láta Alþýðublaðið gefa út eftirfarandi 5 dálka tilkynningu: „Eggert lætur endurskoða tryggingarnar“, þá kom það ekki í veg fyrir stórfelldan kosningaósigur, einkum í Reykjavík.

Í umr. innan Alþfl. að þeim kosningum loknum staðfestu margir flokksmenn, að raunverulega var það komið fram, sem Haraldur Guðmundsson hafði varað við 6 árum áður. Samstarfið við íhaldið í áratug hafði leitt til þess, að þinglið Alþfl. fylgdi nú sjálfviljugt íhaldsstefnunni í smáu og stóru sem eigin stefnu. Þar féllu orðrétt þessir dómar: „Það hlýtur að vera meira en lítið að í sósíaldemókratískum flokki, þegar hann er að því kominn að verða óþekkjanlegur frá sjálfu íhaldinu.“ „Ein höfuðástæðan er, að launafólkið er hætt að treysta Alþfl.“ „Stór hluti þjóðarinnar er hættur að gera greinarmun á okkur og Sjálfstfl.“ Þetta var samkv. upplýsingum Alþýðublaðsins dómur ábreyttra fylgismanna flokksins um störf þingflokks hans s.l. áratug. Varnaðarorð Haralds Guðmundssonar höfðu komið fyrir ekki.

Í framhaldi af þessum dómum var á þingi flokksins í október s.l. samþykkt, að Alþfl. ætti að sjá um, að tryggingabætur hækkuðu frá 1. janúar 1971 um a.m.k. 20%. Efndirnar urðu svo þær, að bæturnar voru aðeins hækkaðar um 8.2%, og Alþfl. réð úrslitum um það, að fellt var að gera á fjárl. ráð fyrir meiri hækkun á þessu ári, enda þótt útgjöld fjárlaga væru í heild hækkuð um 3000 millj. kr. og þar á meðal gert ráð fyrir stórfelldum launahækkunum til þeirra starfsmanna ríkisins, sem mest höfðu launin fyrir. Samkv. því frv. um almannatryggingar, sem nú hefur verið afgreitt, eiga bótaupphæðir svo að vera óbreyttar allt til næstu áramóta. Alþ. það, sem nú situr, lætur aðeins það eftir sér að samþykkja hækkun bóta í orði, en varpar yfir á þá, sem málum stjórna um næstu áramót, að tryggja framkvæmd þeirra hækkana, sem frv. gerir ráð fyrir á næsta ári. Þrátt fyrir 20% hækkun elli- og örorkulífeyris á s.l. sumri eftir kosningaáfall Alþfl. og þar til viðbótar 8.2% hækkun um s.l. áramót og enn til viðbótar væntanlega 20% hækkun um næstu áramót rétt hangir í því, að lífeyririnn hafi þá náð hækkun á tímakaupi verkafólks, frá því er endurskoðun tryggingalaganna lauk árið 1962, og getur þá hver maður séð, hvað hefur verið haft af öldruðu fólki og öryrkjum á þeim áratug, sem á milli liggur.

Þeir, sem engar aðrar tekjur hafa, eiga að fá á næsta ári í viðbót við hinn almenna lífeyri 1120 kr. á mánuði. En þegar metnir eru raunverulegir möguleikar til þess að lifa af lífeyrinum, hvort sem er hinum almenna eða með viðbótinni, þá er ljóst, að hér er bitamunur en ekki fjár og hvort tveggja alls ófullnægjandi. Er þá á það að líta, að 11% af fjárhæðinni fer aftur í ríkissjóð í söluskatt. Hámarksellilífeyririnn á mánuði til þeirra, sem engar aðrar tekjur hafa, á að nema sem svarar 58% af þeirri upphæð, sem greiða má í húsaleigukostnað utanbæjarþm. hér í Reykjavík. Það segir svo sína sögu, að stjórnarflokkarnir hafa verið ófáanlegir til að falla frá þeirri tilhögun, að viðbót við venjulegan ellilífeyri til tekjulausra verði greidd af sveitarsjóði og með því settur sérstakur framfærslustimpill á þessar greiðslur, sem alls ekki mundi vera, ef þær væru greiddar á sama hátt og hinn almenni lífeyrir eins og við Alþb.-menn höfum lagt til.

Þegar svo er spurt, hvers vegna geta þessar síðbúnu bótahækkanir ekki komið nú þegar til framkvæmda, þegar ljóst er, hversu bætur hafa rýrnað jafnt og þétt undanfarin ár, þá er svarið: Það var ekki gert ráð fyrir hækkunum á fjárlögum ríkisins eða á fjárhagsáætlunum sveitarfélaganna. En hvers vegna var það ekki gert? Vegna þess að stjórnarflokkarnir felldu það sjálfir: Þeir minnast hins vegar ekki á það, að þegar bæturnar voru hækkaðar um 20% eftir kosningaósigur Alþfl. s.l. sumar, hafði ekki fremur verið gert ráð fyrir fjárveitingum til þess á fjárl. eða fjárhagsáætlunum. Á það má líka minna, að 27. nóvember 1961 voru samþ. lög um hækkun tryggingabóta, þannig að sú hækkun kom strax til framkvæmda og gilti nær hálft ár aftur í tímann. Þetta var unnt með þeim hætti að heimila Tryggingastofnuninni að taka bráðabirgðalán, eftir því sem nauðsyn krafði, og síðan var á næstu fjárl. gert ráð fyrir nauðsynlegum framlögum til að greiða lánið. En þá hafði Alþfl. aðeins verið skamman tíma í íhaldsþjónustunni og hafði ekki á eins reiðum höndum og nú rök íbaldsins gegn því, að bótahækkanirnar kæmu strax til framkvæmda.

Flokksþing Alþfl. fól þingflokki sínum ekki aðeins að fá tryggingabætur hækkaðar á s.l. áramótum um a.m.k. 20% með þeim árangrí, sem nú er öllum ljós, heldur var einnig samþykkt eftirfarandi með leyfi hæstv. forseta:

„Gildandi reglur um skattgreiðslur einstaklinga verði endurskoðaðar í því skyni að lækka beina skatta á almennum launatekjum, hækka persónufrádrátt og tryggja, að sömu skattar séu lagðir á sömu tekjur og herða baráttu gegn skattsvikum.“

Efndirnar varðandi þetta verkefni eru svo með þeim hætti, að þinglið Alþfl. hefur léð Sjálfstfl. atkv, sín til þess að koma fram margs kyns skattaívilnunum handa fyrirtækjum, en með þeirri einu og sérstæðu breytingu að gera allt að 30 þús. kr. hjá einstaklingi og 60 þús. kr. hjá hjónum skattfrjálsar, ef um er að ræða arð af hlutabréfum. Efndir Alþfl. á þeirri samþykkt að tryggja, að sömu skattar séu lagðir á sömu tekjur, eins og það var orðað, eru sem sagt þær að koma á tvenns konar persónufrádrætti, sérstökum fyrir launamenn vegna tekna, sem unnið er fyrir hörðum höndum, og sérstökum fyrir hlutabréfaeigendur, þar sem gert er ráð fyrir 60 þús. kr. skattfrjálsum tekjum hjá hjónum, ef þær eru arður af hlutabréfum. Við skulum hugsa okkur, að verkamaður í frystihúsi vildi nú með því að lengja vinnutíma sinn reyna að afla sér viðbótartekna, sem næmu, eftir að skattar hefðu verið greiddir af þeim, sömu upphæð og hlutabréfaeigandinn fær skattfrjálsar. Þessar tekjur kæmu ofan á aðrar launatekjur hans og væru því skattlagðar um nálægt 50%. Hann þyrfti þá að vinna sér inn aukalega 120 þús. kr. til þess að halda jafnmiklu eftir og hlutabréfaeigandinn. Hvað mundi það kosta verkamanninn mikla vinnu að afla sér þeirrar upphæðar? Við skulum reikna með eftir- og næturvinnu að jöfnu og meðaltímakaupi 136.60 kr. Hann þyrfti þá að vinna 878 klst. eða 3 klst. og 20 mín. fimm daga vikunnar hverja einustu viku allt árið um kring. Þetta er líklega það, sem Alþfl. kallar í samþykktum sínum að tryggja, að sömu skattar séu lagðir á sömu tekjur.

Eitt er víst, að ekkert fyrirtæki hefur gefið forréttindastéttunum í þjóðfélaginu jafngóðan arð á undanförnum árum og valdasamsteypa Sjálfstfl. og Alþfl. hér á hv. Alþ. Skattinn hefur svo launafólkið mátt borga. — Góða nótt.