06.04.1971
Sameinað þing: 43. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1991 í B-deild Alþingistíðinda. (2213)

Almennar stjórnmálaumræður

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Það er rangt, sem hæstv. ráðh. Ingólfur Jónsson sagði, að stjórnarandstaðan hefði verið andvig verðstöðvun. Alþb. flutti frv. um verðstöðvun þegar í þingbyrjun. En Alþb. vildi raunverulega verðstöðvun, en ekki sýndarverðstöðvun, sem auglýst var af forsrh. með þriggja vikna fyrirvara í sjónvarpi, til þess að þeir, sem vildu hækka, fengju tækifæri til þess.

Hæstv. dómsmrh. Auður Auðuns taldi það til marks um ábyrgðarleysi, að stjórnarandstæðingar skyldu vilja láta smávægilega kauphækkun til aldraðs fólks og öryrkja, tæpar 1000 kr. á mánuði, koma til framkvæmda strax án þess að flytja till. um fjáröflun. Það hefur aldrei staðið á stjórnarandstæðingum að tryggja fjáröflun til þessara þarfa. Hins vegar varð þess ekki vart, að ráðh. teldi nokkurn vanda að útvega fjármagn, þegar kaup æðstu embættismanna var hækkað upp í 60–70 þús. kr. á mánuði eða þegar laun ráðh. voru hækkuð upp í hálfa aðra millj. kr. á ári. Þjóðartekjur á mann á íslandi eru nú einhverjar þær hæstu í heimi, og það eru ekki sæmandi rök hjá ráðh. að halda því fram, að þetta þjóðfélag hafi ekki efni á að greiða þeim, sem við erfiðust kjör búa, meira en svipaða upphæð á mánuði og ráðh. hefur á dag. Mér þóttu það einnig ákaflega ósæmileg ummæli hjá dómsmrh., þegar Auður Auðuns taldi sprengiefnisþjófnað og óra nokkurra unglinga vera áhrif frá baráttu bænda í Þingeyjarsýslu, sem risið hafa gegn valdníðslu stjórnarvalda. Þessi ummæli Auðar Auðuns eru til marks um það pólitíska ofstæki, sem einkennir því miður marga ráðamenn Sjálfstfl. og ýtir að sjálfsögðu undir ofstæki hjá öðrum.

Þegar ráðh. eru komnir upp í 1.5 millj. í árstekjur, er hætt við, að þeir missi öll eðlileg tengsl við þjóðfélag sitt. Ræða. Gylfa Þ. Gíslasonar áðan bar þess merki, að hann er orðinn einangraður frá umhverfi sínu. Hann talaði fjálglega um þann tekjujöfnuð, sem tryggingarnar hefðu haft í för með sér, án þess að leiða hugann að því, hvernig menn eiga að fara að því að draga fram lífið á 5 þús. kr. á mánuði. Hann talaði um jafnrétti til menntunar, þótt hann hafi sjálfur á þessu þingi fellt allar till. um aðgerðir til þess að tryggja aukinn jöfnuð á því sviði. Hann talaði meira að segja um það sem merkilegt nýmæli í stefnu Alþfl. að berjast fyrir því að koma í veg fyrir mengun, þótt hann sé nýbúinn að leggja blessun sína yfir einu álbræðsluna í heimi, sem fær að spýja óhreinsuðu eiturlofti yfir umhverfi sitt.

Björn Jónsson taldi áðan, að forusta alþýðusamtakanna hefði ekki haldið á málstað verkafólks af nægilegri djörfung og festu. Undir það munu margir taka. En skyldi það ekki m.a. stafa af því, að á síðasta Alþýðusambandsþingi fengu stjórnarflokkarnir tækifæri til þess að kjósa forseta og varaforseta, sem þeir höfðu velþóknun á. Tilgangur stjórnarflokkanna með því að velja þá Hannibal Valdimarsson og Björn Jónsson til þeirra trúnaðarstarfa var að reyna að sundra alþýðu manna, bæði í kjarabaráttu og stjórnmálabaráttu. Og Björn Jónsson var því hlutverki trúr í ræðu sinni áðan.

Karl Guðjónsson, sem talaði hér áðan sem aukaræðumaður Alþfl., fór mjög hörðum orðum um stjórnarandstöðu Alþb. Karl sat í þingflokki Alþb. í þrjú ár á þessu kjörtímabili. Á þessu tímabili flutti hann ekki eina einustu till. um aðra stefnu en þá, sem Alþb. hefur fylgt, hvorki um EFTA né annað.

Hann gerði ekki ágreining í þingflokknum um eitt einasta málefni. Djörfung hans var ekki meiri en svo, að þegar atkv. voru greidd um EFTA, lét hann sér nægja að hverfa úr þingsalnum án þess að láta uppi hvers vegna. Karl er ekki maður, sem vill breyta starfsaðferðum Alþb. Hann er á flótta frá grundvallarskoðunum Alþb. Fyrst flýði hann á náðir Hannibalista og hefur verið í þeirra röðum í vetur. Nú er hann flúinn til Alþfl. Hafi einhver frekari áhuga á ferli hans, getur hann velt því fyrir sér, hvar hann muni skjóta upp kollinum næst.

En þannig er nú dansað á hinu pólitíska leiksviði. Fram undan er einn þeirra sjaldgæfu daga, þegar landsmenn sjálfir fá að skera úr með atkvæðum sínum. Næstu mánuðina munu stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn stíga í vænginn við kjósendur, reyna að troða skóinn hver niður af öðrum, en reyna að gera sinn hlut sem beztan. Ég vona einnig, að næstu mánuði hugsi kjósendur ráð sitt á sjálfstæðan hátt, vegi og meti áróðurinn sem óháðir einstaklingar. Ég hef einmitt trú á því, að þetta muni gerast í ríkum mæli í kosningunum í sumar, að úrslitin séu óráðnari en þau hafa verið áratugum saman. Kjósendur eru ekki jafnbundnir fyrri afstöðu og þeir hafa verið. Mjög margir eru að skoða hug sinn og hyggja á breytingar. Þetta aukna sjálfstæði landsmanna hefur verið að þróast árum saman. Það birtist á afar eftirminnilegan hátt í síðustu forsetakosningum og hefur síðan einkennt stjórnmálabaráttuna í vaxandi mæli. M.a. hefur verið mikil ókyrrð innan allra stjórnmálaflokka. Við Alþb.-menn fórum sannarlega ekki varhluta af henni, en sveitarstjórnarkosningarnar í fyrra sönnuðu, að flokknum hefur tekizt að yfirstíga þá örðugleika, og hann er nú í öflugri sókn á nýjan leik. Það sama verður ekki sagt um aðra flokka. Innan Sjálfstfl. fer fram mjög illvíg, persónuleg valdabarátta, sem enginn sér fyrir endann á. Sú barátta snýst ekki um stefnumið og hugsjónir, heldur um persónuleg völd og aðstöðu ýmissa sérhagsmunahópa í þjóðfélaginu. Meðan þessi valdabarátta er óútkljáð, er Sjálfstfl. í þeirri aðstöðu, að enginn veit, hvaða einstaklinga og hvaða hagsmunahópa hann er í raun og veru að styrkja með því að kjósa hann.

Innan Framsfl. er meiri órói en verið hefur í 3-4 áratugi. Mikilvægar stofnanir flokksins hafa klofnað opinberlega, og ungir menn í hans röðum hafa lýst yfir því, að tímabært sé að leggja flokkinn niður, enda leyndi sér ekki hin sára viðkvæmni í ræðu Einars Ágústssonar hér áðan.

Eftir sveitarstjórnarkosningarnar í fyrra var uppreisnarástand innan Alþfl. Fjölmennur fundur í Alþýðuflokksfélagi Reykjavíkur krafðist þess, að bundinn yrði endir á stjórnarsamvinnuna, meðal annars til þess, að landsmenn fengju að vita, að það væri einhver munur á sósíaldemókrötum og íhaldi. Gylfi Þ. Gíslason hefur haft þessa afstöðu óbreyttra flokksmanna að engu, og hann kom m.a. í veg fyrir það af ótta við dóm kjósenda, að þjóðin fengi að velja sér nýtt þing í fyrrahaust, svo að hann gæti notið sætleika stjórnarsamvinnunnar fram á síðustu stund. Við heyrðum hann áðan flytja með innantómri mærð lofsöng um viðreisnarstefnuna. En hann getur ekki komið í veg fyrir það, að það verður kosið 13. júní.

Það tekur því naumast að minnast á Hannibalista í þessu sambandi. Þeir hafa síðustu árin verið á stanzlausu uppboði á markaðstorgi hégómans, en tilboðin hafa stöðugt farið lækkandi. Nú er ástandið þannig innan þeirra raða, að meira að segja Karl Guðjónsson er flúinn af hólmi, eins og hann lýsti hér áðan, og það er til marks um afstöðuna innan samtakanna, að hann hleypur beint í viðreisnarliðið á náðir Gylfa Þ. Gíslasonar.

Allt sýnir þetta, að íslenzk stjórnmál eru nú í deiglunni, og reynslan á eftir að sanna, hvað brennur upp og hvað skírist í þeirri deiglu. Þess vegna hefur órói forustumannanna aldrei verið þvílíkur sem nú. Þjóðinni er boðið upp á stanzlausa pólitíska fimleika. Gylfi Þ. Gíslason á í viðræðum um vinstri samvinnu á sama tíma og hann er í stjórn með íhaldinu. Hannibalistar bjóðast í sífellu til að leggja flokk sinn niður og sameinast hverjum þeim, sem vill tryggja þeim þingsæti. Ungir framsóknarmenn bjóðast einnig til að leggja sinn flokk niður og sameinast Alþfl. og Hannibalistum. Allt eiga þetta að vera leiðirnar til þess að styrkja stöðu vinstri hreyfingar á Íslandi, eins og það er orðað. En vinstri hreyfing verður ekki styrkt með neinum pólitískum loddarabrögðum eða endalausu samningamakki svokallaðra forustumanna bak við luktar dyr. Ef við viljum efla félagsleg samtök launamanna og sósíalista, verður ein nauðsyn ekki umflúin: Við verðum að koma upp einum samhentum, öflugum fjöldaflokki, sem heyr þessa baráttu dag hvern. Án slíks flokks verður barátta okkar öll í molum og sérhagsmunamennirnir í Sjálfstfl. halda áfram að deila og drottna. Við vitum þetta af okkar eigin reynslu, og við vitum þetta einnig af reynslu annarra þjóða í nágrenni okkar. Í öllum löndum Vestur-Evrópu eru öflugir verkalýðsflokkar, sem kalla sig mismunandi nöfnum og eru mismunandi dugandi, en eiga það sameiginlegt, að þeir eru vopn launamanna í kjarabaráttu, vopn félagshyggjumanna í jafnréttisbaráttu, sá bakhjarl, sem alþýða manna hefur til að vernda hagsmuni sína. Þeir hafa tryggt sér þau þjóðfélagslegu völd, sem ein skera úr, þegar á reynir. Ef við höfum ekki öflugan, samhentan sósíalískan verkalýðsflokk, geta stjórnmálamennirnir breytt kjarasamningum launafólks í haldlaus pappírsgögn um leið og þeir þurfa á því að halda, eins og dæmin sanna. Sóknarlotur fyrir jafnrétti til mennta, auknu jafnrétti þegnanna, karla og kvenna, fyrir þjóðlegum metnaði og reisn í skiptum við útlendinga verða aðeins skammvinn upphlaup, ef ekki er öflugur stjórnmálaflokkur að bakhjarli. slíkur flokkur verður ekki búinn til með samningamakki einhverra pólitíkusa. Hann verður aðeins búinn til af fólkinu sjálfu, launamönnum og félagshyggjumönnum.

Alþb. hefur sett sér það mark að vera slíkur flokkur, og Alþb. hefur alla burði til þess að geta orðið slíkur flokkur. Það á öflugar rætur í verkalýðshreyfingunni og öðrum samtökum launafólks og lítur á það sem meginverkefni sitt að tryggja hagsmuni launamanna. Alþb. er eini flokkurinn, sem býður óhvikula, félagslega stefnu sem valkost gegn sérhagsmunastefnu Sjálfstfl. Alþb. er eini flokkurinn, sem hefur að markmiði jafnan rétt þegnanna, jafnrétti til menntunar, jafnrétti til starfa og launa, hvort sem þeir vinna líkamlega eða andlega vinnu. Jafnan rétt karla og kvenna. Alþb. er nútímalegur og víðsýnn sósíalískur flokkur, óháður gömlum deilum og kreddum innan verkalýðshreyfingarinnar, flokkur, sem tryggir öllum félagshyggjumönnum rúm innan samtaka sinna, hvað sem ágreiningi þeirra kann að líða. Ég segi, að Alþb. sé slíkur flokkur, en ætti raunar heldur að segja, að það vilji vera það. Hvort það tekst, er undir því komið, hvort Alþb. fær það fylgi, þau félagslegu völd, sem það þarf á að halda. Ef fjöldafylgi kemur ekki til, verða hugsjónir flokksins fyrst og fremst frómar óskir, sem ekki breytast í veruleika. Til þess að óskirnar breytist í raunveruleika, þarf að koma til svo mikill þjóðfélagslegur styrkur, að ekki verði undan því komizt að taka tillit til hans. Allt er þetta annað og meira en dagdraumar mínir. Ég veit, að þetta er nú umhugsunarefni þúsunda manna, sem áður hafa kosið aðra flokka eða ganga nú að kjörborðinu í fyrsta skipti. Ég veit, að viðhorf manna til Alþb. er ná opnara en nokkru sinni fyrr, að okkur eru stöðugt að bætast nýir samherjar, að hjá okkur er nú vaxtarbroddurinn í íslenzkum stjórnmálum.

Það geta orðið veruleg umskipti í kosningunum í sumar, tímamót í stjórnmálabaráttunni á Íslandi. Það er komið undir öllum þeim, sem nú eru að hugsa ráð sitt og munu gera upp hug sinn næstu mánuði. Umskipti, segi ég, en þó er mér fjarri að bjóða gull og græna skóga. Við munum næstu mánuði heyra í mönnum, sem bjóða einfaldar lausnir, sem telja sig geta læknað stórfelld þjóðfélagsleg mein með einu pennastriki. En slíkar lausnir eru engar til. Vandamálin verða aðeins leyst með þrautseigu, pólitísku starfi flokks, sem hefur nægilegt fylgi að bakhjarli. Hins vegar brenna þessi vandamál á okkur, og það verður að taka á þeim af fullri festu. Má ég í lokin minna á nokkur þeirra.

Á Íslandi er nú meiri efnahagslegur glundroði en í nokkru öðru þjóðfélagi með hliðstæða afkomu. Á einum áratug hefur gengi krónunnar verið fellt fjórum sinnum. Hér hefur verið einhver mesta óðaverðbólga í víðri veröld, og afleiðingin er sú, að alþjóðlegar skýrslur herma, að hér fari miklu fleiri vinnudagar forgörðum í átökum um kaup og kjör en í nokkru öðru þjóðfélagi. Vegna kosninganna er reynt að fela þessa staðreynd með svokallaðri verðstöðvun, en 1. september í haust lýkur henni, og þá er stefnt að nýrri sprengiþróun.

Efnahagslegur glundroði af þessu tagi er ekki aðeins háskalegur þegnum landsins sem einstaklingum, heldur ógnar hann framtíð þjóðfélagsins, trú manna á það, að við megnum að stjórna landi okkar. Við höfum heyrt og eigum eftir að heyra margar einfaldar lausnir á þessum vanda. En raunveruleg lausn er aðeins ein: Öflugur flokkur launamanna, sem getur verndað árangur kjarabaráttunnar, flokkur, sem verður sú kjölfesta, sem ein getur tryggt festu og öryggi í atvinnumálum og efnahagsmálum.

Óvíða í heiminum er jafnréttistilfinning manna jafnrík og hér. Þrátt fyrir margháttað efnahagslegt og félagslegt misrétti líta flestir Íslendingar réttilega svo á, að þeir séu allir jafningjar og eigi að vera það. En einmitt nú er verið að reyna að breyta þessu viðhorfi með erlendri fyrirmynd. Síðustu árin hefur verið lögð áherzla á að margfalda launamismun hér á landi og koma upp sérstakri láglaunastétt. Ráðh. Alþfl. og Sjálfstfl. hafa eins og ég sagði áðan tryggt sér árslaun, sem nema 1.5 millj. kr. fyrir utan alla bitlinga, og eru þeir þó lítilsmegandi í samanburði við ýmsa fésýslumenn, sem vaða í peningum án þess að borga nokkra umtalsverða skatta. Á sama tíma er almennt verkamannakaup um 16 þús. kr. á mánuði, og aldrað fólk og öryrkjar eiga að lifa á tæpum 5 þús. kr. á mánuði, dagkaupi ráðh. Ef þessi stefna fær að festast í sessi, breytist þjóðfélag okkar í grundvallaratriðum. Eina leiðin til að hnekkja þessari stefnu og brjóta láglaunakenninguna á bak aftur er félagsleg samtök launafólks, öflugur stjórnmálaflokkur, sem hefur að leiðsögn hugsjónir jafnréttis og bræðralags.

Við Íslendingar erum örsmá þjóð, sem reynir að halda velli meðal milljónaríkja. Til þess þurfum við ekki aðeins efnahagslegan styrk, heldur þjóðlega reisn, andlega sjálfsvirðingu. Þennan heilbrigða metnað lítillar þjóðar er nú reynt að brjóta niður á öllum sviðum. Valdhafarnir bugta sig og beygja fyrir hverjum erlendum valdaaðila, hvort sem hann vill nýta land okkar undir herstöðvar, nota orkulindir okkar í sína þágu eða færa sér í nyt það láglaunasvæði, sem verið er að festa í sessi á Íslandi. Svo lítilla sanda og lítilla sæva eru valdhafarnir, að þeir þora ekki að taka ákvörðun um stækkun landhelginnar í a.m.k. 50 mílur og nýja mengunarlögsögu, þrótt þeir hljóti að sjá, eins og allir aðrir, að framtíð þjóðfélagsins er undir því komin, að okkur takist að vernda fiskimiðin. Það er auðvelt að setja saman fögur orð eins og Matthías Bjarnason, en í ákvörðuninni skal manninn reyna. Heimóttarskapur stjórnarþm., og þeirra á meðal Matthíasar Bjarnasonar, stafar einvörðungu af því, að þeir vilja ekki styggja voldugar vinaþjóðir, eins og þeir komast að orði. Fái uppgjafarstefna þeirra að ríkja, munum við smátt og smátt renna inn í stóra heild, þar sem aðrir ráða fyrir okkur og setja vaxandi svipmót á þjóðfélag okkar. Óhjákvæmilegt sjálfræði okkar verður aðeins tryggt með sterkum stjórnmálaflokki, sem berst ekki aðeins fyrir jafnrétti þegnanna, heldur og fyrir jafnrétti þjóðarinnar í samskiptum við aðra, flokki, sem lætur félagslega jafnaðarstefnu og þjóðlega sjálfsvirðingu sameinast í einum farvegi.

Þannig er sama, hvar skyggnzt er um í þjóðfélagi okkar. Hvarvetna blasa við sömu valkostirnir. Annars vegar hin félagslega stefna Alþb., sem hefur að leiðarljósi mannleg sjónarmið, siðferðilegt mat. Hins vegar stefna valdhafanna í Sjálfstfl., sem líta á gróða og sérhagsmuni sem hreyfiaflið í þjóðfélaginu og vilja hafa erlent fjármagn að bakhjarli í stað þjóðlegrar samheldni. Í þessum andstæðum kristallast stjórnmálaátökin á Íslandi. Þetta eru þau meginsjónarmið, sem menn verða að vega og meta og taka afstöðu til. Vilji menn forðast vandann og kjósa einhver óljós og loðin millisjónarmið, já-já og nei-nei, eru þeir aðeins að auðvelda valdhöfunum leikinn. Eftir næstu kosningar mun styrkur Alþb. skera úr um þróunina, hvort sem Alþb. verður innan stjórnar eða utan. Sú ákvörðun er í höndum kjósenda, þeirra þúsunda manna, sem nú eru að endurskoða afstöðu sína eða ganga að kjörborðinu í fyrsta skipti, allra þeirra, sem finna, að nú geta orðið tímamót í íslenzkum stjórnmálum. Nú er hægt að framkvæma breytingar. Þökk fyrir áheyrnina. — Góða nótt.