06.04.1971
Sameinað þing: 43. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 2001 í B-deild Alþingistíðinda. (2215)

Almennar stjórnmálaumræður

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Heiðruðu hlustendur. Ég er sammála síðasta ræðumanni, Braga Sigurjónssyni, um það, að pólitík sé eitt af því, sem ekki verði hjá komizt að sinna í lýðræðisríki. En ég vil minna hann á, að pólitík er margs konar. Það er til góð pólitík, og það er til vond pólitík. Þessum hv. þm. vil ég hins vegar segja það, að undanfarinn áratug hefur verið rekin vond pólitík af þeim, sem mestu hafa ráðið, ekki sízt á þeim sviðum, sem varða félagsleg réttindi og jöfnuð landsmanna.

Ræða Gylfa Þ. Gíslasonar hér í kvöld, m.a. um ágæti stjórnarhátta síðasta áratugar, rifjar upp fyrir mér ummæli gamals baráttumanns Alþfl. frá fyrri árum, fyrrv. alþm. og ritstjóra Alþýðublaðsins, sem kvað upp úr með það í blaðagrein fyrir nokkrum vikum, að það væri nánast guðlast að tala um velferðarríki á Íslandi. Sjálfsagt mun ýmsum hafa þótt fullfast til orða tekið, enda hefur því óspart verið haldið að mönnum, að velferð og framfarir séu umfram allt einkenni nýliðins áratugar, og var það meginuppistaðan í ræðu Gylfa Þ. Gíslasonar og Braga Sigurjónssonar, sem hér var að ljúka máli sínu.

Við skulum athuga þetta nokkru nánar. Ef velferð merkir jöfnuð og jafnrétti, þá er sannarlega ekki af miklu að státa í þeim efnum umfram það, sem áður var. Þvert á móti hefur beinlínis sótt mjög í ójafnaðarátt í íslenzku þjóðfélagi undanfarinn áratug og lítil sem engin viðleitni sýnd til þess að eyða eða draga úr ýmsu misrétti, sem þó blasir við allra augum. Núverandi ríkisstj. er m.a. studd af stjórnmálaflokki, sem á hátíðlegum stundum kallar sig flokk jafnaðarmanna. slíkt er þó öfugmæli. Alþfl. hefur ekki sýnt það á valdaferli sínum með Sjálfstfl. í 12 ár, að jafnréttismál séu honum öðrum málum hugleiknari, hvað þá að hann sé öðrum flokkum fremri á þessu sviði. Hafi svo einhvern tíma verið, þá heyrir það fortíðinni til. Að vísu hefur lengst af þessum 12 árum verið úr allmiklu að moða frá efnahagslegu sjónarmiði séð, og fjarri fer því, að þjóðin hafi þolað hungur og klæðleysi. En það breytir ekki þeirri staðreynd, sem ég hef leyft mér að benda á, að hér á landi hefur ekki verið rekin jafnaðar- og jafnréttisstefna síðustu 10–12 ár, heldur andstæða hennar, sú stefna, að hver maður skuli skara eld að sinni köku og hrifsa til sín allt, sem hann fær höndum undir komið. Þess vegna er hvarvetna að finna dæmi um misrétti, um aðstöðumun þrátt fyrir lífsþægindakapphlaup og girnilegt yfirborð sýndarvelmegunar, sem forustumenn Alþfl. eru greinilega blindaðir af.

Misréttið kemur fram í ýmsum myndum. Alls kyns mismunun á sér stað á ótal sviðum þjóðlífsins. Það birtist m.a. sem launamismunun, ranglæti í skattaálagningu, aðstöðumunur til náms eftir búsetu og efnahag, mismunun á sviði samgöngumála og að því er varðar flutninga og flutningsgjöld innanlands og frá útlöndum, mishátt rafmagnsverð, staðnað almannatryggingakerfi og alvarleg mismunun í sambandi við læknisþjónustu og önnur heilbrigðismál. Þannig mætti lengi telja. Ef litið er til launamála og kjaramála almennings yfirleitt, blasir við sú ískyggilega staðreynd, að launamismunur fer vaxandi og ákaflega margt er gert, bæði beinlínis og óbeinlínis, til þess að ýta undir tekjumismun og þá tilhneigingu til stéttaskiptingar, sem hann veldur. Launamismunur getur að vísu átt fullan rétt á sér, en vafasamt er, hvort vaxandi launamismunur hér á landi eigi sér að öllu eðlilegar forsendur. Hætt er við, að hann stafi að nokkru af hneigð til þess að apa eftir erlendar fyrirmyndir, auk þess sem ég leyfi mér að efast um, að mat á störfum í sambandi við kaupgreiðslur í landinu sé rétt. Það hlýtur til að mynda að vera hverjum hugsandi manni áhyggjuefni, hversu launa- og starfskjör framleiðslustéttanna í þjóðfélaginu eru yfirleitt léleg samanborið við aðstöðu ýmissa þeirra, sem vinna önnur störf. Sjómenn, verkamenn og bændur eru undirstaða þjóðfélagsins. Íslenzkt þjóðfélag er og verður um langa framtíð að meginundirstöðu þjóðfélag fiskimanna og bænda. Þegar við Íslendingar erum að spila okkur eins og við byggjum í einhverju iðnríki á evrópskan mælikvarða, þá erum við að blekkja sjálfa okkur og látast ekki skilja einföldustu staðreyndir. Til þess ber brýna nauðsyn að móta nýja heildarstefnu í launa- og kjaramálum. Sú stefna á að hafa aukinn jöfnuð að aðaltakmarki, en byggjast annars á réttu mati á störfum hinna ýmsu starfshópa, þar sem sérstakt tillit verði tekið til mikilvægis þeirra, sem vinna framleiðslustörfin á sjó og landi. Verði það ekki gert, mun stefna í ófæru. Fleiri og fleiri munu yfirgefa framleiðslustörfin. Það yrði m.a. æ erfiðara að manna fiskiskipin góðum sjómönnum. Þetta er alvörumál, sem ekki verður leyst með öðru en því, að sjómannastéttin sé hátt launuð og að henni búið að öðru leyti í samræmi við eðli þeirra starfa, sem hún innir af hendi, þar sem fullt tillit sé tekið til erfiðis, slysahættu, vosbúðar og langra fjarvista frá heimili og ástvinum.

Almannatryggingar hafa mjög verið í sviðsljósi undanfarna daga vegna frv, ríkisstj. um það efni. Þegar það spurðist út fyrir nokkrum mánuðum, að almannatryggingalögin væru í endurskoðun, mun það hafa vakið vonir hjá ýmsum um, að sú endurskoðun yrði rækileg og næði til grundvallarþátta almannatrygginganna. Það er nú ljóst, að endurskoðunin er næsta ófullkomin, enda ekki gerðar neinar grundvallarbreytingar á almannatryggingakerfinu. Lítil sem engin tilraun er gerð til þess að endurmeta tryggingakerfið og markmið þess í ljósi nýrra viðhorfa, m.a. með tilliti til þess að jafna þann mikla mun, sem er á framfærslutekjum aldraðs fólks eftir því, hvort það er í sérstökum lífeyrissjóði eða verður að láta sér nægja hinn nauma ellilífeyri samkv. almannatryggingum. Framsóknarmenn leggja höfuðáherzlu á, að úr þessu verði bætt og hafa borið fram ýmsar till. og ábendingar, sem mættu verða til úrbóta, en ríkisstj. gerir ýmist að fella þær eða láta sem þær séu ekki til.

Dómsmrh. kallaði till. okkar yfirboð, en flokksbróðir ráðh., Matthías Bjarnason, viðurkenndi hins vegar réttmæti málflutnings okkar með því að segja, að elli- og örorkulaun þyrftu að hækka meira. En hvorki þessi hv. þm. né aðrir félagar hans hafa haft þrek til þess að beita sér fyrir slíku réttlætismáli á þessu þingi. Og þess má minnast, að Alþfl. hefur farið með tryggingamálin allan þann langa tíma, sem núverandi stjórnarsamsteypa hefur setið að völdum. Alþfl. hefur með eindæma frekju reynt að berja það inn í höfuðið á mönnum, að hann einn sé flokkur almannatrygginga. Slíkt er þó fjarri öllu lagi í raun og veru. Alþfl. má nú fremur kalla mesta afturhaldsflokk í tryggingamálum hér á landi. En auðvitað viðurkenna Alþfl.-menn það ekki, enda sagði Gylfi Þ. Gíslason sjálfur hér áðan, að fáir viðurkenni afturhaldssemi sína.

Það skyldu menn einnig muna, að margir aðrir flokkar hafa unnið að tryggingamálum fyrr og síðar, m.a. Framsfl., enda var það með fullum atbeina Framsfl., að stofnað var til almannatrygginga hér á landi á sínum tíma, og þegar Framsfl. fór með tryggingamál í ríkisstjórn, beitti þáv. félmrh., Steingrímur Steinþórsson, sér fyrir endurskoðun almannatryggingalaganna miðað við aðstæður og viðhorf þess tíma. Og það var Ólafur Jóhannesson, núv. formaður Framsfl., sem fyrstur bar fram hugmyndina um almennan lífeyrissjóð í landinu.

Framsóknarmenn líta svo á, að eins og s.l. áratugur hefur verið tímabil vaxandi misréttis í launa- og kjaramálum, svo og á ýmsum fleiri sviðum, þá skuli sá áratugur, sem nú er nýhafinn, verða í raun tímabil jafnréttis, þar sem með löggjöf og öðrum landsstjórnaraðferðum verði leitazt við að eyða eða draga úr misrétti of; óhæfilegri mismunun á aðstöðu þjóðfélagsþegnanna, hvar sem þeir búa og hverjir sem þeir eru. Sú er stefna Framsfl. Ég þakka áheyrendum áheyrnina. — Góða nótt.