06.04.1971
Sameinað þing: 43. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 2020 í B-deild Alþingistíðinda. (2220)

Almennar stjórnmálaumræður

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Hannibal Valdimarsson flutti hér ræðu fyrir nokkurri stundu og var jafnkokhraustur og hressilegur og hann er vanur að vera. En þessi ræða einkenndist af því, að hún var frá byrjun til enda ein samfelld árás á Alþfl., samfelldar lýsingar á því, hversu voðalegur flokkur þetta sé, hvílíkir svikarar við jafnaðarmenn eða Alþfl.-menn séum o.s.frv., o.s.frv. Í þessu sambandi langar mig aðeins til þess að minna hlustendur á það, að það eru ekki mjög margar vikur liðnar, síðan þessi sami Hannibal gerði opinbert tilboð um það að sameinast þessum voðalega Alþfl. Það er einkennilegt að bjóðast til þess að sameinast algerlega flokki, sem hann nú lýsir á þennan hroðalega hátt.

Það fóru fram ýtarlegar viðræður um þetta og þær voru að mörgu leyti vinsamlegar, en um leið athyglisverðar. Það er bezt, úr því að Hannibal notar tækifærið fyrir framan alþjóð til þess að senda Alþfl. slíkar kveðjur sem hann gerði í kvöld, að segja frá því, að í þessum viðræðum gerði Hannibal engar sérstakar kröfur varðandi málefni. Nei, það voru ekki hans áhugamál. Kröfurnar, sem voru gerðar, voru þær að tryggja Hannibal Valdimarssyni og Birni Jónssyni þingsæti. Það var hugsjónin. Það var aðalatriðið.

Geir Gunnarsson og Magnús Kjartansson hafa talað hér nokkuð um samstarf Alþfl. við Sjálfstfl. og eru jafnhneykslaðir á því og þeir og ýmsir fleiri hafa lengi verið. Þetta er mál, sem oft hefur verið rætt og oft hefur verið skýrt, hvernig þetta samstarf er til komið, á hverju það byggist og hvers vegna það hefur haldið áfram. En ég vil líka minna á það, að einu sinni fengu kommúnistar tækifæri til þess að setjast í stjórn með Sjálfstfl. Þá gerðist það hér í þessum þingsal, að einn af þm. þeirra sagði, að það væri einn merkasti viðburðurinn í íslenzkri stjórnmálasögu — hvorki meira né minna — þegar kommúnistar sjálfir komust í sængina með íhaldinu. Og við vitum það allir, að þeir mundu hoppa upp í þá sæng, hvenær sem þeir fengju tækifæri til, svo að þeir ættu að spara sér stóru orðin í garð okkar Alþfl.-manna.

Magnús Kjartansson sagði, að Karl Guðjónsson væri á flótta úr Alþb. Það skyldi þó ekki vera, að það væru einhverjir fleiri að flýja og af eitthvað svipuðum ástæðum og Karl? Magnús reyndi ekki einu sinni að svara málefnalega ræðu Karls eða því, sem hann hafði að segja, heldur valdi Magnús þann kost að gera heldur ómerkilega pólitíska árás á fyrrverandi félaga sinn. En Alþb. mun ekki sleppa svo auðveldlega. Alþb. verður að skýra nánar og betur fyrir kjósendum sínum, hvers vegna maður eins og Karl Guðjónsson gat ekki verið lengur í þeim flokki, og ég veit, að það eru margir viða um land, sem bíða eftir því að heyra þau svör.

Það þing, sem nú er að ljúka, hefur látið prenta fyrir sig yfir 900 þskj. um yfir 300 þingmál. En á þeim fáu mínútum, sem ég á eftir, mun ég aðeins ræða lauslega um þrjú þessara mála, sem ég tel að hafi hvað mesta jákvæða þýðingu fyrir þjóðina í framtíðinni. Það eru menntamálin, landhelgismálið og tryggingamálin.

Skólamál hafa aldrei í sögu þjóðarinnar verið svo mikið rædd né mikið áhugamál almennings sem nú. Íslendingar byggja á fornum arfi alþýðumenntunar og eiga henni að þakka, að hér er enn í dag sjálfstæð þjóð með sjálfstæða menningu og tungu. En nú er tækniöld, og öllum er ljóst, að því meiri skólagöngu sem unglingur fær, hvort sem um er að ræða bóknám eða verknám, því meiri verða möguleikar hans til þess að velja sér lífsstarf og komast vel áfram. Þess vegna eru allar líkur á, að innan fárra ára muni rúmur þriðjungur alls æskufólks hljóta stúdentsmenntun eða eitthvað annað sambærilegt nám. Hin gamla, fina stúdentstign er í raun og veru úr sögunni. Í staðinn er kominn áfangi á menntabraut þúsunda ungmenna.

Alþfl. hefur farið með stjórn menntamála í hálfan annan áratug. Á þessu tímabili hafa orðið samfelldar breytingar, svo að bylting væri réttara orð, og hvert einasta þrep í öllu skólakerfinu verið endurnýjað og mörgum nýjum bætt við. Menntmrh. hefur ekki aðeins fylgzt með tímanum, heldur er hann að því leyti á undan sinni samtíð hér á landi, að mörgum alþm. þykir eitt síðasta frv., sem við afgreiddum í dag, frv. um Kennaraháskóla Íslands, jafnvel ganga of langt. Tíminn mun leiða í ljós, að svo er ekki. Við erum á réttri braut. Verkefnin fram undan eru mörg og munu halda áfram að birtast, því að skólamál verða í sífelldri þróun hér sem annars staðar á komandi áratugum. Stefna Alþfl. í skólamálum hefur verið og er sú, að Íslendingar eigi lifandi og vaxandi nútímaskólakerfi, sem öll börn og allir unglingar eigi jafnan kost á að notfæra sér eftir hæfileikum og óskum. Þessu takmarki verður e.t.v. seint náð til fullnustu, en við höfum verið á hraðri ferð í rétta átt.

Landhelgismálin voru rædd sérstaklega s.l. fimmtudagskvöld, og er því ekki ástæða til að fjölyrða um þau, þótt þau hafi enn blandazt nokkuð í umr. í kvöld. Það er fyrst af öllu ástæða til að undirstrika, að allir flokkar og allir aðilar virðast sammála um, hvert takmark þjóðarinnar er í landhelgismálum: yfirráð yfir landgrunni miðað við 400 metra dýptarlínu, þó aldrei minna en 50 mílna fiskveiðilögsaga. Þess vegna ber enn að harma, að ekki skyldi takast samkomulag milli forustumanna þingflokkanna um sameiginlega yfirlýsingu, heldur eru nú horfur á, að þetta mál verði gert að ágreiningsmáli í kosningabaráttunni, og því miður fer varla hjá því, að kosningadeilur um landhelgismálið geti skaðað málstað þjóðarinnar út á við. Vorið 1959 gerði Alþ. samþykkt um landhelgismál. Þá voru kosningar fram undan eins og nú. Þá var Emil Jónsson forsrh., en utanrmn. Alþ. sameinaði flokkana og samdi ályktun, stutta, skýra og harða. Í aðeins 9 línum var mörkuð stefna, sem við höfum fylgt síðan. Nú erum við þeir ógæfumenn, að flokkarnir rífast um, hvaða leiðir á að fara að settu marki. Báðir aðilar, stjórn og stjórnarandstaða, flytja sínar eigin till., ríkisstj. með ábyrgð og varfærni, en stjórnarandstaðan með stórvarhugaverðu ábyrgðarleysi. Hannibal Valdimarsson fullyrti í ræðu sinni áðan, að Emil Jónsson hefði kallað það siðlausa ævintýrapólitík að segja upp brezka samningnum. Þetta er alrangt. Emil Jónsson sagði ekkert slíkt um uppsögn brezka samningsins. Hann notaði þessi orð um allt aðra hluti varðandi landhelgispólitík. Emil Jónsson utanrrh. hefur langa reynslu, og enginn hefur vogað sér að halda fram, að hann vinni ekki af heilum hug fyrir íslenzku þjóðina og engan annan. Undirbúningur málsins hefur í hans höndum undanfarin ár verið mjög mikill, þó að hann væri óhjákvæmilega að mestu leyti á bak við tjöldin, og stefna hans í landhelgismálinu, eins og hún hefur verið eða verður mótuð, mun án efa skila þjóðinni beztum og öruggustum árangri.

Þess má og minnast, að Alþfl. hefur halt forustu utanríkismálanna á hendi í hálfan annan áratug. Á þessu tímabili var fyrsta landhelgisdeilan við Breta leyst, og síðan voru framkvæmdar tvær útfærslur landhelginnar. Fyrir 1952 voru aðeins 24 þús. km2 innan landhelgi, en í dag eru þeir 74 þús. Þetta eru verk, sem tala. Ævintýrapólitík Lúðvíks Jósepssonar hefur verið hafnað til þessa í landhelgismálum, og það hefur tekizt að þrefalda landhelgina. Við skulum enn hafna allri ævintýrapólitík, en sækja fram eins og skynsamir, siðaðir menn. Það mun bera árangur nú eins og fyrr.

Það er mikilvægt í landhelgismálinu að misstíga sig ekki. Við verðum að minnast þess, að við erum að tefla örlagaríkt tafl við erlend ríki, mörg þeirra hin voldugustu í heimi, sem nú vilja binda 12 mílna landhelgi, en þ. á m. eru bæði Sovétríkin og Bandaríkin. Við eigum að láta alla vita, hvert við stefnum, en við eigum ekki að binda okkur við ákveðnar dagsetningar fram í tímann. Það eru of margir leikir á borðinu til þess að slíkt sé hyggilegt, enda þótt vel geti farið svo, að útfærslu verði að framkvæma fyrir ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna 1973. Það eru allir aðilar sammála um, að sá möguleiki geti verið fyrir hendi og sé alls ekki útilokaður. Eins vil ég segja það, að það mun að sjálfsögðu verða að taka fyrir samningana við Breta og Þjóðverja og hlut þeirra í þessu máli öllu.

Þriðja og síðasta stórmálið, sem ég nefni í kvöld, eru almannatryggingar. Alþ. hefur í dag samþykkt nýja löggjöf, sem felur í sér margvíslegar og stórfelldar umbætur á tryggingakerfinu og hækkun á launum og bótum almannatrygginga, sem nemur um 500 millj. kr. Því miður geta þessar hækkanir ekki komið til framkvæmda fyrr en um næstu áramót, af því að ókleift hefur reynzt að afla fyrr þeirra peninga, sem til þeirra þarf, enda kemur sú fjáröflun til viðbótar við yfir 30% hækkun á elli- og örorkubótum og öðrum bótum, sem þegar hafa orðið síðan í fyrravor í samræmi við almennar breytingar á launum og verðlagi. Ég vil taka það skýrt fram, að í hinum nýju lögum eru ákvæði um, að bætur skuli hækka með öðrum hækkunum í þjóðfélaginu, og að Eggert G. Þorsteinsson ráðh. hefur lýst því afdráttarlaust yfir, að ef Alþfl. hefur nokkuð með þessi mál að gera 1. sept. n.k. muni hann þá þegar hækka bæturnar, ef þá verða almennar launahækkanir. Bragi Sigurjónsson skoraði á aðra flokka að gefa sams konar yfirlýsingu, en enginn þeirra hefur enn þá haft fyrir því að gera það. Sú hækkun, sem tryggingafrv. gerir ráð fyrir, er því óháð öðrum hækkunum. Þetta er grunnhækkun, sem þeir eiga að fá, sem trygginganna njóta.

Tryggingafrv. hefur verið í smíðum í tæplega eitt ár. Það er ekkert leyndarmál hér í sölum Alþingis, að upphaflega var talað um að hækka tryggingabæturnar um 300 millj. kr. En það voru þm. Alþfl., sem neituðu að standa að málinu nema bæturnar hækkuðu ekki um 300, heldur um 500 millj. kr. Og það skal ég segja ráðh. og þm. Sjálfstfl. til hróss, að þeir gengu þegar inn á þessa kröfu Alþfl. Þess vegna varð hækkunin 500 millj., eins og raun ber vitni. Allt þetta gerðist á bak við tjöldin, áður en tryggingafrv. var flutt. En það eru atvik eins og þetta, sem sýna, hverjir standa vörð um almannatryggingarnar og leggja á þær mesta áherzlu. Það er víst þetta, sem Ingvar Gíslason kallar afturhald í tryggingamálum, þegar hann þarf að koma höggi á Alþfl.

Til samanburðar við afgreiðslu á þessu máli og þetta tryggingamál allt, sem núv. ríkisstj. hefur knúið í gegnum þingið, þótt á síðustu vikum þess væri, vil ég rifja það upp, að í tíð vinstri stjórnarinnar gerði Alþfl. kröfu um mikla hækkun almannatrygginga. En þá fengust framsóknarmenn og Alþb.-menn ekki til þess að sinna því máli. Fjmrh. Framsfl. sagði nei og sá öll vandkvæði á því að útvega peninga í tryggingahækkanir. Og hvað gerði Hannibal Valdimarsson þá? Hann var þá einn af ráðh. Það fór ekki mikið fyrir tryggingaáhuga hans þá, þó að hann gráti næstum því fyrir framan gamla fólkið nú. (HV: Alþfl. fór með málið.) Alþfl. fór með málið, en hann þurfti stuðning annarra ráðh. (Gripið fram í.) Þann stuðning vantaði, enda hefðu tryggingarnar þá verið hækkaðar, ef sá stuðningur hefði verið fyrir hendi. (Gripið fram í.) Fyrrv. ráðh. Hannibal Valdimarsson virðist vera orðinn allórólegur undir þessum upprifjunum mínum og hefur nú eftir framíköll gengið úr salnum. Ég vona, að honum verði rótt þarna frammi.

Nú er svo komið, að allir flokkar keppast um að sýna áhuga sinn á almannatryggingum og reyna að koma því orði á Alþfl., að hann hafi brugðizt þessu gamla baráttumáli sínu. Dæmið, sem ég nefndi áðan, sannar betur en nokkuð annað, að árásirnar á Alþfl. eru tilefnislausar. Við látum okkur þær því í léttu rúmi liggja. En hinu fögnum við, að almannatryggingar eru nú orðnar svo mikið áhugamál allra flokka, að varla verður fyrirstaða um öra þróun þeirra á næstu árum. Í hinum nýju tryggingalögum, sem samþ. voru í dag, er að ýmsu leyti farið inn á nýjar brautir. Það er trú okkar Alþfl. manna, að á næstu árum muni tryggingakerfið halda áfram að taka verulegum skipulagsbreytingum, til þess að það mikla fé, sem varið er í þessu skyni, komi að sem beztum notum og tilgangi tryggingahugsjónarinnar verði sem bezt náð.

Ég hef rætt aðallega um þrjú mikil mál. Eitt hefur sérstöðu. Það er sjálfstæðismál, landhelgin. Hin tvö, skólamál og almannatryggingar, fjalla um aðstöðu okkar í lífinu og öryggi. Þau snerta þá hugsjón, að landsmenn skuli allir vera jafnir. Þetta er hugsjón jafnaðarstefnunnar í framkvæmd. Nú gengur alda um hinn frjálsa heim, og unga fólkið krefst endurmats á lýðræði, á jafnrétti fólksins í lýðræðisríkjum. Þetta teljum við jafnaðarmenn mál næstu framtíðar hér á landi og unga fólkið í röðum okkar setur það ofar öllu. Vinstri hreyfing á Íslandi hefur því miður lengi verið klofin og aldrei klofnari en nú, en Alþfl. hefur reynzt sá vinstri flokkur, sem hefur starfað af mestri ábyrgð og náð mestum árangri. Hann er því sá kjarni, sem allir íslenzkir jafnaðarmenn eiga að safnast um og eiga að styðja í þeim kosningum, sem fram undan eru. Alþfl. er flokkur framtíðarinnar. — Góða nótt.