06.04.1971
Sameinað þing: 43. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 2025 í B-deild Alþingistíðinda. (2221)

Almennar stjórnmálaumræður

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég held, að hv. 5. þm. Vesturl., Benedikt Gröndal, hafi ekki efni á því að vera að brigzla okkur stjórnarandstæðingum um siðleysi í landhelgismálinu. Það vita allir og það er til hróss þessum hv. þm., að hann er óánægður með afgreiðslu ríkisstj. á málinu, og þess vegna eru svona slagorð fram kölluð af hans hendi. Það er ekki hægt að óska eftir samstöðu í landhelgismálinu upp á þann hátt að gera ekki neitt, eins og hæstv. ríkisstj. gerir till. um. Það veit Benedikt Gröndal, þó að hann segi annað hér. Það, sem er gert í landhelgismálinu, er ekki annað en það, sem hefur verið rökstutt, það eru ábyrgar, ákveðnar till. í málinu, og landhelgismálið sem og önnur mál vinnast ekki nema ákveðnar till. séu í því gerðar.

Út af því, sem Benedikt Gröndal sagði um tryggingarnar, þá vil ég leiðrétta hann með það, að tryggingabæturnar hækki eins og kaupgjald og vísitala í landinu. Þetta er ekki rétt. Það á hins vegar að taka tillit til þess, ef kaupgjald í almennri fiskvinnu hækkar, þá getur tryggingaráðið tekið málið upp, og þá skulu þeir tryggðu njóta bóta að 6 mánuðum liðnum. Þetta er frammistaðan. Framsfl. vildi tengja þetta kaupgjaldsvísitölunni og kaupgjaldinu í landinu, og það var tryggara en yfirlýsing Eggerts G. Þorsteinssonar. Benedikt Gröndal segir: Við björguðum því, Alþfl.-menn, á bak við tjöldin, að það var farið í 20% í staðinn fyrir 10%. — Nú skal ég ekki fara að ræða um það, sem Benedikt Gröndal þykist sjá á bak við tjöldin. En ég spyr: Var ekki þessi endurskoðun unnin undir forsjá tryggingaráðh. Eggerts G. Þorsteinssonar? Var hún ekki framkvæmd af þeim Alþfl.-mönnum, forstjóranum í Tryggingastofnuninni og Björgvin Guðmundssyni? Það hefur verið hjá Alþýðublaðinu sýnd mynd af þremur Alþfl.-mönnum, sem höfðu þar forustu um. Hvar voru þeir á verðinum, þegar þessar till. voru gerðar? Ætli það hafi ekki heldur verið hitt, að þeir hafi séð að sér, að þeir voru komnir í alvarlega hættu með málið, Alþfl.-menn.

Það sannaðist á hæstv. fjmrh., að sannleikanum verður hver sárreiðastur. Það kom greinilega fram, þegar hann vék að hinni skörulegu og skeleggu ræðu Einars Ágústssonar. Hlustendur hafa tekið eftir því, að Magnús Jónsson nefndi ekkert dæmi um það, sem Einar hefði ofsagt eða farið rangt með, heldur vitnaði hann til þess, að hann hefði ekki vald á ríkisskattanefnd, hún væri sjálfstæður dómstóll.

Ráðh. mundi þó e.t.v. hafa tækifæri til þess að koma að rökum um það, að breyttar forsendur væru fyrir því, að úrskurður hennar gæti staðizt áfram. Og ef ekkert átti að gera í sambandi við þá launabreytingu, sem varð fyrir jólin, af hverju sagði þá Magnús Jónsson fjmrh. þetta m.a. við Morgunblaðið, þegar hann ræðir um hina nýju kjarasamninga:

„Í öðru lagi falla nú niður margs konar hlunnindi, fríðindi og aukagreiðslur, sem tíðkazt hafa í ríkiskerfinu, ekki sízt hjá hinum hæst launuðu.“ Og síðar: „Í heild er niðurstaðan sú, að launahækkanir til hinna hæst launuðu verða ekki jafnmiklar í reynd og þær kunna að sýnast á pappírnum, vegna þess að á móti kemur, að margs konar hlunnindi falla niður.“ Hvað var það, sem ráðh. átti við, ef það er ekki ádeiluvert, ef þessu er ekki komið í framkvæmd?

Fjmrh. talaði um það, að till. okkar nú við fjárlagaafgreiðslu væru ekki í sparnaðarátt. Mikið var það nú. Við fluttum við 3. umr. fjárl., minni hl. fjvn., till. upp á 13 millj. kr. hækkun í fjárl., sem voru 11500 millj. kr. Það hafði áhrif á ríkiskerfið! En það, sem við höfum hins vegar haldið fram, er það, að það þýðir ekki að bera fram einstakar till. til sparnaðar í ríkiskerfinu. Það verður að taka kerfið sjálft til endurskoðunar, ef það á að hafa nokkur áhrif á niðurstöðutölu fjárl. Þessu höfum við marglýst yfir og reyndar ráðh. viðurkennt, að það yrði að vinna að ríkiskerfinu þannig, að kerfisbundið væri, ef breyta ætti niðurstöðum á fjárl.

Ráðh. sagði, að við hefðum verið á móti verðstöðvuninni. Við höfum ekki verið á móti verðstöðvuninni, en við höfum hins vegar haldið því fram, að verðstöðvun, sem væri sýndarmennska ein, gagnaði ekki nema þann stutta tíma, sem hún væri látin gilda. Þannig hefði farið áður og þannig færi nú, ef núv. valdhafar sætu áfram í stólunum, eins og ég mun víkja að síðar.

Ráðh. sagði, að það væri kosningabragur á þessu þingi, og dómsmrh. vék að því líka, hér flyttu stjórnarandstæðingar margar till. til útgjalda, en ekki væri séð fyrir, hvernig greiða ætti. Ég gerði mér það til dundurs, að ég tók saman á nokkrum frv. ríkisstj., sem komið hafa á borð þm. síðustu dagana, hvað miklar útgjaldahækkanir þar væri um að ræða, sem áttu að koma til framkvæmda, eftir að þetta ár er liðið, og ég var kominn á annan milljarð, þegar ég hætti þeirri samlagningu. Þar var ekki um ábyrgðarleysi að ræða, enda var það flutt af stjórninni, en það var ekki séð fyrir tekjum til þess að koma þessum verkefnum í framkvæmd.

Um ræður þeirra Alþfl.-manna vil ég svo segja það, að það einkennir þá, að það, sem þeir gera, er allt vel unnið og rétt gert. Í því sambandi langar mig að minna á það, að þegar gengisbreytingin 1967 var gerð, hélt Alþfl.-formaðurinn því fram, að hún væri sérstaklega vel hugsuð og undirbúin. Engin gengisbreyting á Íslandi hefði verið svo vel gerð. Hún entist í einn mánuð án nýrra aðgerða.

Yfirlýsingar fram í tímann og stefnufesta er mikils virði, segja þeir Alþfl.-menn. Þeir hafa gefið út yfirlýsingu. Eina gáfu þeir út 25. ágúst 1967 um ástandið í efnahagsmálum, og þá sagði Gylfi Þ. Gíslason: „En ég fullyrði, að gengislækkun er ekki rétta leiðin.“ En í nóvember var gengislækkun gerð, og þá var hún eina rétta leiðin. Þá sagði Gylfi Þ. Gíslason, eftir að hún hafði verið framkvæmd 21. nóv., nákvæmlega þrem mánuðum síðar: „Þá mun tímabil erfiðleikafina von bráðar á enda og björt framtíð blasa við þjóðinni.“ Gengisbreytingin var þá eina rétta leiðin. Stefnufestu skulum við hafa, segir Alþfl. Hver er stefna Alþfl.? 1953 sagði Alþfl.: Ranglátasti skattur, sem íslenzki löggjafinn hefur lagt á, er söluskattur. — Nú er hann réttlátasti skattur, sem íslenzki löggjafinn hefur lagt á, enda er hann nú stærsti tekjustofn ríkissjóðs í þeirri ríkisstj., sem þeir Alþfl.-menn styðja. Jafnrétti og örugg afkoma allra þegna er okkar höfuðtakmark, sagði Gylfi Þ. Gíslason hér í kvöld. Ellilaunin hafa lækkað frá því 1967 fram til þessa um 9%, þó að þau hafi verið hækkuð í sumar um 20%. Það er mikið afkomuöryggi hjá ellilaunaþega, sem fær 4900 kr. á mánuði nú, og svo verður að vera fram að næstu áramótum. Og það er mikið afkomuöryggi, þó að hann fái 84 þús. á næsta ári, sem er svo gert með þeim hætti, að sveitarfélögin eru látin borga rúm 50% af hækkuninni, og á því er sannkallaður framfærslusvipur. En á sama tíma og Alþfl. kemur þessu réttlæti í framkvæmd stendur hann fyrir því að leggja hér fram frv. að skattamálum, þar sem hluthafar mega taka um 20% arð, því að svo var það í frv., þegar það var lagt fyrir. Skattfrjálst má vera hjá hjónum um 60 þús. kr. og fyrir hvert barn þeirra um 15 þús. kr. Þetta er jafnréttið, sem Alþfl. er að skapa nú til dags. Á sama tíma er svo ekkert gert í skattamálum einstaklinganna. Þetta þótti svo mikil rausn, að atvinnurekendurnir höfðu ekki lyst á þessu og létu breyta frv.

Það er ekki að undra, þótt óbreyttir Alþfl.-menn segi: Það er hryllileg staðreynd, að stór hluti þjóðarinnar er hættur að gera greinarmun á okkur og Sjálfstfl. - Þetta var í Alþýðublaðinu í sumar.

Landbrh., Ingólfur Jónsson, flutti ræðu hér í kvöld og vék m.a. að vegamálum og talaði um, hvað betur væri að þeim staðið nú en áður hefði verið. Minna má ráðh. á það, að þegar hann tók við þeim málum voru vegir landsins skuldlausir og lítt notaðir tekjustofnar, sem hann tók þá við. Nú er það svo, að vegasjóður skuldar um 700–800 millj. kr. og tekjustofnar af umferðinni eru nú að mestu nýttir nema þeir, sem ríkissjóður situr enn að og þarf til veganna að ganga. Það er gott dæmi um samhengið í efnahagsstefnu ríkisstj. og vegamálunum, að skuld á Keflavíkurvegi er nú yfir 400 millj. kr., þó að vegurinn kostaði ekki nema um 270 millj. kr.

Um landbúnaðarmálin, sem Ingólfur Jónsson vék að, vil ég spyrja: Hver er stefna landbrh. í framleiðslu og uppbyggingu landbúnaðarins? Hún hefur engin verið. Hins vegar hefur ráðh. haldið því fram, að það skipti ekki máli, hver framleiðslukostnaðurinn væri, því að hann yrði borinn uppi af verðlaginu, þegar varan væri seld. Þess vegna hefur ráðh. tekið upp þá stefnu að hækka vexti af stofnlánum til landbúnaðarins og stytta lánstímann, og lánakjör þau, sem landbúnaðurinn býr nú við, eru slík, þegar launaskatturinn er tekinn með, sem var yfir 20 millj. á s.l. ári, að það jafngilti því, að það væru 15.5% afföll af lánum þeim, sem landbúnaðurinn fékk til stofnlána, enda hefur þessi stefna orðið til þess að draga verulega úr sölu á landbúnaðarafurðum. Það hefur sýnt sig, þar sem varan hefur selzt meira, eftir að var farið að greiða hana niður, og bændur landsins eru tekjulægsta stétt þjóðfélagsins. Þetta er árangurinn af landbúnaðarstefnu Ingólfs Jónssonar.

Stjórnarflokkarnir gengu til kosninganna árið 1959 undir kjörorðinu: „Stöðvun verðbólgu“. Undir sama kjörorði gengu þeir til kosninganna 1967. Og enn á að ganga til kosninga undir kjörorðinu: „Stöðvun verðbólgu“. Hver er svo árangurinn af þessum fyrirheitum um stöðvun verðbólgunnar? Á áratugnum 1950–1960, þegar Framsfl. sat í ríkisstj., var vöxtur verðbólgunnar 123 stig, en 250 stig á áratugnum 1960–1970, á valdaskeiði núv. ríkisstj. Árangurinn af fyrirheitunum við síðustu kosningar um stöðvun verðbólgu varð þessi: Gengisfelling var gerð í nóvember 1967 og aftur í nóvember árið eftir. Segja má með réttu, að bráðabirgðaráðstafanir hafi verið gerðar svo að segja í hverjum mánuði á milli gengisbreytinganna ti1 að halda atvinnu- og efnahagskerfinu gangandi. Afleiðingarnar af þessum gengisföllum urðu svo þær, að erlendur gjaldeyrir hækkar í verði yfir 100%. Gengistöp ýmissa ríkisstofnana urðu hartnær einn milljarður. Fjárlög hafa hækkað frá 1967 úr 4700 millj. kr. í 11500 millj. kr., eða um 144%. Sparnaður í ríkisrekstrinum hefur reynzt minni en ætlað var. T.d. hefur ekki tekizt að telja launaðar nefndir enn þá, þó að á annað ár sé liðið síðan óskað var eftir grg. um þær. Áður hafði þó verið gefið fyrirheit um sparnað á því sviði.

Greiðsluhalli hefur verið hjá ríkissjóði öll þessi ár kjörtímabilsins nema árið 1970, þrátt fyrir verulegar tekjur umfram fjárlög og háar fjárhæðir í lánum vegna verklegra framkvæmda. Staða erlendra skulda hefur breytzt svo, að á árinu 1966 voru nettóskuldir við útlönd 6353 millj. kr., en 1970 9346 millj. kr. í árslok 1966 námu nettóskuldir við útlönd 34% af heildarútflutningstekjum af vörum og þjónustu á þessu ári, en í árslok 1970 eru nettóskuldir við útlönd 44% af áætluðum útflutningstekjum af vörum og þjónustu. Atvinnuleysi var verulegt á árunum 1968 og 1969. Launakjör voru lægri en gerzt hefur um langt árabil á árinu 1969 og fram eftir árinu 1970. Þrátt fyrir einstakt góðæri í verðlagi og aflabrögðum s.l. ár er atvinnulífinu haldið gangandi með ríkisaðgerðum, sem felast í niðurgreiðslum á vöruverði, og kostar það þjóðina yfir 1100 millj. kr. Nægir sú fjárhæð þó ekki nema fram yfir kosningarnar. 1. sept. skal þessari sýndarmennsku hætt, enda kosningunum þá lokið.

Ríkisstj. hefur ekki séð önnur úrræði til lausnar í efnahagsvandamálum en síendurteknar gengislækkanir. Við framsóknarmenn höfum oft á það bent, að aðrar leiðir væru til, svo sem markviss stefna í atvinnumálum, stjórn á fjárfestingu, endurskipulagning á ríkisrekstrinum, hagstæðari stofnlán vegna atvinnuveganna og færri sérskattar á þá en nú er. Ekki hefur ríkisstj. viljað eyrun að því leggja, að slík ráð kæmu að notum.

Á þessu þingi hefur einn af þm. Sjálfstfl., Ólafur Björnsson hagfræðiprófessor, sagt álit sitt á gengislækkunarstefnu ríkisstj. og útlitinu í efnahagsmálum. Í þingræðu 10. febr. s.l. segir Ólafur Björnsson svo, með leyfi hæstv. forseta: „Það er vissulega hægt að halda öllu fljótandi um stundarsakir með slíkum einhliða aðgerðum stjórnvalda, þó að gerðar séu í trássi við launþegasamtökin, en ekki heldur nema um stundarsakir, því að fyrr eða síðar kemur að því, að hinar sífelldu gengislækkanir eyðileggja trú fólksins á gildi peninganna, en með því er grundvellinum kippt undan því, að efnahagskerfið sé starfhæft, og öngþveiti óðaverðbólgu heldur innreið sína. Ég tel mig ekki gera mig sekan um neitt trúnaðarbrot, þó að ég segi það hér, að ég hef a.m.k. allt s.l. ár, bæði innan míns flokks og á opinberum vettvangi, ekki dregið neina dul á þá skoðun mína, að þessi hefðbundnu úrræði hafa nú gengið sér til húðar og leita verður nýrra.“ Og síðar í sömu ræðu segir Ólafur Björnsson, þegar hann lýsir, hvað við taki 1. sept.: „Það er hrollvekja að hugsa til þeirra vandamála, sem blasa við.“

Þetta er yfirlýsing eins þm. úr stjórnarliðinu á árangrinum af efnahagsstefnu ríkisstj.

Í ræðu minni hér að framan hef ég sýnt fram á það, að allt tal ríkisstj. um verðstöðvun árið Í967 var skrum eitt, gert til að blekkja þjóðina, og það tókst þá. Sama leik á að reyna að leika nú. Ríkisstj. ætlar að fleyta sér á sýndarmennsku í gegnum kosningarnar í vor.

Herra forseti. Taka má undir orð Ólafs Björnssonar, þegar hann segir, að það sé hrollvekja að hugsa til þess, er verðstöðvunartímabilinu lýkur og áhrif af efnahagsstefnu ríkisstj. koma að fullu í ljós. Þjóðin má þó ekki gleyma því, að hún hefur mikla möguleika til góðrar afkomu í efnahagsmálum, ef í stað úrræðaleysis og þröngsýni núverandi valdhafa kemur atorka og dugur nýrra manna. Þjóðin býr nú við sérstaklega hátt verð á sjávarafurðum og örugga sölu þeirra. Hún á aukna sölumöguleika í landbúnaðarframleiðslu sinni. Fiskrækt í ám og vötnum á að geta orðið arðsöm atvinnugrein. Sama er að segja um þjónustu við ferðamenn og samgöngur landa á milli. Iðnaðarframleiðsla á að verða stærri þáttur í atvinnulífi þjóðarinnar en nú er, og svo verður, ef rétt er á haldið. Þessir og aðrir möguleikar eiga að skapa bjartsýni og trú hjá þjóð, sem býr í fögru landi, landi, sem býður tært vatn og hreint loft.

Það er ljóst, að þeir atvinnuvegir, sem skapað hafa tilveru þessarar þjóðar, landbúnaður og fiskveiðar, ráða mestu um framtíð hennar. Fiskveiðar og fiskiðnaður munu verða fyrirferðamest í atvinnulífi þjóðarinnar sem fyrr.

Framsóknarmenn hafa með málflutningi sínum á Alþ. í vetur sannað það, að þeir munu með störfum sínum í framtíðinni leggja höfuðáherzlu á skipulag, þ.e. atvinnuuppbyggingu í landinu. Með frv. um Atvinnumálastofnun ríkisins, iðnþróunaráætlun, ríkis- og bæjarútgerð togara og fjárhagsstuðningi til endurbóta á frystihúsum er mynduð keðja til uppbyggingar fiskiðnaðarins. Þessar ráðstafanir munu tryggja jafnari hráefnaöflun en nú er, lengri árlegan vinnutíma og skapa möguleika á fullvinnslu aflans. Marka þarf ákveðna stefnu í framleiðslu landbúnaðarvara, sem byggð sé á því, að bændur njóti sambærilegra tekna við hliðstæðar stéttir, en gera þó þessa nauðsynlegu matvælaframleiðslu hagkvæma með tilliti til verðs. Beita á fjárhagsstuðningi ríkisins í samráði við forustumenn landbúnaðarins til að vinna að því.

Framsóknarmönnum er ljóst, að grundvöllur þess, að þjóðin lifi farsælu lífi í landi sínu, er verndun fiskimiðanna. Þess vegna hafa þeir haft forustu um að móta till. um útfærslu landhelginnar, eins og kunnugt er. Framsóknarmenn munu beita sér fyrir því, að tekin verði aftur upp sú stefna, sem horfið var frá, þegar þeir áttu þátttöku í ríkisstj., að leita eftir félagslegri samstöðu ríkisvaldsins og fólksins í landinu um lausn efnahagsmála.

Framsóknarmenn gera sér grein fyrir því, að engin töfralyf gagna, hvorki þessari þjóð né öðrum, til lausnar vandamála. Það er með þjóðir sem einstaklinga, að eigin manndómur skapar lífshamingjuna. Framsóknarmenn munu með málflutningi sínum í kosningabaráttunni í vor kynna þjóðinni stefnu sína og framtíðaráform. Þeir munu ekki kvíða samanburði á þeirri stefnu og stefnu ríkisstj. Kjörorð okkar framsóknarmanna í kosningabaráttunni verða: Við treystum á dómgreind almennings. Við trúum á góðan málstað. — Góða nótt.