15.10.1970
Sameinað þing: 3. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 2039 í B-deild Alþingistíðinda. (2224)

Tilkynning frá ríkisstjórninni

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Það er rétt, sem hæstv. forsrh. sagði hér á þingsetningardag, að hér er raunar ekki um myndun nýrrar ríkisstj. að ræða, heldur er hér um að tefla framhald þess stjórnarsamstarfs, sem hófst með myndun viðreisnarstjórnarinnar á sínum tíma. Að vísu má segja, að að formi til sé um að ræða nýtt rn., en svo er ekki í reyndinni, þetta er í raun og veru sama ríkisstj., sama stefnan, sömu mennirnir með þeirri breytingu þó, sem alkunn er. Þar af leiðir, að það þarf náttúrlega ekki að spyrja um það, hver afstaða Framsfl. sé til þessarar ríkisstj. Hún er að sjálfsögðu hin sama og til fyrri ríkisstj. Framsfl. er í stjórnarandstöðu og mun rækja hlutverk stjórnarandstöðu, veita stjórninni aðhald og halda uppi gagnrýni eftir því, sem þörf krefur og efni standa til.

Við framsóknarmenn berum ekki traust til þessarar ríkisstj., enda þótt ég efist ekki út af fyrir sig um það, að þessir menn, sem sitja í ráðherrastólum, vilji láta gott af sér leiða. En stundum er því miður æðimikið til í því, að „góð meining enga gerir stoð“. Við framsóknarmenn höfum ekki trú á því, að þessi ríkisstj. ráði við þau verkefni, sem úrlausnar bíða. En þau viðfangsefni eru vissulega vandasöm. Ég vil ekki á neinn hátt gera lítið úr þeim erfiðleikum, sem eru fyrir hendi eða kunna að verða fyrir hendi. Þó er í því sambandi rétt að hafa í huga, að þetta ár er á margan hátt mjög hagstætt Íslendingum, sérstaklega í sjávarútveginum, bæði vegna ágætra aflabragða og alveg óvenjulega hagstæðs verðlags á útflutningsafurðum. Hins vegar hefur þetta ár líka verið alveg óvenjulega óhagstætt í landbúnaði þessa lands.

Ég er sammála hæstv. forsrh. um það, að sá vandi, sem nú ber hæst, er verðbólguvandinn og fylgifiskar hans, en sá vandi er því miður orðinn í dag miklu stærri og erfiðari viðfangs að mínum dómi, vegna þess að það hefur ekki verið gripið í taumana í tæka tíð. Ferill stjórnarinnar í þessum dýrtíðarmálum lofar ekki góðu að okkar dómi og gefur ekki von um, að stjórnin verði sigursæl í glímunni við verðbólguna.

Þó að ég sé í andstöðu við þessa ríkisstj., þá vil ég nota þetta tækifæri til þess að óska hæstv. forsrh. til hamingju með það, að hann skuli fyrstur forsrh. hafa orðið til þess að leiða konu til sætis í ráðherrastól hér á landi. Og það er rétt, sem hann sagði, að það er vissulega sögulegur atburður. Og um leið vil ég óska hinum nýskipaða dómsmrh. persónulega afls góðs í virðulegu, en vandasömu starfi.

Við höfum nú heyrt boðskap forsrh. Ég hef ekki hugsað mér að hefja miklar deilur við hann á þessu stigi og við þetta tækifæri og mun því ekki svo mjög fjölyrða um þau mörgu mál, sem hann minntist á, og þau mörgu frv., sem hann drap á, enda var ræða hans um þau efni það almenns eðlis, að það er engan veginn auðvelt að taka á þeim nú. En að sjálfsögðu verður tekin afstaða til þeirra, þegar þau verða lögð fram í endanlegu formi og með viðeigandi skýringum, og verður þá að sjálfsögðu fjallað um þau með eðlilegum hætti. Ég skal þó aðeins drepa á örfá atriði, sem hæstv. forsrh. minntist á. Mér virtist, að dýrtíðarmálin væru honum efst í huga og að verðstöðvun væri það úrræði, sem hann hefði helzt í huga, og talaði hann þó engan veginn skýrt um það atriði. Um það vil ég segja það, að verðstöðvun getur verið skynsamleg og réttlætanleg ráðstöfun, sé hún byggð á réttum grundvelli. En við höfum reynslu af verðstöðvun. Það var framkvæmd hér verðstöðvun fyrir síðustu kosningar. Við framsóknarmenn vorum þá með því að reyna verðstöðvun. Já, við vorum, ef ég man rétt, eini flokkurinn, sem mælti með því frv. óbreyttu, sem stjórnin í öndverðu lagði fyrir þingið. En við sögðum þá, að til þess að verðstöðvun kæmi að gagni og til þess að hún bæri árangur, þá þyrftu tilteknar forsendur að vera fyrir hendi og hún þyrfti að vera byggð á réttum grundvelli. En það var sú verðstöðvun, sem þá var framkvæmd, ekki að okkar dómi. Við sögðum, að hún væri byggð á víxlum, sem framtíðin þyrfti að greiða. Það reyndist rétt. Víxlarnir féllu í gjalddaga í nóvember kosningaárið — þá var gerð gengisfelling. Og það hefur reyndar verið gripið til verðstöðvunar fyrr, ef ég man rétt, líka nálægt kosningum. Var það ekki 1959? Það er annars einkennileg tilviljun, að þessar verðstöðvanir skuli einkum koma til álita, þegar kosningar fara að nálgast, en þær geta verið góðar fyrir því. En það verður að byggja verðstöðvun á réttum grundvelli. Annars er, því miður, hætta á, að vandanum sé bara skotið á frest — að uppistaðan safnist fyrir og hún brjótist fram með enn meiri þunga, þegar verðstöðvuninni lýkur. En þessi orð mín má ekki skilja svo, að ég sé andvígur því, að gerð sé tilraun til verðstöðvunar. Það er þvert á móti, við erum þar sama sinnis eins og fyrr, en vitaskuld verður að athuga allar aðstæður, þegar till. er gerð um verðstöðvun, og hvernig hún þá litur nánar út. Ég held meira að segja, að það hefði verið mikil ástæða til þess að grípa til verðstöðvunar fyrr. Það hefði verið ástæða til þess að grípa til hennar í sumar í stað þess að láta þá hverja verðhækkunina á fætur annarri dynja yfir. Auðvitað hefði ekki verið hægt að setja á algera verðstöðvun, því að vitaskuld hefðu bændur orðið að fá sína kjarabót, sambærilega kjarabót við aðrar stéttir, og auðvitað hefði ekki verið staðið gegn öllum verðlagshækkunum, til þess að standa undir hækkuðu kaupi hjá þeim, sem við verzlun vinna. Þessu verður vitaskuld að beita með nokkurri skynsemi. En mér virðist nú reynslan sú, að það hafi mjög litið verið staðið gegn verðhækkunum í sumar. En sem sagt, það er sjálfsagt að athuga þetta mál, verði það síðar lagt fram, og taka þá afstöðu til þess.

Hæstv. forsrh. lýsti því yfir, að stjórnin hefði hug á því að beita sér fyrir endurskoðun stjórnarskrárinnar og hafa um það samráð við þingflokkana. Ég get tekið undir það, að það sé ástæða til þess að endurskoða stjórnarskrána, sú skoðun hefur komið fram hjá mér áður. Og ég tel það mjög skynsamlegt, að það sé leitazt við að hafa sem viðtækast samstarf um endurskoðun stjórnarskrárinnar. En því miður hefur ekki alltaf tekizt á undanförnum árum að ná samkomulagi um það efni.

Ég fagna að sjálfsögðu yfirlýsingu hæstv. forsrh. varðandi landgrunnið, þar sem hann lýsti því yfir, að stjórnin væri ákveðin í því að vinna að því máli á þeim grundvelli, sem lagður hefði verið með þál. frá 1959, og ég er auðvitað sammála því, að það skuli vera stefna Íslands, að strandríki hafi rétt til þess að ákveða sína landhelgi innan vissra marka með tilliti til þeirra atriða, sem hann benti á, og reyndar e.t.v. fleiri. Hins vegar er kannske dálítið umhugsunarefni, hvort það sé stofnað til þessarar fyrirhuguðu ráðstefnu, sem hann minntist á, með því hugarfari, að það sé ástæða fyrir Ísland að standa sérstaklega að henni.

Auðvitað eru allir því sammála, að það eigi að rannsaka auðlindir landsins, og sjálfsagt geta menn verið sammála því að setja ýmis virkjunarlög, sem vikið var að, og að sjálfsögðu ber að fagna því, að í undirbúningi sé að gera rafvæðingaráætlun sveitanna, og kem ég kannske örlítið að því síðar. Og auðvitað er ástæða til þess að fagna því, að staðið verði fast gegn náttúruspjöllum. Og þannig var sitthvað í ræðu hæstv. forsrh., sem auðvelt er og eðlilegt að taka undir og ég geri ekki ráð fyrir, að ágreiningur verði um að stefnu til.

Hinu er ekki að leyna, að það var sitthvað, sem ég saknaði í ræðu hæstv. forsrh. T.d. saknaði ég þess, þegar hann var að tala um togarakaupin og lét þess getið, að ríkisstj. mundi halda áfram að vinna að eflingu togaraflotans, að hann skyldi ekki þá neitt minnast á það, hverja afstöðu ríkisstj. hefði eða ætlaði að taka til málaleitana þeirra staða — minni staða víða um land, — sem eru að berjast við það og hafa verið að berjast við það að kaupa skip eða láta byggja skip, togskip, — hina svokölluðu minni gerð togara. Í sambandi við afgreiðslu togarafrv. á síðasta Alþ. bar þetta mál mjög á góma. Stjórnarandstæðingar fluttu þá till. um það að láta þessar minni gerðir togaranna sæta sömu kjörum eða veita ríkisstj. heimild til þess, að þessar minni gerðir togaranna sættu sömu kjörum eins og hinir stærri togarar, sem ríkisstj. fékk heimild til þess að kaupa. Þessi till. okkar var þá felld, en jafnframt lét hæstv. sjútvrh. þau orð falla í umr. um það mál, að af ríkisstj. hálfu mundi verða lítið á málaleitanir þessara staða með mikilli vinsemd. Mér hefði leikið forvitni á því að vita, í hverju sú vinsemd verður fólgin.

Það er svo náttúrlega ekki nóg að hafa áferðarfallegar stefnuyfirlýsingar og gefa falleg fyrirheit. Það skiptir höfuðmáli, hvernig við stefnuyfirlýsingarnar er staðið. Það er framkvæmdin, sem jafnvel skiptir öllu máli. Það hefur svo sannarlega ekki skort á stefnuyfirlýsingar af hálfu viðreisnarstjórnarinnar. En henni hefur vægast sagt gengið heldur erfiðlega að standa við sínar höfuðstefnuyfirlýsingar, og án þess að ég vilji hér fara að byrja neinn eldhúsdag, þá kemst ég ekki hjá því að minna á þessa staðreynd. Það var t.d. fyrsta höfuðstefnumál viðreisnarstjórnarinnar að stöðva dýrtíðina og það var undirstrikað með stórum orðum og sterkum, sem hér skulu ekki rifjuð upp. En það heldur því vitaskuld enginn fram í dag, að það hafi tekizt að stöðva verðbólguna. Þvert á móti hefur verðbólgan vaxið örar á þessum síðasta áratug heldur en nokkru sinni áður, ef styrjaldarárin eru undanskilin. Og ef ég man rétt, þá var birt á s.l. sumri einhver tilkynning eða skýrsla, sem sýndi það að verðbólguvöxturinn á Íslandi hefði s.l. ár, miðað við marz eða apríl, ef ég man rétt, haft algert Evrópumet, numið 12 stigum, þar sem Noregur komst þó aðeins í næsta sæti með 10 stig. Annað höfuðstefnumál viðreisnarstjórnarinnar var á sínum tíma það, að verðgildi krónunnar skyldi tryggt. Þar um segja fjórar gengisfellingar sína sögu. Ég býst ekki við því, að neinum óbrjáluðum manni detti í hug að halda því fram nú, að verðgildi íslenzku krónunnar hafi verið tryggt eða sé tryggt. Það var þriðja höfuðstefnumálið, að það átti að lækka skuldir við útlönd. Staðreyndirnar tala þar sínu máli. Þær hafa ekki lækkað, heldur hækkað á þessu tímabili. Og fjórða stefnumálið, sem hæstv. forsrh. — ef ég tók rétt eftir — rifjaði upp að nokkru leyti, var það, að það átti að koma atvinnuvegunum á traustan og heilbrigðan grundvöll. Ég skal fúslega játa, að það er miklu teygjanlegra, hvenær hægt er að segja það, að atvinnuvegunum sé komið á traustari og heilbrigðari grundvöll, heldur en hin atriðin þrjú, sem ég nefndi, þar sem hægt er alveg að miða við ákveðnar staðreyndir. En ég býst nú við því, að það yrði leitun á þeim atvinnurekanda, sem fengist til að standa upp og lýsa því yfir, að íslenzkir atvinnuvegir væru á traustum og heilbrigðum grundvelli í dag. Og svo átti að afnema beina skatta á þurftartekjum. Það held ég að hver og einn launþegi geti sagt til um, hvort framkvæmt hefur verið. Nei, fallegar stefnuyfirlýsingar eru ekki einhlítar. Það er allt komið undir því, hvernig efndirnar verða. Og stjórn, sem á að baki slíkan feril sem hæstv. ríkisstj., bjargar sér ekki með nýjum loforðalista, eða því vil ég a.m.k. ekki trúa.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta, en í sambandi við þá stefnuræðu, sem hæstv. forsrh. hefur hér flutt, þykir mér rétt að gera nokkra grein fyrir þeim málefnum, sem Framsfl. mun leggja mesta áherzlu á á þessu þingi. Ég held, að það sé út af fyrir sig eins nytsamt og nánari krufning af minni hálfu á einstökum atriðum í ræðu forsrh. Ég vona, að það verði ekki talið óviðeigandi af mér að gera það, svo að okkar hugmyndir geti þá legið á borðinu við hlið stefnuyfirlýsingar stjórnarinnar. Ég held, að með þeim hætti geti það orðið skýrara, hvað skilur á milli stefnu stjórnarinnar annars vegar og stefnu Framsfl. hins vegar. Og það ætti að geta gert það ljósara en ella, hverjir valkostir eru fyrir hendi á þjóðmálasviðinu.

Hjá Framsfl. eru atvinnumálin efst á blaði. Framsóknarmenn vilja láta eflingu atvinnulífsins ganga fyrir öðru. Þeir leggja áherzlu á að treysta grundvöll atvinnuveganna, auka hagræðingu í rekstri þeirra og byggja upp nýjar atvinnugreinar. En jafnframt þarf að skipuleggja fjárfestingu og framkvæmdir með þetta fyrir augum.

Annar málaflokkurinn, sem við leggjum áherzlu á, eru fjármál ríkisins. Það þarf að okkar dómi að taka upp breytta stefnu í fjármálum ríkisins. Það þarf annars vegar að hamla gegn hinni sívaxandi útþenslu ríkisútgjalda, og hins vegar þarf að taka tekjuöflunarleiðir ríkissjóðs til gagngerðrar endurskoðunar, og þá sérstaklega með það hvort tveggja fyrir augum, að álögurnar komi réttlátar niður en nú og skili sér betur.

Þriðji málaflokkurinn, sem við leggjum áherzlu á, eru dýrtíðarmálin. Það þarf að stefna að stöðugri verðlagsþróun og setja skorður við dýrtíðarvextinum. Það þarf að taka þau mál að okkar dómi allt öðrum og betri og árangursríkari tökum en gert hefur verið að undanförnu.

Fjórði málaflokkurinn, sem ég vil nefna, eru skóla- og menningarmál. Þar er þörf á umbótum. Þar þarf að leggja áherzlu á að tryggja öllum sem jafnasta og bezta aðstöðu til menntunar og jafnframt þarf að endurskoða og endurskipuleggja allt skólakerfið með tilliti til breyttra aðstæðna og nýrra tíma og nýrra þarfa.

Fimmti málaflokkurinn, sem við leggjum sérstaka áherzlu á, eru byggðajafnvægismál. Þar teljum við, að hið opinbera eigi að stefna að því ákveðið og markvisst að auka jafnvægi í byggð landsins, ekki aðeins með efnahagslegum aðgerðum, heldur einnig félagslegum, menningarlegum og stjórnsýslulegum ráðstöfunum.

Í sjötta lagi vil ég nefna það, að við leggjum áherzlu á endurskoðun stjórnsýslukerfisins og umbætur í stjórnarfari.

Í sjöunda lagi viljum við framsóknarmenn leggja sérstaka áherzlu á, að ný og undanbragðalaus sókn sé hafin í landgrunnsmálinu og stækkun landhelginnar, og fellur skoðun okkar þar algerlega saman við þá yfirlýsingu, sem hæstv. forsrh. gaf.

Í áttunda lagi vil ég nefna mál eins og heilbrigðismál, vegamál, raforkumál og tryggingamál. En í öllum þeim málaflokkum teljum við þörf stórra átaka og mikilla endurbóta. Ég nefni það t.d., að vegamálin mega heita í algerri sjálfheldu, t.d. viðhald veganna, sem er í hinu mesta ófremdarástandi. Okkar stefna, framsóknarmanna, í þeim efnum hefur verið sú og er sú að verja meiru af tekjum af umferðinni til vegamálanna. Einnig vil ég nefna það, að við höfum flutt og flytjum væntanlega á þessu þingi frv. um lagningu hringbrautar um landið. Það þarf margt að gera í heilbrigðismálum, og það er sjálfsagt að fagna því, sem kom fram hjá hæstv. forsrh. og snýr í rétta átt í þeim efnum, en ég held, að í heilbrigðismálunum sé það ekki hvað sízt læknaskorturinn víðs vegar um landið, sem úr þarf að bæta. Það er satt að segja alls ekki hægt að standa andspænis því fólki kinnroðalaust, sem býr við læknaskortinn úti á landi. Ég segi, að úr því verði að bæta, hvað sem það kostar.

Það mætti margt segja um tryggingamálin, og þar er hæstv. forsrh. með ýmsar till., sem ég get tekið undir, og það var ánægjulegt að heyra hann lýsa því yfir, að það væri í athugun að setja upp lífeyrissjóð fyrir þá aðra, sem ekki nytu hans enn, sem sagt lífeyrissjóð fyrir landsmenn alla. En það eru nú meira en 13 ár frá því, að ég ásamt öðrum framsóknarmönnum flutti hér í fyrsta skipti á Alþ. till. um lífeyrissjóð fyrir landsmenn alla. Það var tekið jákvætt á því máli. Það hafa verið skipaðar nefndir í það mál og þær hafa sumar a.m.k. skilað áliti, já, jákvæðu áliti. En það hefur ekki orðið af framkvæmdum í því máli, og það finnst mér leiðinlegt, vegna þess að sá flokkur, sem hefur haft með þessi mál að gera öll þessi ár, hefur einmitt sérstaklega státað af því og það að vissu leyti með réttu, að hafa tryggingamálin sérstaklega á sinni stefnuskrá. Og um raforkumálin er það að segja, að það þarf ekki aðeins að gera þessa áætlun, sem hæstv. forsrh. minntist á, heldur þarf beinlínis að ljúka rafvæðingunni um sveitirnar og leiða rafmagnið sem allra fyrst inn á þá sveitabæi, sem ekki hafa fengið það enn. Og það þarf líka að aflétta þeim afarkostum, sem æðimargir hafa orðið að gangast undir nú upp á síðkastið í sambandi við raforkumálin, þar sem þeir hafa því aðeins fengið rafmagn heim á sína bæi, að þeir útveguðu lánsfé og stæðu undir vöxtum af þeim lánum. Um þessa málaflokka skal ég annars ekki fjölyrða hér frekar, en stefna okkar í þeim mun síðar skýrast af frv.-flutningi, sem við munum standa að. En að hinum sjö málaflokkunum, sem ég nefndi fyrst, vil ég til frekari skýringar aðeins víkja ofurlítið nánar.

Sá málaflokkur, sem ég nefndi fyrst, voru atvinnumálin. Ég held, að fyrsta viðfangsefnið sé efling atvinnulífs. Og það verður að mínum dómi að ganga fyrir öllu öðru, vegna þess að blómlegt atvinnulíf er forsenda fyrir bættum lífskjörum og undirstaða framfara á öðrum sviðum þjóðlífsins. Þess vegna verður að leggja höfuðáherzlu á alhliða uppbyggingu atvinnuveganna. En sú uppbygging kemur ekki af sjálfu sér. Það má ekki treysta á nein höpp eða tilviljanir, heldur verður að vinna að slíkri uppbyggingu skipulega og á markvissan hátt. Það má segja, að þetta geti allir sagt, og ég býst við því, að allir vilji þetta í raun og veru. En það, sem öllu máli skiptir, er það, hvernig að þessu er staðið og hvernig að þessu er unnið, og það er þar, sem leiðir skilur. Þar hefur Framsfl. markað ákveðna stefnu, sem sé þá, að þar eigi hið opinbera — ríki og sveitarfélög — að hafa vissa forustu. Sú forusta getur verið með margvíslegu móti. Í sumum tilvikum nægir hvatning, fyrirgreiðsla og stuðningur við einkaaðila, hvort heldur það eru einstaklingar eða félög, en í öðrum tilfellum þarf hið opinbera e.t.v. að skerast í leikinn með beinni þátttöku í atvinnurekstrinum, t.d. með því að stuðla að stofnun nýrra atvinnufyrirtækja, með því að tryggja, að atvinnufyrirtæki, sem fyrir eru, séu fullnýtt o.s.frv. Hér þarf að grípa til þeirra úrræða, sem bezt henta á hverjum stað, alveg án tillits til allra fordóma um rekstrarform. Við framsóknarmenn teljum að vísu atvinnureksturinn almennt bezt kominn í höndum einstaklinga og félaga, en ríki og sveitarfélög verða að koma inn í atvinnureksturinn að okkar dómi, ef á þarf að halda. Uppbygging atvinnuveganna þarf að byggjast á þjóðfélagslegri yfirsýn. Það er auðvitað ekki hægt að gera allt í einu. Það verður að velja það úr, sem fyrir á að ganga og nauðsynlegast er og þjóðarheildinni er fyrir beztu. Þess vegna leggjum við framsóknarmenn áherzlu á nauðsyn ítarlegrar áætlunargerðar um atvinnuþróunina. Þar þarf hið opinbera að hafa forustu, gera áætlanir og sjá um, að þær komist í framkvæmd. Uppbygging og efling atvinnuveganna er að mínum dómi mál málanna. Þess vegna á að einbeita fjárhagslegri getu þjóðarinnar á næstunni að uppbyggingu atvinnulífsins fyrst og fremst. Það þarf að tryggja atvinnuöryggi í öllum byggðarlögum landsins. En til þess að hægt sé að hafa þá stjórn á atvinnumálunum, sem hér hefur verið lítillega minnzt á, þá er óhjákvæmilegt að hafa stjórn á fjárfestingunni. Þessa stefnu í atvinnumálum hafa framsóknarmenn sett fram ekki aðeins í almennum samþykktum, heldur hafa þeir mótað hana hér með flutningi þingmála. Ég nefni t.d. frv. um atvinnumálastofnun ríkisins, sem flutt var á næstsíðasta Alþ. og þá vísað til ríkisstj. En frá henni hefur síðan ekkert heyrzt um það mál. Það nægir ekki að mæta því máli með hrópum um það, að það séu höft, sem þar séu boðuð, og haftastefna, sem upp sé tekin. Það var skýrt tekið fram í grg. og okkar málflutningi með því frv., að það er ekki hið gamla leyfakerfi, sem við ætlumst til að upp sé tekið, heldur að stjórn verði höfð á þessum málum með setningu almennra reglna.

Ég nefni líka frv., sem flutt var á síðasta Alþ. um togaraútgerð ríkisins og um stuðning við útgerð sveitarfélaga eða félög, sem sveitarfélög eiga aðild að. En það var á því byggt, að ríkið keypti og ræki nokkra togara til atvinnujöfnunar og til atvinnumiðlunar. Og hinum þættinum, sem að mínum dómi var ekkert þýðingarminni, má ekki gleyma. Það var gert ráð fyrir því, að ríkið stofnaði sjóð, sem hefði það hlutverk að leggja fram nokkurt fé í sambandi við útgerðarfélög, sem stofnað yrði til með atbeina sveitarfélaga til þess að brúa það bil, sem því miður er viða fyrir hendi, þrátt fyrir góðan vilja og fórnfús framlög frá heimamönnum.

Það má að sjálfsögðu nefna mörg önnur mál, sem við höfum flutt og munum flytja á þessu þingi til áherzlu þessari stefnu okkar. Ég get t.d. nefnt mál varðandi iðnaðinn, eins og t.d. lækkun tolla á hráefnum og vélum til iðnaðar og eins rekstrarlán til iðnfyrirtækja, frv. um nýsmíði fiskiskipa innanlands o.fl., og ég get líka vísað til þeirra atriða, sem ég nefndi í ræðu minni hér í fyrra í sambandi við inngöngu í EFTA, en þar benti ég á ýmis atriði, sem nauðsynlegt væri að framkvæma, ef nokkur von ætti að vera til þess, að EFTA-aðild kæmi okkur að gagni. Sjálfsagt eru ýmis atriði í athugun og e.t.v. búið að framkvæma einhver þeirra, en ég hygg, að obbinn af þeim sé nú eftir. Og þ. á m. er auðvitað að mínum dómi óhjákvæmilegt að setja iðnþróunaráætlun, gera sér þannig grein fyrir því, hvert á að stefna í þeim efnum. En till. um það efni var af okkar hálfu fyrst flutt á Alþ. 1960.

Ég nefndi næst fjármál ríkisins. Ég skal nú ekki fara langt út í það efni, vegna þess að fjárlagaumræður munu fara fram nú á næstunni, en ég vil bara segja það, að það er kunnara en frá þurfi að segja, að útgjöld ríkisins hafa vaxið með ári hverju eða síðustu 5 árin um Í milljarð á ári að meðaltali. Og nú hafa menn séð fjárlagafrv. og sjá, hvaða upphæð er þar að finna, sem ber því vitni, að gert er ráð fyrir, að fjárlögin hækki um miklu meira en Í milljarð á þessu ári. Og það er ekki að furða, þótt stjórnarblaðið Vísir léti þau orð falla, að fjárlagafrv. væri leiðinlegt, en sannleikurinn er sá, að það er miklu meira en leiðinlegt; það er uggvænlegt, og jafnvel vil ég hafa enn sterkari orð og segja, að það sé hrollvekjandi. Ég held, að það verði ekki haldið áfram öllu lengur á þessari braut. Auðvitað liggur það í augum uppi, að útgjöld hljóta að vaxa, þegar verðbólga vex, eins og hér hefur átt sér stað, og auðvitað er ekki óeðlilegt, að fjárlög í þjóðfélagi, sem er í örum vexti, vaxi eitthvað, en ég held því fram, að hér hafi allt of langt verið gengið og að hér verði að spyrna við fótum, það megi ekki alltaf hafa þann háttinn á að leita bara að nýjum tekjupóstum á móti til að jafna metin. Ég held, að það sé óhjákvæmilegt að fara að líta á útgjaldahliðina og athuga það í mikilli alvöru, hvort ekki er hægt að koma einhverjum sparnaði við. Ég held, að það verði að fara að gæta þess mjög, hvort ekki er hægt að gæta meira hófs í beinum rekstrarútgjöldum en nú virðist vera gert. En annað skiptir þó ekki minna máli í sambandi við fjárlögin, og það er að endurskoða tekjuöflunarleiðirnar. Ég fæ ekki betur séð en að því sé stefnt að ná sem mestu af ríkistekjum með almennum neyzlusköttum. Sú stefna sýnir sig í hækkun söluskatts, jöfnun innflutningsgjalda og vanreiknun persónufrádráttar. Það er athyglisvert, að söluskatturinn skuli nú vera orðinn langsamlega hæsti tekjuliðurinn, þessi skattur, sem á sínum tíma var af áhrifamönnum talinn ranglátastur allra skatta hér á landi. Og sannleikurinn er sá, að það er nú svo komið, að skattabyrði almennings er orðin óhæfilega þung. Og það eru vissulega takmörk fyrir því, hvað mikið er hægt að leggja á fólkið í þessu landi. Framsfl. er algerlega andvígur þessari skattastefnu. Hann vill hafa aðflutningsgjöld mjög mismunandi há eftir því, um hvers konar vörur er að tefla, lág á nauðsynjavörum, en há á hinum ónauðsynlegri. Framsfl. vill fella niður söluskatt af brýnustu lífsnauðsynjum. Hann vill, að persónufrádrátturinn breytist í samræmi við framfærslukostnað, þannig að gildi hans haldist óbreytt þrátt fyrir verðbólgu, og sama gildir um skattþrepin. Við viljum einnig bæta skatteftirlitið, svo að komið verði í veg fyrir þau stórfelldu skattsvik, sem virðast eiga sér stað. Þess vegna höfum við flutt tillögur um, að gerður verði útdráttur á svo sem tíunda hverju skattframtali til sérstakrar rannsóknar, og við viljum enn fremur laga skattgreiðslur fyrirtækja, þannig að þau geti afskrifað með eðlilegum hætti og safnað nokkrum varasjóðum. Og að því er það atriði varðar geri ég ráð fyrir, að við getum verið sammála því, sem hæstv. forsrh. sagði í sinni stefnuræðu áðan. En þar er skemmst af að segja, að þessa stefnu okkar í skattamálunum höfum við undirstrikað og munum undirstrika á þessu þingi með tillögu- og frumvarpaflutningi. En um þetta efni skal ég nú ekki ræða nánar, eins og ég sagði, vegna þess að það verður eðlilega gert í sambandi við fjárlagaumræður.

Verðbólguvandamálið og dýrtíðarmálin eru áreiðanlega eitt stærsta vandamálið, eins og sakir standa. Vaxandi verðbólgu vilja margir eingöngu rekja til kauphækkunar þeirrar, sem samið var um s.l. vor. Kjarabætur voru þá óhjákvæmilegar, eins og á stóð. Ísland var orðið láglaunasvæði, og virðast í raun og veru allir hafa verið sammála um það, að kjarabætur yrðu að koma til. Ég held, að þær kjarabætur, sem um var samið, hafi ekki verið úr hófi fram, ef rétt hefði verið á haldið. Ég vil a.m.k. ekki sætta mig við þá tilhugsun. Það er annað slagið verið að segja, að Ísland sé í röð þeirra ríkja, sem hafa hvað mestar þjóðartekjur miðað við einstakling. Það virðist því eitthvað vera bogið eða eitthvað vera að einhvers staðar, ef ekki er þá unnt að greiða það kaup, sem er eitthvað í námunda við það, sem er hjá nágrannaríkjum. Aðalatriðið var auðvitað, að umsamdar kauphækkanir færu ekki strax með fullum þunga út í verðlagið. Það þurfti að gera ráðstafanir til að afstýra því. Það var ekki gert, og þess vegna hefur verðbólguþróunin orðið svo ör á þessum tíma, eins og raun ber vitni, og þess vegna stefnir nú í það óefni, sem fram undan er, ef ekkert verður að gert.

Hvað á að gera? Við framsóknarmenn státum ekki af því, að við eigum neinn töfrasprota til þess að vinna gegn verðbólgu. Ég vil segja það, að ég hef mjög takmarkaða trú á því, að það sé hægt að stöðva verðbólgu algerlega. Hins vegar held ég, að það sé hægt að halda henni í nokkrum skefjum. Þar dugir ekkert eitt ráð, held ég, heldur verður að lita á fleira og fleira að koma til. En ég held, að það sé ástæða til þess að líta á það, hvaða úrræði hafa dugað bezt í baráttu við verðbólguna. Því er um þessar mundir mjög haldið að mönnum, að öllum ríkisstj. hafi gengið jafnilla í baráttunni við verðbólguna. Það er ekki rett, það má sýna með tölum. Það er t.d. athyglisvert, að á öllu tímabilinu frá 1950 til 1960 hefur vísitala vöru og þjónustu aðeins hækkað um 123%. En á tímabilinu frá 1960 og þangað til í ágúst 1970 er samsvarandi hækkun 250%. Og vitaskuld væri ekki óeðlilegt að taka til athugunar verðlagshækkanir á Norðurlöndum og á Íslandi og bera þær saman, bæði á undan og eftir að núverandi stjórn tók við völdum. Það gæti verið lærdómsríkt. Um það er t.d. upplýsingar að finna í Nordisk statistisk skriftserie nr. 16 á bls. 45, en þetta rit er gefið út af aðilum frá Norðurlöndunum. Þar litur þetta t.d. þannig út, að á árunum 1954–1958 er meðaltalsverðhækkun á ári sem hér segir: Í Danmörku 4%, í Finnlandi 7%, á Íslandi 6%, Noregi 3% og Svíþjóð 4%. En svo, ef maður tekur tímabilið 1958–1967, en lengra nær ekki þessi skýrsla, þá lítur dæmið hins vegar þannig út, að þá hefur meðaltalshækkun árlega orðið í Danmörku 4%, Finnlandi 41/2%, Íslandi 10%, Noregi 3% og Svíþjóð 31/2%.

Ég held, eins og ég sagði, að það dugi hér ekkert eitt úrræði, heldur verði að grípa til fleiri úrræða og þar er m.a. eitt, sem við höfum bent á og flutt frv. um á þessu þingi, og það er niðurfelling söluskatts af brýnustu nauðsynjum. Að sjálfsögðu geta niðurgreiðslur komið hér líka til greina og e.t.v. er hægt að nota tryggingakerfið á einhvern hátt í þessu skyni og að sjálfsögðu einnig sterkt verðlagseftirlit, og sjálfsagt getur líka verðstöðvun í einhverri mynd komið til álita. En það verð ég að segja af því, sem hæstv. forsrh. sagði, að ég skildi nú ekki vel þá röksemdafærslu, að það þyrfti að tengja eða væri líklegt, að verðgæzlufrv. tengdist með einhverjum hætti hugsanlegri verðstöðvun. Ég held, að það fari ekki á milli mála, að andinn í verðgæzlufrv. var meira frelsi þeim aðilum til handa, sem við verzlun fást. Þess vegna held ég, að sá andi samrýmist illa verðstöðvun. Ég held þvert á móti, að samfara verðstöðvun yrði auðvitað að koma til miklu sterkara verðlagseftirlit en ella.

Ég nefndi í fjórða lagi skóla- og menningarmál. Það hefur margt verið gert í skóla- og menningarmálum á undanförnum árum og ég hef enga tilhneigingu til þess að gera lítið úr því. Samt sem áður er það staðreynd, að við höfum dregizt aftur úr í þessum efnum, t.d. borið saman við nágrannaþjóðir okkar, við höfum ekki haldið til jafns við þær. Og það er ákaflega margt ógert í þessum efnum hjá okkur, ekki hvað sízt á barnaskóla- og gagnfræðaskólastiginu, þar sem sums staðar er um hreint ófremdarástand að ræða og ekki mögulegt að fullnægja lögboðinni fræðsluskyldu. Aðstaða ungmenna til náms er ákaflega misjöfn eftir búsetu. Iðnfræðsla er að margra dómi enn á hálfgerðu miðaldastigi. Það skortir mikið á, að rannsóknarstarfsemin sé fullnægjandi. Ég held, að í þessum efnum þurfi að gera stórt átak. Ég get út af fyrir sig fagnað þeim yfirlýsingum, sem hæstv. forsrh. gaf varðandi þessi mál, þar sem hann lýsti því yfir, að það væri stefnt að, ef ég tók rétt eftir, gagngerðri endurskoðun á skólakerfinu og það yrðu lögð fram frv. um skólakerfið, fræðsluskyldu og grunnskóla, og um nýskipan kennaramenntunar og um námsefni og fjölgun námsleiða og endurskoðun tæknimenntunar. Þetta er allt góðra gjalda vert. Ég vil þó segja það, að skólakerfi má ekki að mínum dómi verða nein fabrikkuframleiðsla. Það hefur mikið verið rætt um það á undanförnum árum, t.d. í Norðurlandaráði, að það ætti að samræma skólakerfi í þessum löndum. Ég er engan veginn fylgjandi því. Ég álít, að við höfum sérstöðu um svo margt og að við þurfum að fara okkar eigin götur í þessum efnum að ýmsu leyti. Ég held, að skólastarfsemin þurfi fyrst og fremst við það að miðast að koma hverjum einstaklingi til nokkurs þroska. Framsfl. hefur flutt og mun flytja á þessu þingi mörg frv. varðandi einmitt þessi mál, skóla-, fræðslu- og menningarmálin. Ég nefni t.d. till. um íþróttamál og íþróttastarfsemi, till. um stóraukið fé til rannsóknarstarfsemi íslenzks atvinnulífs, frv. um fiskiðnskóla og till. um endurskoðun á fræðslukerfinu o.fl. Og síðast, en ekki sízt er frv. um námskostnaðarsjóð, sem var flutt á síðasta þingi og er nú endurflutt hér, en þar er mörkuð sú stefna að jafna aðstöðumun barna og ungmenna til að afla sér menntunar. Það er spor í þá átt að viðurkenna, að fjárskortur eigi ekki að standa því í vegi, að hver og einn eigi að geta fengið menntun við sitt hæfi.

Þá minntist ég á endurskoðun stjórnsýslukerfisins. Það er að mínum dómi mjög brýn nauðsyn á því að taka stjórnsýslukerfið sjálft til gagngerðrar endurskoðunar og þá sérstaklega með það fyrir augum að gera það einfaldara, skilvirkara og opnara. Það þarf að opna embættissýsluna þannig, að almenningur og þar með blöðin eigi greiðari aðgang en nú að því að fylgjast með afgreiðslu mála í embættiskerfinu, geti m.a. kynnt sér ýmis gögn mála á stjórnarstigi og fengið upplýsingar um mál, sem almenning varða. Um það hefur nú, að ég bezt veit, verið sett löggjöf á Norðurlöndunum öllum. Ég held, að það sé líka ástæða til að athuga, hvort ekki er þörf á því að setja sérstaka löggjöf um starfsaðferðir á vettvangi stjórnsýslunnar, en sum Norðurlandanna a.m.k. hafa einmitt nýlega sett slíka löggjöf hjá sér. Ég held, að það þurfi líka að taka til gaumgæfilegrar athugunar, hvort það er ekki rétt að setja hér á stofn embætti umboðsmanns Alþingis líkt og gert hefur verið á Norðurlöndunum öllum öðrum en Íslandi, en sá embættismaður hefur einmitt það hlutverk að hafa sérstakt eftirlit með stjórnsýslunni. Ég held, að það sé þörf á slíku aðhaldi. Að mínum dómi þarf að hverfa frá hinni óhóflegu hleðslu á einstaka menn, sem átt hefur sér stað á sviði stjórnsýslunnar að undanförnu. Og það þarf að draga úr nefndafjöldanum. Þar er að mínum dómi komið út í algerar öfgar. Menn minnast þeirra umr., sem fóru fram um það efni á Alþ. s.l. vor. Ég ætla ekki að rifja þær upp hér. Og auðvitað tek ég það fram, að margar nefndir eru að sjálfsögðu nauðsynlegar og margar nefndir vinna sitt starf vel, en ég held, að það ver$i að halda þessu innan eðlilegra marka, og ég held, að í þessu efni séum við komnir út í ógöngur. Umfram allt þurfum við að mínum dómi að hverfa frá þeim óeðlilegu og óviðeigandi starfsháttum, að ráðherrar sitji í sjóðsstjórnum og úthlutunarnefndum sem þeir hafa svo yfir að segja sem æðra stjórnvald. Slíkir stjórnarhættir þekkjast ekki lengur í nálægum löndum, t.d. er það bannað í Danmörku með lögum frá 1959, að ráðherra hafi nokkur aukastörf á hendi. En hér munu nú flestir ráðherrarnir eða kannske allir hafa nokkur aukastörf, að vísu misjafnlega mikil. Ég skal ekkert fara að telja þau hér upp. En ég held, að allir réttsýnir menn sjái, að þetta nær ekki nokkurri átt, og ég held, að menn hljóti að sjá og skilja, að svona stjórnarhættir hljóta að draga dilk á eftir sér. Ég flutti á síðasta Alþ. í byrjun desembermánaðar þáltill. á þá lund, að Alþ. lýsti því yfir, að það teldi óviðeigandi, að ráðh. sætu í slíkum stjórnarnefndum og úthlutunarnefndum. Þessi till. var því miður aldrei tekin til umr. og segir það kannske sína sögu. Ég mundi fagna því, ef ég þyrfti ekki að flytja þessa þáltill. aftur á þessu þingi, ef ráðh. fyndu það hjá sjálfum sér, að þeir eiga að hverfa frá þessum starfsháttum.

Þá nefndi ég byggðajafnvægismál. Það þarf að stuðla að auknu jafnvægi í byggð landsins með eflingu þéttbýliskjarna og kaupstaða, sem fyrir eru það þarf að efla atvinnulíf þar, en jafnframt þarf að hugsa um sveitirnar og fólkið, sem þar býr. Það þarf að búa þannig að þessu fólki, að það hafi svipaða aðstöðu og það fólk, sem býr á hinum stærri þéttbýlissvæðum. Þar er ekki nóg að líta á atvinnumálin. Það þarf líka að jafna hina félagslegu og menningarlegu aðstöðu, t.d. með tilliti til skólamála og heilbrigðismála. Það þarf líka að athuga með dreifingu ríkisstofnana, hvort ekki er hægt að styrkja einstök byggðarlög með því að setja þar niður ríkisstofnanir, sem hingað til hafa verið settar á mestu þéttbýlissvæðin. Það þarf á þessum stöðum að skapa möguleika fyrir ungt og menntað fólk. Það er staðreynd, að mörg þessi byggðarlög hafa lagt til og leggja til ungt fólk, sem menntar sig, en það fer ekki aftur heim í byggðarlögin. Það er mikil blóðtaka fyrir þessi byggðarlög. Hvers vegna fer ekki þetta fólk heim? Af því að það er ekki aðstaða þar fyrir hendi. Það hefur ekki tækifæri þar. Það þarf umfram allt að vinna að því að skapa möguleika í hinum dreifðu byggðum, kaupstöðum og kauptúnum víðs vegar um landið, til þess að geta tekið á móti þessu fólki, þessu unga, menntaða og efnilega fólki. Það út af fyrir sig mundi auðvitað stórkostlega styrkja þessar byggðir og verða kannske drýgra til þess að efla jafnvægi í byggð landsins heldur en margt annað. Það er áreiðanlegt, að víða um land er almennur áhugi í þessum efnum og sterk tilfinning, og fólkið finnur til á þann hátt, að það sé afskipt, og ég held, að það sé með réttu. Ég var í sumar staddur á fjórðungsþingi Norðlendinga, sem haldið var á Blönduósi. Þar var gerð ályktun um byggðaþróun, sem að stóðu menn frá öllum flokkum, og ég vil leyfa mér að lesa hana upp, af því að ég held, að í henni felist og hún sýni betur, hvað í hug fólksins býr í þessum efnum, heldur en löng ræða frá minni hendi. En þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Fjórðungsþing Norðlendinga, haldið að Blönduósi 27. og 28. ágúst 1970, vill vekja athygli stjórnvalda, stjórnmálaflokka ég alls almennings á hinu uggvænlega ástandi byggðar á Íslandi. Ekkert þróað þjóðfélag býr við svipað ástand og hérlendis, að meira en helmingur þjóðarinnar búi á einu borgarsvæði samtímis því, að ekkert byggðarlag utan þess svæðis sé nægilega öflugt til þess að standa undir þjónustuþörfum nútímafólks. Þótt ýmislegt hafi áunnizt á undanförnum árum, svo sem með tilkomu atvinnujöfnunarsjóðs og gerð byggðaáætlana, fer því enn fjarri, að byggðastefna sé hér eins fast mótuð eða eins ákveðin og meðal ýmissa nágrannaþjóða okkar. Með tilliti til þess, að senn líður að kosningum til Alþingis, beinir þingið því til stjórnmálaflokkanna, að er þeir marka stefnu sína til næstu fjögurra ára, verði byggðamálin tekin til nánari athugunar en áður.“

Í þessum byggðamálum höfum við framsóknarmenn vissulega markað okkar stefnu. Það höfum við m.a. gert með frv., sem flutt var á síðasta Alþ., frv. um jafnvægisstofnun ríkisins og sérstakar ráðstafanir til að stuðla að verndun og eflingu landsbyggðar og til að koma í veg fyrir eyðingu lífvænlegra byggðarlaga með rannsóknarstörfum, áætlanagerð og fjárhagslegum stuðningi. Það frv. mun verða flutt á þessu þingi.

Um landhelgismálið ætla ég ekki hér að fara mörgum orðum, af því að hæstv. forsrh. vék að því í sinni inngangsræðu, og mér virtist við fljótlega athugun, að þar mundu skoðanirnar falla saman, og ég get alveg tekið undir það, sem hann sagði, að það er mjög nauðsynlegt að halda þannig á því máli, að sem víðtækust samstaða landsmanna varðveitist um það. En það þarf vitaskuld að halda á því máli með einbeitni og festu, en jafnframt gæta þess þó að rasa þar ekki um ráð fram.

Herra forseti. Ég vil nú ljúka mínu máli með því að undirstrika það og leggja áherzlu á það, að það hefur verið Framsfl. mikið áhugamál að undanförnu og er, að starfshættir Alþingis geti tekið nokkrum breytingum og starfsskilyrði þm. geti batnað, og þess vegna vil ég alveg sérstaklega fagna yfirlýsingu hæstv. forsrh. um það efni og vil vænta þess, að hann beiti sér fyrir samkomulagi allra flokka um viðunandi lausn á þeim málum.