15.10.1970
Sameinað þing: 3. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 2065 í B-deild Alþingistíðinda. (2230)

Tilkynning frá ríkisstjórninni

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Hér hefur verið lesin upp ályktun miðstjórnar Alþýðusambands Íslands, sem gerð var á fundi hennar s.l. sunnudag, og nokkuð verið um það rætt, hvort birting hennar hér á þessum stað væri rétt eða ekki. Ég vil til skýringar á þessu máli aðeins segja það, að á þessum alþýðusambandsstjórnarfundi á sunnudaginn var frá því gengið, að þessi ályktun væri ekki til notkunar opinberlega fyrr en hún hefði verið rædd í þeirri viðræðunefnd, sem hefur setið á fundum fyrir frumkvæði ríkisstj. Ég verð að segja það, að það er orðið í raun og veru allt of langur tími liðinn frá því að þessar viðræður hófust án þess að þjóðinni allri væri gerð grein fyrir þeim nánar en þó hefur verið gert. Hv. 9. þm. Reykv. telur það hafa verið skyldu sína að lýsa fyrir Alþ., hvernig þessi mál stæðu. Í þessum efnum teldi ég mig fyrst og fremst hafa skyldur gagnvart mínum umbjóðendum í verkalýðshreyfingunni. Þeim höfum við ekki enn þá birt þetta plagg, og teldi ég ekki Alþ. þurfa að hafa forgang fram yfir þau félagasamtök. Ég tel hins vegar, að sá háttur eigi að vera á í samskiptum aðila varðandi svona ályktanir, sem miðstjórn Alþýðusambandsins gerði ráð fyrir og ríkt var á lagt við alla meðlimi miðstjórnarinnar, — og forseti sambandsins var þar ekki undanskilinn — að ekki yrði notað á annan hátt en þar var gert. Nú hefur það hins vegar skeð. Ég harma ekki, að þetta plagg er orðið opinbert, síður en svo. En hins vegar teldi ég, að það hefði átt að gerast á þann hátt, sem miðstjórnin hafði þegar ákveðið að það skyldi gerast.