09.11.1970
Efri deild: 13. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 2096 í B-deild Alþingistíðinda. (2244)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Dómsmrh. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Vegna ummæla hv. 5. landsk. þm. vil ég taka það fram, að ég hef ekki sjálf í rn. orðið vör við það mál, sem hann hér hreyfði, að það mundi vera um að ræða aukinn fjölda landhelgisbrota. Nú skal ég viðurkenna það, að að sjálfsögðu mun ekki berast til rn. tilkynning um hvert einstakt brot, sem á sér stað. Ég veit ekki, hvort aðeins bar að skilja hv. þm. þannig, að menn teldu, að það væri um aukinn fjölda brota að ræða, en að sjálfsögðu mun ég, eftir að þetta hefur komið hér fram í þessum umr., kynna mér, hvað það kann að hafa við að styðjast, og að sjálfsögðu mun rn. — og hefur að sjálfsögðu alltaf gert það, — leggja áherzlu á það, að landhelginnar sé svo vel gætt sem frekast er kostur. Ég get sem sé á þessu stigi ekki fleira um þetta sagt.