18.11.1970
Efri deild: 17. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 2098 í B-deild Alþingistíðinda. (2247)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Sjútvrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég tel ástæðu til þess vegná fréttar í einu dagblaða okkar í morgun að gefa eftirfarandi upplýsingar:

Svo sem kunnugt er, hefur verið mikið af smáfiski á fyrsta ári í rækjuafla Ísafjarðarbáta að undanförnu. Hefur verið um það fjallað í umræðum blaða og annarra og á öðrum samkomum undanfarnar vikur. Af þeim sökum lét Hafrannsóknastofnunin fara,fram athugun á þessu, og voru tveir starfsmenn hennar með rækjubát daglega síðari hluta fyrra mánaðar eða nánara tiltekið frá 20. okt. Auk þess var rannsóknarskipið Hafþór við athuganir á þessu í Ísafjarðardjúpi um líkt leyti. Enn fremur hafa tveir starfsmenn Hafrannsóknastofnunarinnar verið vestra í þessum mánuði og eru nú þar með rækjubátum til þess að kanna samsetningu aflans. Mælingar í bátunum hafa sýnt, að um mikið smáseiðadráp hefur verið að ræða og hefur það stundum orðið allt að 40% af aflanum. Meðalstærð þorsksins hefur verið um 10 cm, en ýsunnar tæpir 13 cm, og er þetta fiskur, sem fæddur er í ár. Samkv. mælingum starfsmanna Hafrannsóknastofnunarinnar voru af þorskinum um 95 í hverju kg, en 60 af ýsunni. Þetta samsvarar því, að á klukkutíma hafi veiðzt rúm 8 kg af þroski og 21/2 kg af ýsu og á hinn bóginn var meðalafli af rækju 126 kg. Auk þorsks og ýsu fengust ýmsar aðrar tegundir fisks á fyrsta ári, svo sem lýsa, spærlingur, loðna, síld, karfi o.fl. Talsverðar sveiflur voru í magni af þorskseiðum frá einum tíma til annars og eins eftir dýpi og virðist mest grynnst.

Hafrannsóknastofnunin taldi, að héldi veiðin áfram á líkan hátt, mundi það geta haft neikvæð áhrif á framtíð þessa þorskárgangs í Ísafjarðardjúpi og af þeim sökum lagði hún til, að rækjuveiði yrði bönnuð í Seyðisfirði, Hestfirði og Skötufirði við Ísafjarðardjúp, þ.e.a.s. innan línu frá Kambsnesi um nyrzta enda Vigur og þaðan í Ögurnes. Fiskifélag Íslands mælti einnig eindregið með því, að þessar ráðstafanir yrðu gerðar. Enn fremur barst áskorun sama efnis frá aðalfundi Landssambands ísl. útvegsmanna, sem haldinn var 5.–7. nóv. eða hálfum mánuði eftir að fyrstu rannsóknir hófust á þessum miðum. Þessar ráðstafanir voru gerðar eftir að ítarlegar athuganir höfðu verið framkvæmdar og leiddu í ljós, að seiðadrápið hélt áfram, þ.e.a.s. það var ekki, að því er virtist, skammtímafyrirbrigði, en að því lutu rannsóknirnar, að komast að því, hvort hér væri um skammtímafyrirbrigði að ræða, en svo reyndist ekki. Var einnig kannað rækilega, hvaða ráðstafanir væru heppilegastar, og varð niðurstaðan sú, sem áður greinir.

Þetta taldi ég nauðsynlegt, vegna umræddrar fréttar, að upplýst yrði á hv. Alþ. nú þegar.