02.03.1971
Sameinað þing: 29. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 2112 í B-deild Alþingistíðinda. (2262)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Jón Skaftason:

Herra forseti. Í hádegisútvarpinu í dag var frá því greint, að landburður væri nú af loðnu til Vestmannaeyja og þessi landburður væri svo stórfenglegur, að verksmiðjurnar væru hættar að geta tekið á móti afla annarra báta en heimabáta. Að sjálfsögðu eru þetta mikil gleðitíðindi fyrir Íslendinga, en það vekur þó í huganum minningar frá s.l. ári einmitt í sambandi við mikinn loðnuafla, er honum var landað í svo stórum stíl til einstakra verksmiðja, að þær höfðu ekki þróarrými til að veita aflanum móttöku og geyma hann á hagkvæman hátt og létu aka honum út um allar grundir, á nærliggjandi tún og upp í dali með þeim afleiðingum, að aflinn beið þarna svo að vikum skipti sums staðar og skemmdist að meira eða minna leyti. Úr þessu hráefni var unnið skemmt lýsi, sem mér er tjáð að hafi orðið að fleygja á einstaka stað, og gæði loðnumjölsins, sem unnið var úr þessu hráefni, urðu miklu minni heldur en verið hefði, ef aflinn hefði verið tiltölulega nýr, þegar hann fór til vinnslunnar og því í betra ásigkomulagi og gefið betri afurðir. Ekki einasta þjóðin sem heild tapar á slíkri meðferð verðmæta, heldur sumar stéttir sérstaklega, og hún er þeim mun óskiljanlegri, þar sem það er staðreynd, að á sama tíma og sumar fiskimjölsverksmiðjur yfirfylla sín geymslurými og þurfa að nota nálægt land til þess að geyma hráefnið, standa verksmiðjur við hliðina á þeim ónýttar, eins og gerðistí fyrra, frekar en í hittiðfyrra, að tvær síldarverksmiðjur ríkisins Fengu engan loðnuafla á sama tíma og honum var landað í stríðum straumi til einkaverksmiðja á Austfjörðum og víðar. Svona fyrirkomulag hlýtur að skaða þjóðina um ómældar fjárfúlgur, og manni virðist, að hér hljóti að vera hægt að stemma á að ósi, bjarga verðmætum fyrir þjóðarbúið og koma í veg fyrir það skipulagsleysi, sem slík vinnubrögð sem þessi bera vott um. Ástæðan til þess, að ég nota þetta tækifæri til þess að vekja athygli á þessu, er ekki einasta sú frétt, sem barst í hádegisútvarpinu, heldur og bréf, sem okkur þm. Reykn. barst frá fyrirtæki í Hafnarfirði, sem heitir Lýsi og mjöl; og er dagsett 15. febr. s.l. Á stjórnarfundi í þessu fyrirtæki, sem haldinn var 12. febr. s.l., var m.a. gerð svofelld samþykkt, sem ég vil leyfa mér að lesa, með leyfi hæstv. forseta, til þess að vekja eftirtekt hv. Alþ. og þá ekki sízt hæstv. sjútvrh., — sem ég hygg, að þessi málefni heyri undir, - á málefninu. En þar segir svo:

„Með tilliti til þess, að mikil misskipting hefur verið á löndun og vinnslu á loðnu á undanförnum vertíðum og þá sérstaklega á vertíðinni 1970, viljum við benda hv. þm. Reykn. á eftirfarandi:

Verksmiðjurnar á Austurlandi og í Vestmannaeyjum tóku á móti meira magni af loðnu en þær gátu með góðu móti afkastað eða geymt með eðlilegum hætti. Var þá loðnunni landað úti á víðavangi. Þetta veldur að sjálfsögðu mikilli rýrnun á hráefni, enn fremur verður lýsið súrt, þegar loðnan er unnin mjög gömul, og hætt er við, að mjölið innihaldi ammoníak og fari því í lélegan gæðaflokk og geti hæglega orðið illseljanlegt, þegar eftirspurn eftir mjöli er lítil. Á sama tíma og þetta átti sér stað stóðu síldar- og fiskimjölsverksmiðjurnar hér við Faxaflóa með 2000–2500 tonna afkastagetu á sólarhring svo til ónotaðar. Með því að skipuleggja flutninga á loðnunni hefðu verksmiðjurnar við Faxaflóa getað unnið fyrsta flokks mjöl og lýsi úr öllu þessu hráefni.

Með hliðsjón af framangreindu vill stjórnin vekja athygli á eftirfarandi: Hvort ekki væri hægt að koma skipulagi á þessi mál, t.d. í samráði við Landssamband ísl. útvegsmanna, þannig að þegar verksmiðja hefur tekið á móti hæfilega miklu magni í þrær, t.d. þriggja vikna vinnslu, væri henni óheimilt að birgja sig af hráefni til langs tíma, en veiðiskipum skylt að landa hráefninu til annarra verksmiðja, sem hefðu nægjanlegt geymslurými og afkastagetu til þess að vinna efnið í sómasamlegu ástandi. Með þessu mundi tvennt vinnast. Í fyrsta lagi: Úr góðu hráefni fæst góð vara og þar af leiðandi hæsta mögulegt verð. Enn fremur er nýting verksmiðjanna miklu betri úr góðu hráefni og þar af leiðandi mundu verksmiðjurnar skila auknu framleiðslumagni og verðmeira. Rétt er enn fremur að benda á, að Norðmenn hafa komið skipulagi á þessi mál hjá sér fyrir nokkru og hefur það gefizt vel. Norðmenn hafa einnig annan hátt á verðlagningu loðnunnar. Þeir verðleggja hana eftir fituinnihaldi, þannig að hún er greidd á föstu verði miðað við ákveðið fitulágmark, t.d. 3%, og síðan er fituprósentan greidd upp. Þar af leiðir, að norsku verksmiðjurnar geta ekki sankað að sér svo miklu hráefni, að þær eigi á hættu að skemma lýsið og mjölið.

Við viljum eindregið beina þeim tilmælum til alþm. Reykn., að þeir athugi þessi mál gaumgæfilega og þá jafnframt hvort ekki megi finna viðhlítandi lausn á þessu máli hið bráðasta.“

Eins og ég sagði áðan, þá er hér um stórt þjóðhagslegt hagsmunamál að ræða, og ég mundi segja, að ef nokkur einstök stétt í þessu landi tapaði sérstaklega á vinnubrögðum sem þeim, sem ég var hér að lýsa, þá væri það sjómannastéttin og útgerðarmenn þeirra skipa, sem loðnuveiðar stunda. Svo hlálegt sem það nú kann að virðast, þá eru einmitt þær verksmiðjur, sem kaupa í ofurkappi miklu meira loðnumagn til vinnslu en þær geta ráðið við með góðu móti, sá aðilinn, sem minnstu tapar, vegna þess að við verðlagningu í verðlagsráði á loðnunni á hverri vertíð liggja fyrir reikningar verksmiðjanna, og hráefnisverðið til útgerðarinnar og til fiskimannanna, sem loðnuna veiða, er m.a. ákvarðað af greiðslugetu verksmiðjanna. Þess vegna hygg ég, að það sé ekki úr vegi að vekja hér á hv. Alþ. athygli hæstv. sjútvrh. á þessu vandamáli með beiðni um það, að hann íhugi, hvort hér sé ekki auðvelt að grípa til einhverra úrræða, er geti betrumbætt þetta ástand, og dettur mér þá í hug, að vel kæmi til greina, að Seðlabankinn breyti sínum endurkaupareglum á víxlum frá viðskiptabönkunum m.a. með hliðsjón af því, að óeðlilegt sé að endurkaupa viðskiptavíxla af viðskiptabönkunum út á hráefni, sem sett er á „guð og gaddinn“ og enginn veit, hvort verður nokkurn tíma að verðmæti. Og þá kemur líka til greina, þó að mér sé það ekki alveg ljóst af lestri á lögum um fiskmatið, en mér sýnist, að þar muni vera að finna heimildir til þess, að starfsmenn fiskmatsins hafi þau afskipti af þessum málum, er geti leitt þau til betri vegar.