02.03.1971
Sameinað þing: 29. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 2114 í B-deild Alþingistíðinda. (2263)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Sjútvrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 2. þm. Reykn. fyrir að vekja máls á þessu vandamáli, og það er alls ekki af því, að þetta vandamál hafi ekki verið til umr. í rn. og meðal þeirra manna, sem mestra hagsmuna eiga að gæta í sambandi við þessar veiðar, sem eru tiltölulega ungar í því formi, sem þær eru nú. Áður fyrr var loðna eingöngu hugsuð sem beita fyrir línubáta, en hefur nú í stórauknum stíl verið brædd til lýsis og úr henni unnið mjöl með góðum árangri og gefið mikið í aðra hönd, sérstaklega síðan hinar svonefndu síldar- eða loftdælur — þrýstidælur — hafa verið teknar til notkunar bæði við veiðina og löndunina. Það, sem í fyrsta lagi hefur komið upp í huga manna, er spurningin um möguleika til flutninga á landi, enn fremur flutninga á sjó og aukið þróarrými í landi, þar sem betur væri að hráefninu búið og því bjargað frá skemmdum. Við þessar hugleiðingar vakna þá aftur spurningar eins og sú, sem gildir að sjálfsögðu um allan fisk: Hve árvissar eru þessar loðnugöngur, hve lengi standa þær og hve mikið magn berst á hverri vertíð? Og svo sú, sem er undirstaða þessara hugleiðinga: Hvað þolir sjálft afurðaverðið mikla fjárfestingu, nýja fjárfestingu til betri dreifingar á þessu hráefni? Þetta er ákaflega sveiflukennt. Þessar afurðir eru seldar á ákaflega sveiflukenndu verði, þó að það hafi stigið allmikið tvö s.l. ár vegna þess fyrst og fremst, hversu lítil síldveiði hefur verið. En við rekum okkur á þá staðreynd, að þær verksmiðjur, sem brætt hafa þennan afla á undanförnum árum, eru staðsettar með allt annað í huga, með síldveiðar gömlu áranna í huga og þeim dreift um landið, og þótti mörgum nóg að gert í þeim efnum, þegar síld fór að tregast, og jafnvel of mikið um ónotað verksmiðjuafl í landi, sem aðeins, þegar bezt gegndi, var notað um 2– 3 mánaða skeið á árinu, en stóð ónotað þess á milli.

Allt þetta hlýtur að rifjast upp í sambandi við hugleiðingar um úrbætur í þessum efnum, sem ég tek undir með hv. þm. að eru fyllilega þess virði að ræddar séu á Alþ. og teknar til gaumgæfilegrar athugunar. Hann gat þess einnig hér inn í milli, sem er umhugsunarefni fyrir alþm. alla, að svo hefði á staðið, að einkaverksmiðjur á Austurlandi hefðu nánast getað valið úr bátaflotanum og fengið nægjanlegt hráefni á meðan aflinn var í námunda við þær stöðvar, á sama tíma sem opinberu verksmiðjurnar, sem gjarnan vildu fá sér slíkt hráefni einnig, fengu ekkert. Ég skal ekki í þessu sambandi vera með neinar getsakir hér, en þær sögur eru þrálátar, að einkaverksmiðjunum hafi tekizt að bjóða betur eða einhver fríðindi, sem gerðu það að verkum, að bátarnir vildu heldur landa hjá þeim heldur en hjá ríkinu, sem að sjálfsögðu gat ekki verið þekkt fyrir annað en að greiða hið opinbera auglýsta verð. Þetta gefur eðlilega útgerðarmönnum og sjómönnum tilefni til þess að efast um, að verðlagningin sé rétt, og telja ástæðu til þess að athuga þá hluti nánar. En þessar staðreyndir lágu fyrir. Einkaverksmiðjurnar sátu fyrir þeim afla, sem á Austfirði barst, fyrir utan þær verksmiðjur, sem áttu sjálfar sína eigin báta þar, eins og á Norðfirði. En hitt hlýtur að vekja grun allra hugsandi manna um, hvers vegna mátti ekki eins landa hjá þeim, sem vildu greiða hið opinbera og auglýsta verð, samkomulagsverð í verðlagsráði, og það hlýtur nánast að liggja í því, að einhverra annarra fríðinda hafi þau skip notið hjá einkaverksmiðjunum.

Það er talað um að reyna að skikka — með samkomulagi að vísu við Landssamband ísl. útvegsmanna — skipin til að landa hér og þar eftir fyrirfram ákveðnum reglum til þess að dreifa aflanum betur á verksmiðjurnar og nýta verksmiðjukraftinn betur. Og í því sambandi er vitnað til Norðmanna. Mér er kunnugt um, að í sambandi við síldina, — ég skal ekki segja um, hvernig þetta skipulag er í sambandi við loðnuafurðirnar, — en mér er kunnugt um, að í sambandi við síldina fengu norskir sjómenn og útgerðarmenn misjafnt verð fyrir síldina eftir því, hvar þeir lönduðu henni. Það var nánast þannig, að því norðar sem bátarnir lögðu á sig að fara með síldina til atvinnuleysissvæðanna, þeim mun hærra verð fengu þeir fyrir síldina. Þetta var hreint atvinnuspursmál og Norðmenn höfðu efni á því að yfirfæra fjármuni frá sínum verzlunarflota yfir til sjávarútvegsins, en sjávarútvegur er hjá þeim, þótt oft sé okkur líkt saman, ekki nema 7–8% af þeirra gjaldeyristekjum á meðan hann er 90–95% hjá okkur. Ég verð samt sem áður — þó að við höfum ekki neina slíka sjóði til að hlaupa í — að viðurkenna, að hér er hreyft máli, sem þarf nánari endurskoðunar við. En við skulum hafa það í huga, að þetta er ekki eins auðvelt og manni kynni að virðast, að segja bátnum, sem heitir þetta og er númer þetta, að landa loðnu á þessum stað, því að þarna sé rúm og þarna vanti hráefni, því að til þessa dags hafa skipstjórarnir sjálfir viljað fá að ráða því, hvar þeir lönduðu hverju sinni. Og þeir með sinni kappsemi í veiðimennsku eru eðlilega að hugsa um að ná upp sem mestum afla og sigla sem skemmsta leið til lands. Ef þeim er boðið þar sama verð og þeir geta fengið kannske með sólarhrings siglingu til viðbótar, eins og fyrir Reykjanes og hér inn í Faxaflóa allt austan af Hornafjarðarmiðum, þá þarf náttúrlega engan að undra, þó að skipstjórarnir velji heldur bæði sjálfs sín vegna, skipshafnarinnar og útgerðarinnar höfnina, sem nær liggur. En þetta mál er sjálfsagt að fái frekari athugun, og ég er reiðubúinn til þess að koma henni á, þannig að málið geti fengið sem eðlilegasta afgreiðslu. Það er á sinn hátt sárgrætilegt, að hér við Faxaflóa eru verksmiðjur, sem ekkert hráefni hafa og liggja mánuðum saman aðgerðarlausar á sama tíma sem yfirfyllist á öðrum stöðum. Ég hygg, að flutningar með einhverjum hætti hljóti að verða lausnin á þessu. Við fáum ekki, a.m.k. ekki í neinu snarhasti, fiskiskipaflotann sjálfan til að afsala sér andvirði eins til tveggja fullferma, skulum við segja, fyrir það eitt að sigla fyrir Reykjanes með aflann, auk þeirrar hættu, sem það er á þessum tíma árs að leggja fullhlaðin skip svo langa leið. Og enginn okkar óskar eftir því, að það verði lögð mannslíf í hættu til lausnar þessum vanda.

Ég sem sagt met það við hv. þm. að minna á þetta hér, því að þó að þetta sé mál, sem öllum hefur verið ljóst, þá er það þessum annmörkum háð, sem ég hef hér drepið á, en hins vegar sjálfsagt að leita allra þeirra úrræða, sem kostur er, ef það er í mannlegu valdi að leysa hann.