06.04.1971
Neðri deild: 90. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 2119 í B-deild Alþingistíðinda. (2266)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svör hans. Þau eru ánægjuleg, a.m.k. að því er varðar rn. hans. Hann lýsir því hér yfir, að það beri enga ábyrgð á þessari könnun, á starfsemi þeirra manna, sem nefndir hafa verið, Braga Jósefssonar og þessa Bandaríkjamanns, Thomas Dunn.

Þá er spurningin. Hver ber ábyrgðina? Eitthvert rn. hlýtur að bera ábyrgðina, virðist manni, því að það er augljóst af þeim spurningum, sem lagðar eru fyrir börnin, að hér hlýtur að vera um lögbrot að ræða. Ef þetta er ekki brot á íslenzkum lögum, þá vantar eitthvað í íslenzk lög, að því er varðar mannréttindi og friðhelgi einstaklinga. Það er sannarlega alvarlegt mál, að útlendir aðilar geti efnt til slíkrar könnunar hér og flutt til útlanda, í þessu tilfelli til Bandaríkjanna, upplýsingar um einkahagi fólks og skoðanir, svo að skiptir hundruðum og jafnvel þúsundum. Og það verður að sjálfsögðu að stöðva þessa starfsemi, alveg skilyrðislaust að stöðva hana. En þetta er ekki nóg. Það er krafa þess fólks vestur á Snæfellsnesi, sem á börn í þeim skólum, þar sem þessi könnun fór fram, — margt af þessu fólki hefur haft samband við mig, — það er krafa þess, að þessum gögnum verði skilað aftur til foreldranna og minna dugir ekki. Og mér virðist, að hér komi til kasta dómsmrn. að beita sér fyrir þessu. Ég trúi því ekki, að í þessu tilfelli þurfi að leita álits annarra en okkar sjálfra. Ég trúi því ekki, að í þessu tilfelli þurfi að spyrja þá í Washington, hvað leyfilegt sé.