04.02.1971
Efri deild: 45. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 2132 í B-deild Alþingistíðinda. (2273)

Starfshættir Alþingis

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki blanda mér neitt í þær umr., sem hér hafa faríð fram varðandi afgreiðslu mála. Ég get almennt efnislega undir það tekið, að það ber að sjálfsögðu að stefna að því í deildum þingsins og raunar sameinuðu þingi einnig að afgreiða sem allra flest af þeim málum, sem fram eru lögð, hvort sem það er neikvæð eða jákvæð afgreiðsla, það er annað mál, sem ég skal ekki út í fara. En ástæðan til að ég stend hér upp er fyrst og fremst sú, að það var vikið að því, að það væri nauðsynlegt, að ríkisstj. sæi til þess að skipta eðlilega verkefnum milli deilda, og því var haldið fram af hv. 11. þm. Reykv., að þetta hefði mjög verið vanrækt á þessu þingi. Ég vil leyfa mér að draga mjög í efa, að þetta sé rétt. Ég hef ekki að vísu nema mjög fljótlega litið yfir þau stjórnarfrv., sem flutt hafa verið, en gerði það svona rétt undir ræðu hans í bunka þeirra, sem lá fyrir framan mig, sem er orðinn æði þykkur, þegar allt kemur til alls. Það er satt, að það hefur ekki vantað mál hér á Alþ., en það hefur verið reynt að skipta málum á milli deilda einmitt með það sjónarmið í huga, sem hann lýsti og er alveg hárrétt, að það eigi að reyna að hagnýta sem bezt starfskrafta deildanna. Það er að vísu svo með sum mál, og ég á þar t.d. við þau mál, sem nú hafa verið flutt nýlega varðandi menntamálin, að það þykir mjög æskilegt, að þau séu samhliða til meðferðar í sömu d. í senn, og það er ástæðan til að þau eru flutt öll í Nd. Að vísu hefði eins mátt flytja þau í Ed., ég er ekki að segja það, ef þau eru flutt öll í sömu d. Ég hef flutt flest þau mál, sem hafa verið á mínum vegum, hér í Ed., og ég held, að þegar þetta er skoðað niður í kjölinn, sé ekki hægt að segja, að það sé mjög mikið ósamræmi á milli starfsemi deildanna að þessu leyti, enda eru það ekki stjfrv. sem slík, sem hafa valdið mismunandi starfsemi d. Þeir eru kannske mælskari líka í Nd., ég skal ekki segja um það, það kann að vera. Þeir eru líka fleiri og fleiri ræður fluttar þar og kann af þeim sökum að vera, að fundir séu þar lengri. En varðandi stjfrv. þá vil ég í fyrsta lagi taka undir það, að ég er hv. þm. sammála, að það á að skipta þeim á milli deilda, en í öðru lagi benda á, að ég held, að það sé ekki alveg rétt mat hjá honum, að það hafi verið vanrækt sérstaklega á þessu þingi að fylgja þeirri reglu.

Varðandi svo það atriði, sem hv. 5. landsk. þm. vék hér að, að það ylli miklum seinagangi í starfi n., að ýmsar stofnanir og þá fyrst og fremst opinberar stofnanir svöruðu seint erindum, sem til þeirra væru send til umsagnar, þá vil ég segja það sem mína skoðun, að ég er í mjög miklum vafa um, að það eigi að fylgja þeirri reglu almennt að senda mál til umsagnar alls konar aðila eins og gert er. Ég álít fyrir mitt leyti, — ég tek það fram, að það er aðeins mín persónulega skoðun, en ég hef lengi haft hana, — að það eigi að gera miklu meira að því að kalla á fulltrúa frá stofnunum eða embættismenn til viðræðna við þn., vegna þess að það kemur í rauninni miklu meira út úr slíkum viðtölum heldur en því að vera að fá bréflega einhverjar umsagnir, sem oft og tíðum upplýsa ekki þau atriði, sem einstakir nm. jafnvel óska eftir að fá upplýsingar um. Held ég að það mundi flýta mjög starfsemi nefnda í deildum, væri þessi háttur upp tekinn. Ég er hér ekki að gefa neina forskrift um það, hvernig n. eigi að starfa, þær ráða því sjálfar, en ég aðeins segi þetta í tilefni af þessum orðum hv. þm.