08.02.1971
Efri deild: 46. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 3 í C-deild Alþingistíðinda. (2363)

181. mál, sala Holts í Dyrhólahreppi

Fram. meiri hl. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um það frv., sem hér liggur fyrir. Landbn. hefur fjallað um það áður og sjónarmið meiri hl. hennar, sem ég túlka hér, hefur verið skýrt áður fyrir hv. dm. Við lítum svo á, að enn hafi ekkert nýtt komið fram í málinu, sem sé þess valdandi, að það breyti afstöðu okkar til frv. Á það er að vísu bent í nál. minni hl. landbn., að hreppsnefnd Dyrhólahrepps leggi nú einróma fram meðmæli með þessu frv. Sú eina breyting, sem þarna hefur orðið, er að, að það hefur verið skipt um hreppsnefndarmenn, en heima fyrir í sveitarfélaginu er það, eftir því sem ég veit bezt, óbreytt, að menn eru þar mjög skiptir í afstöðu til þessa máls. Meiri hl. landbn. hefur þá sannfæringu, að það muni síður en svo verða til þess að lægja þann þyt, sem verið hefur um þetta málefni í sveitarfélaginu, að hrófla við því nú frekar en áður. Ég fullyrði, eins og ég sagði áðan, að hér hefur engin breyting orðið á, og meiri hl. landbn. leggur því til eins og áður, að þetta frv. verði fellt.

Ég sé svo ekki ástæðu til, herra forseti, að fjölyrða frekar um þetta, en undirstrika það, sem ég hef áður sagt, að meiri hl. landbn. leggur til, að frv. verði fellt