08.02.1971
Efri deild: 46. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 3 í C-deild Alþingistíðinda. (2364)

181. mál, sala Holts í Dyrhólahreppi

Frsm. minni hl. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Þetta mál er auðvitað ekkert nýtt fyrir hv. Ed.–menn. Það hefur oft verið hér á ferðinni áður og verið samþ. í þessari d. á undanförnum þingum. Það er flutt hér og því er andmælt með sömu rökunum og að undanförnu. Það eitt hefur breytzt í þessu efni, sem hv. frsm. meiri hl. minntist hér á, að nú mælir hreppsnefnd Dyrhólahrepps óskipt með framgangi þessa máls. Ég geri líka ráð fyrir, að það sé rétt hjá honum, að ekki séu þar með úr sögunni allar mótbárur gegn þessu í þeirri sveit, en ég tel nú samt, að nokkuð sé upp úr þessu leggjandi, ekki sízt, þar sem það er vitað, að hreppsnefndarkosningarnar í þessari sveit snerust að verulegu leyti um þetta mál og með þeim afleiðingum, að þar voru þeir einir kosnir í hreppsnefnd, sem voru því meðmæltir, að ríkið veitti heimild til þessarar sölu. Ég get því ekki verið sammála hv. frsm. meiri hl., að hér sé ekki um neitt það lóð á vog í þessu máli að ræða, sem vert sé að taka tillit til. Ef menn vilja taka tillit til álits almennings, þá hefur það komið fram í síðustu hreppsnefndarkosningum í Dyrhólahreppi og það styður eindregið þá skoðun, sem áður hefur verið sýnt fram á hér í d., að hér sé um að ræða málefni, sem sé þess eðlis, að það er skoðað sem rangsleitni gagnvart viðkomandi ábúendum og afnotaréttarhöfum af jörðinni Holti þar í sveit, að ríkisvaldið skuli ekki láta þetta mál lúta svipuðum lögmálum og það lætur yfirleitt flest önnur jarðasölumál ríkisins lúta. En það gerir það ekki.

En svo er það hin hlið málsins, að þetta mál er að verða hneyksli í Alþ. Hér er þetta mál búið að vera lengur á ferðinni, en nokkurt annað mál, sem nú eru hér flutt frv. um og það hefur ekki komið fram annað í þinginu en málið eigi þingfylgi. En hvers vegna er það þá ekki afgreitt?

Þá komum við að því, sem er hneykslið í málinu. Hér spyrnir aðili gegn afgreiðslu málsins, — aðili, sem hefur tök á að hindra það, að Alþingi skili áliti og afgreiði mál af þessu tagi þetta mál einmitt — og gerir það með þeim hætti, að orðið er af því hneyksli, því ber ekki að neita.

Ég sé ekki ástæðu til að rekja málið í einstökum liðum. Það hefur verið gert hér svo oft og liggur fyrir á þskj. handa þeim, :sem vildu lesa það þar. Þess vegna treysti ég því, að alþm. muni yfirleitt koma fram í þessu máli af sannfæringu sinni. Ég fer hins vegar fram á það við forseta d., að hann láti ganga um þetta mál atkv., þegar d, er fullskipuð eða því sem næst. Það er hún ekki núna og þess vegna legg ég til, að málinu verði vísað til 3. umr., en atkvgr. um það verði frestað að þessu sinni.